Ábyrgð verktaka

144. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 11:34:14 (6480)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt, sem fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, 9. þm. Reykv., að það er afar mikilvægt að verja hagsmuni húsbyggjenda og húseigenda þar sem

mjög oft er stór hluti ævisparnaðar fólks bundinn í húseignum þess. Hins vegar teldi ég að menn þyrftu líka að huga að því að löggjöf um sérstaka ábyrgð kynni að takmarka rétt manna ef sú hugmynd er sköpuð að það þurfi alveg sérstök tiltekin lagaákvæði til þess að verja skaðabótarétt manna í einstökum tilfellum. Þetta segi ég fyrst og fremst vegna þess að með þeirri hugsun að setja þurfi lög um sérhvert tilfelli sem upp kynni að koma þegar menn geta að réttu talist hafa vanefnt samning sem þeir hafa gert erum við e.t.v. ekki að þróa okkar samningarétt og skaðabótarétt í rétta þátt. Það er hins vegar athugandi að nágrannaþjóðir okkar, Norðmenn og Svíar, hafa sett sérstök neytendaþjónustulög til þess að vernda rétt neytenda gagnvart iðnaðarmönnum. Það snýr yfirleitt fyrst og fremst að viðgerðarþjónustu og minni háttar þjónustu iðnaðarmanna. Ég tel að þar sé fyrst og fremst verið að lögfesta það sem sé eðlileg viðskiptavenja og ábyrgð manna sem stunda lögmæta atvinnu, en engu að síður höfum við lagt okkur fram um að kynna okkur þessi ákvæði laganna. En ég kem aftur að því, virðulegi forseti, að kjarni málsins er að mínu áliti sá að verja þá sem kaupa þjónustu verktaka gegn greiðsluþroti þeirra og þar hljóta að koma til einhver tryggingarákvæði.
    Dæmi eins og hv. 5. þm. Vestf. nefndi áðan eru að sjálfsögðu mjög tilfinnanleg og það þarf að huga að ákvæðum í lögum einmitt til þess að efla ábyrgð verktakanna og það verður best gert á grundvelli trygginga.