Eftirlit með opinberum fjársöfnunum

144. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 11:36:00 (6481)

     Fyrirspyrjandi (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 855 er ég með fsp. til hæstv. dómsmrh. um eftirlit með opinberum fjársöfnunum. Það eru mörg þau málefni sem njóta sérstaks velvilja hjá almenningi í þessu landi, svo sem ýmiss konar líknarmál og önnur slík viðkvæm mál, þannig að oft og tíðum er mjög auðvelt fyrir félagasamtök að fara út í opinberar fjársafnanir til að afla góðum málstað peninga. Þetta hefur verið gert á mörgum sviðum og tekist afskaplega vel til og hefur ýtt undir með mörgu góðu máli.
    Þessar safnanir eru framkvæmdar með ýmsum hætti. Mjög algengt er að söfnun fari fram í gegnum síma, gegnum útvarp, sjónvarp eða með heilu sjónvarpsþáttunum og ótrúlegar upphæðir safnast oft og tíðum í þessum tilfellum. Ég hef heyrt þá tölu nefnda að í síðustu söfnun sem fram fór á vegum fjölmiðils hafði safnast yfir 30 millj. kr. fyrir vegalaus börn. Þarna hefur afskaplega vel til tekist.
    En eftir stendur sú spurning hvaða tryggingu gefandi hafi fyrir því að það fé sem hann gefur í opinberri fjársöfnun renni til þess málefnis er því er ætlað og það er sú spurning í fyrsta lagi sem ég vildi bera fram við hæstv. dómsmrh.
    Félagasamtök eða einstaklingar þurfa að fá leyfi eða tilkynna til dómsmrn. að slík fjársöfnun eigi að fara af stað. Þetta er gert í nafni viðkomandi félagasamtaka og því spyr ég í öðru lagi hæstv. dómsmrh.: ,,Getur sá sem tilkynnir til lögreglustjóra eða fær leyfi dómsmrn. fyrir opinberri fjársöfnun látið annan aðila sjá um framkvæmd fjársöfnunarinnar fyrir sig?``
    Því er haldið fram af Eggert Ásgeirssyni, deildarstjóra í Seðlabankanum, í Fjármálatíðindum sem komu út 1988, að það séu um það bil 4% af vergi landsframleiðslu sem oft og tíðum safnist í gegnum opinberar fjársafnanir til ýmiss konar góðgerðarmála. Þetta gæti þýtt 15--20 milljarða ísl. króna. Því spyr ég hæstv. dómsmrh. í þriðja lagi: ,,Hve margar opinberar fjársafnanir hafa verið tilkynntar lögreglustjóra eða leyfi fengist fyrir hjá dómsmrn. á undanförnum þremur árum?``
    Lög um opnberar fjársafnanir eru nr. 5/1977. Í 6. og 7. gr. stendur, og ætla ég að fá að vitna, með leyfi hæstv. forseta. Í 6. gr. segir:

    ,,Halda skal nákvæmt reikningshald yfir söfnunarfé og öll útgjöld við hverja fjársöfnun. Skal reikningshaldið endurskoðað af löggiltum endurskoðanda eða þeim, sem dómsmrn. kann að útnefna til slíks.``
    Í 7. gr., með leyfi virðulegs forseta, segir:
    ,,Áður en sex mánuðir eru liðnir frá því að fjársöfnun lýkur, skal reikningsyfirlit hennar birt a.m.k. einu sinni í dagblaði, vikublaði eða á annan hátt. Sé söfnunarfé undir þeirri upphæð, sem ákveðin er í reglugerð, nægir þó að tilkynna opinberlega, að reikningsyfirlit fjársöfnunar sé til sýnis í a.m.k. 14 daga á nánar tilteknum stað.``
    Að lokum spyr ég hæstv. dómsmrh.: ,,Hefur ákvæðum 7. gr. laga nr. 5/1977 verið fullnægt í öllum tilfellum?``