Varnir gegn hávaða- og hljóðmengun

144. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 11:15:00 (6473)

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir fsp. til hæstv. forsrh. um varnir gegn hávaða- og hljóðmengun. Fsp. er flutt af mér og hv. þm. Ragnari Arnalds og er svohljóðandi:
    ,,Hvað líður samningu frv. til laga um varnir gegn hávaða- og hljóðmegnun, sbr. ályktun Alþingis 22. maí 1988?``
    Þessi ályktun Alþingis var byggð á till. til þál. sem þingmenn úr öllum þingflokkum stóðu að og við fyrirspyrjendur vorum flm. að, hv. þm. Ragnar Arnalds fyrsti flytjandi till. Hún var samþykkt eins og hún var lögð fyrir þingið. Í grg. með till. sagði, með leyfi forseta, það eru örfáar línur:
    ,,Með vaxandi notkun véla og tækja í nútímaþjóðfélagi fer hljóðmengun vaxandi ár frá ári. Hér er ekki aðeins átt við hávaða frá ökutækjum, flugvélum og atvinnurekstri. Ýmiss konar hljóðmengun t.d. í formi tónlistar og talaðs orðs úr hátölurum`` --- virðulegur forseti. Það er nú ansi mikil hljóðmengun hér úr hliðarherbergi. ( Forseti: Forseti er sammála því og biður hv. þm. í hliðarherbergjum að tala lægra.) --- ,,á almannafæri, bæði úr útvarpi og af segulböndum, hefur mjög færst í vöxt á seinni árum.
    Brýnt er að spyrna við fótum og draga úr hávaða og hljóðmengun sem lítil nauðsyn kallar á. Ýmis ákvæði eru í lögum og reglugerðum sem banna háreysti og hávaða en flest eru þau ófullnægjandi. Þörf er á heildarlöggjöf um þessi mál og því er þessi tillaga flutt.``
    Ég vitna hér til þessarar greinargerðar til þess að skýra fsp. og tel að ég þurfi ekki að bæta þar við, en bíð svars hæstv. forsrh.