Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness

144. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 11:58:20 (6491)

     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 856 legg ég fram fsp. til menntmrh. um bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness. Tilefnið er það að á hátíðarsamkomu sem haldin var í tilefni af níræðisafmæli Nóbelsskáldsins í Þjóðleikhúsinu nú nýverið, nánar tiltekið á sumardaginn fyrsta, tilkynnti hæstv. menntmrh. að menntmrn. og útgáfufyrirtækið Vaka--Helgafell mundu í sameiningu efna til sérstakra bókmenntaverðlauna sem bera mundu nafn þessa höfuðskálds okkar. Slík verðlaun eru vissulega virðingarvert framtak og löngu tímabært að stjórnvöld sýndu skáldinu slíkan sóma að efna til einhvers konar verðlauna sem bæru hans nafn. En það er alls ekki sama hvernig að þessum málum er staðið og það getur orkað mjög tvímælis að nota opinbert fé til að fjármagna handritasamkeppni á vegum eins tiltekins forlags sem með þeim hætti nær auðvitað til sín öllum efnilegustu byrjendunum á ritvellinum. Og ef ég hef skilið rétt það sem komið hefur fram í fjölmiðlum munu þarna a.m.k. fyrstu hugmyndir hafa verið um handritasamkeppni, þ.e. ekki verðlaun sem veitt væru eftir á fyrir góða bók eða eitthvað slíkt. Vegna þessa efasemda minna spyr ég hæstv. ráðherra:
    ,,Hvernig verður háttað þátttöku menntmrn. í þeim árlegu bókmenntaverðlaunum sem bera munu nafn Halldórs Laxness og stofnað verður til af ráðuneytinu og útgáfufyrirtækinu Vöku--Helgafelli?``