Starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar

144. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 11:52:53 (6487)


     Kristinn H. Gunnarsson :

    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 4. þm. Vestf. fyrir að hreyfa þessu máli og leita eftir svörum frá hæstv. sjútvrh. um áform ráðuneytisins í starfsfræðslumálum fyrir fiskvinnslufólk. Það sem fram kom í svörum hæstv. ráðherra lofar góðu og ég vil hvetja hæstv. ráðherra til þess að halda fast á þessum málum og knýja á um að þetta geti gengið sem ráð er fyrir gert, bæði á þessu ári og á næstu árum. Það er að mínu viti ákaflega þýðingarmikið að menn taki af fullri alvöru á starfsmenntun innan sjávarútvegsins, sérstaklega meðal ófaglærðs starfsfólks, bæði til þess að auka færni þess í starfi og einnig vil ég koma því að að ég tel að þessi námskeið eigi líka að vera fyrir þá sem ekki starfa í greininni, vera opin fyrir þá sem í dag eru utan starfa en hefðu gjarnan áhuga á að koma þar að. Ég vildi beina því til hæstv. ráðherra, en mér heyrðist nú samt á svari hans að það væri gert ráð fyrir því að einhverju leyti.