Afgreiðsla þingmála

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 12:59:00 (6503)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki eyða miklum tíma í umræður um þingsköp heldur ætlaði að fá að leyfa mér að upplýsa vegna orða hv. 2. þm. Vestf. í gær þar sem hann gagnrýndi hversu lítið hefði verið unnið í málefnum þingmanna þá langar mig sérstaklega með tilliti til hinna nýju þingmanna sem nú sitja hér í fyrsta skipti eða ættu að gera það, ég sé nú fæsta en ég vona að þeir hlýði á mál mitt einhvers staðar, að fá að upplýsa, frú forseti, og skal ekki taka langan tíma í það, að á 111. löggjafarþingi voru afgreidd 15 þingmannafrv. sem urðu að lögum, fjórum var vísað til ríkisstjórnarinnar, 25 þál. sem komu frá þingmönnum voru afgreiddar, níu var vísað til ríkisstjórnarinnar. Á næsta þingi, 112. löggjafarþingi, voru afgreidd sem lög 15 frv. þingmanna. Afgreidd með rökstuddri dagskrá tvö og og vísað til ríkisstjórnarinnar tíu. Þáltill. frá þingmönnum voru 31 á því þingi afgreiddar. Og á 113. löggjafarþingi, þ.e. í fyrravetur því 114. var stutta þingið, voru sjö þingmannafrv. afgreidd og 31 tillaga. Á þessu þingi hefur ekkert lagafrv. verið samþykkt sem þingmenn hafa lagt fram og fjórar þáltill. samþykktar og ég má segja að a.m.k. ein frá stjórnarþingmanni.
    Það er því ástæða til, hæstv. forseti, að þingmenn hafi eytt nokkrum tíma í umræður um þingsköp til að kvarta yfir því hversu fullkomlega allar tillögur þingmanna utan stjórnarflokkanna hafa verið hundsaðar. Ég vildi aðeins upplýsa þetta vegna orða hv. 2. þm. Vestf. í gærkvöldi.