Varnir gegn hávaða- og hljóðmengun

144. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 11:17:19 (6474)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Það sýnir sig að það er full ástæða til að ræða mál af þessu tagi þar sem þingmaðurinn fékk varla nægilegt hljóð í salnum til þess að mega mæla fyrir fsp. um varnir gegn hávaða- og hljóðmengun. En vegna þessarar fsp. hv. þm., 4. þm. Austurl. og 3. þm. Norðurl. v., hef ég leitað álits heilbr.- og trmrn. til að undirbúa þetta svar. --- Ég vil biðja forseta um að gera varnir gegn hávaða- og hljóðmengun úr næsta herbergi. ( Forseti: Forseti er að gera tilraunir til að minnka hávaða í kring.)
    Í sem stystu máli er niðurstaðan sú að ekki var talin þörf á nýrri löggjöf á þessu sviði. Um svipað leyti og ofangreind þáltill. var samþykkt var lokið við endurskoðun laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sbr. lög nr. 81/1988. Eftir að ályktun Alþingis var samþykkt 22. maí 1988 hafa verið settar tvær reglugerðir með ítarlegum ákvæðum um hávaða- og hljóðmengun. Nánari rökstuðningur þeirrar niðurstöðu að ekki sé talin þörf á nýrri löggjöf um þessi mál er því eftirfarandi:
    Með stoð í fyrrnefndum lögum var mengunarvarnareglugerð nr. 386/1989, með síðari breytingum, sett og hefur hún að geyma ákvæði um hávaða- og hljóðmengun, sbr. VII. kafla og 5. viðauka reglugerðarinnar. Þar kemur fram að mengun af völdum hávaða skuli vera undir ákveðnum viðmiðunarmörkum. Í viðaukanum er getið viðmiðunarmarka á iðnaðarsvæðum, í blandaðri byggð, í hreinni íbúðarbyggð og í sumarhúsabyggð. Viðmiðunarmörkin eru mismunandi, bæði eftir tegund byggðar og tíma dags. Hávaðavarnir skulu miðast við að hávaðamengun sé innan við viðmiðunarmörk. Í undantekningartilfellum er heilbrigðisnefnd heimilt að leyfa hávaða yfir viðmiðunarmörkum á takmörkuðum svæðum. Að hávaðavörnum skal stuðla með eftirfarandi hætti:
    1. Forráðamenn fyrirtækja og stofnana skulu gera allt sem unnt er til að koma í veg fyrir óþægindi af völdum hávaða.
    2. Eigendur vélknúinna ökutækja skulu sjá um að farartæki þeirra valdi ekki óþarfa

hávaða.
    3. Við allar verklegar framkvæmdir skal þess sérstaklega gætt að ekki verði óþægindi vegna hávaða.
    Reynist hávaðavarnir ekki nægar skal heilbrigðisnefnd gera tillögur til sveitarstjórnar t.d. um takmörkun umferðar og/eða starfsemi á ákveðnum tímum og svæðum.
    Ný heilbrigðisreglugerð sem einnig á stoð í fyrrnefndum lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit var sett árið 1990, nr. 149 með síðari breytingum. Í XXII. kafla reglugerðarinnar er fjallað um hávaða og titring. Þar er nánar vísað til fyrrgreinds VII. kafla og 5. viðauka mengunarvarnareglugerðarinnar. Jafnframt er þar að finna ákvæði um hvað atriði skuli hafa í huga við mat á heilsuspillandi áhrifum hávaða. Þar kemur og fram að heilbrigðisnefndir geti gefið fyrirmæli varðandi hljómflutningstæki og önnur tæki á almannafæri sem valdið geti hávaða og ónæði. Loks er þar að finna ákvæði um staðsetningu flugvalla og möguleika á takmörkunum á flugumferð vegna hávaðavarna. Rétt er að fram komi að í skýrslu fyrrv. forsrh. frá árinu 1990 um framkvæmd ályktana sem Alþingi samþykkti á árunum 1985--1989 kom fram að ekki væri talin ástæða til nýrrar löggjafar um það efni sem hér hefur verið rætt.