Eftirlit með opinberum fjársöfnunum

144. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 11:40:25 (6482)


     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Sem svar við fyrstu spurningu er það að segja að um opinberar fjársafnanir gilda lög um opinberar fjársafnanir nr. 5 frá 24. mars 1977. Til þess að tryggja að ekki sé misfarið með fé sem safnast eru sett nokkur lagaákvæði um framkvæmd slíkra safnana. Til að safna fé þarf skv. 3. gr. laganna annaðhvort að fá leyfi dómsmrn. eða tilkynna söfnunina til lögreglustjóra. Tilkynning skal bera með sér í hvaða tilgangi fjársöfnun fer fram. Í 5. gr. er ákvæði um vörslu söfnunarfjár sem segir að því skuli komið fyrir á sérstökum reikningi. Þar segir einnig að óheimilt sé að nota söfnunarfé í öðrum tilgangi en upphaflega var ætlað nema leyfi dómsmrn. komi til.
    Í 6. gr. er eins og hv. fyrirspyrjandi gat um kveðið á um nákvæmt reikningshald yfir söfnunarfé og öll útgjöld við söfnunina. Reikningshald á löggiltur endurskoðandi eða maður sérstaklega tilnefndur af dómsmrn. að endurskoða. Með þessum hætti er reynt að tryggja að söfnunarfé renni örugglega til þess málefnis sem því er ætlað.
    Sem svar við 2. spurningu er það að segja að skv. 1. gr. laga nr. 5/1977 er stofnunum, félögum eða samtökum manna heimilt að gangast fyrir fjársöfnun. Ekki verður ráðið af þessu eða öðrum ákvæðum laganna að þessum aðilum sé óheimilt að nýta sér þjónustu annarra aðila við framkvæmd söfnunar.
    Sem svar við 3. spurningu er það að segja í fyrsta lagi að opinberar fjársafnanir sem dómsmrn. veitir leyfi fyrir eru tvenns konar, merkjasölur og peningasafnanir. Í þeim síðarnefnd er afhent kvittun fyrir greiðslu eða einhverjir verðlitlir eða verðlausir hlutir sem viðurkenning fyrir framlag. Árlega hafa verið veitt um 50--60 slík leyfi á sl. þremur árum. Sum leyfi eru fyrir landið allt, en flest staðbundin við ákveðin sveitarfélög.
    Í öðru lagi eru tilkynningar til lögreglustjóra skv. 3. gr. Ekki hefur verið unnt að gera könnun meðal allra lögreglustjóra á því hvort þeim hafi borist slíkar tilkynningar, en til lögreglustjóraembættisins í Reykjavík bárust árin 1989--1992 alls þrjár tilkynningar.
    Sem svar við 4. fsp. er það að segja að skv. 7. gr. laganna skal birta reikningsyfirlit söfnunar áður en sex mánuðir eru liðnir frá því að henni lauk, a.m.k. einu sinni í dagblaði, vikublaði eða á annan hátt. Sömuleiðis skal senda viðkomandi lögreglustjóra reikningsyfirlit söfnunar ásamt tilkynningu um hvar og hvenær birting fer fram. Ekki liggur fyrir hjá ráðuneytinu yfirlit yfir slíkar birtingar né heldur upplýsingar um hvernig slíkar tilkynningar hafa borist lögreglustjórum, en samkvæmt upplýsingum lögreglustjórans í Reykjavík hefur aðeins eitt reikningsyfirlit borist frá árnu 1989.
    Í júlímánuði á síðasta ári þótti dómsmrn. rétt að skrifa öllum lögreglustjórum bréf vegna framkvæmdar þessara laga. Þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Hér með vill ráðuneytið ítreka eftirfarandi ákvæði laga um opinberar fjársafnanir nr. 5 frá 24. mars 1977:
    1. Að tilkynna skuli viðkomandi lögreglustjóra opinbera fjársöfnun.
    2. Að opinber fársöfnun á götum úti eða í húsum er aðeins heimil að fengnu leyfi dómsmrn.
    3. Að senda skuli viðkomandi lögreglustjóra reikningsyfirlit söfnunar og tilkynningu um hvar og hvenær reikningsyfirlit er birt, en birta skal það a.m.k. einu sinni í dagblaði, vikublaði eða á annan hátt. Jafnframt leggur ráðuneytið hér með fyrir að haldin skuli

við hvert embætti skrá yfir öll leyfi sem þar eru veitt til fjársöfnunar og skrá þar einnig reikningsyfirlit söfnunarinnar og birtingu þess. Ganga skal ríkt eftir því að reikningsyfirliti sé skilað.``
    Jafnframt er síðan vakin athygli á því í nefndu bréfi að brot á lögunum varði sektum.
    Með þessu bréfi vildi ráðuneytið fyrir sitt leyti ítreka til allra lögreglustjóra að fylgjast betur með framkvæmd þessara mála en gert hefur verið á undanförnum árum.