Afgreiðsla þingmála

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 13:08:00 (6508)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Þegar Alþingi stóð í einni fylkingu að því að setja ný lög um störf þingsins í einni málstofu og ný þingsköp var það ætlun okkar að það yrði til þess að bæta um og menn horfðu fram á við með bjartsýni og eftirvæntingu. Það er mjög slæmt að síðan gerist það að hæstv. forsrh. hefur linnulaust í vetur beitt sér fyrir því að flytja anda og störf þingsins aftur til gömlu flokksræðistímanna sem voru í algleymingi á áratugnum 1960--1970. Ég held t.d. að ég fari nokkuð rétt með að allt það tímabil hafi aðeins ein tillaga frá stjórnarandstöðuþingmanni verið samþykkt á Alþingi í tólf ár. Síðan hófst breytingaskeið til framfara og aukins lýðræðis þegar Eysteinn Jónsson gerðist forseti sameinaðs þings 1971 og fór að beita sér fyrir öðrum anda og öðrum vinnubrögðum hér á Alþingi og það hefur verið starfað í þeim anda síðan.
    Á síðasta þingi og þinginu þar á undan átti ég sem fjmrh. töluverða samvinnu við þáv. hv. þm. Friðrik Sophusson og hv. þm. Geir Haarde sem voru forustumenn Sjálfstfl. í þeirri nefnd þingsins auk fjárveitinganefndar sem fjmrh. þurfti helst að eiga samskipti við. Og hér voru samþykkt frv. frá þingmönnum Sjálfstfl., hv. þm. Friðriki Sophussyni og hv. þm. Geir Haarde, sem ég tók þátt í sem fjmrh. að greiða götu fyrir hér í þinginu. Slík vinnubrögð hafa algerlega verið lögð niður að ráðherrar í þessari ríkisstjórn séu að hafa samvinnu við þingmenn stjórnarandstöðunnar, hvað þá heldur forustumenn í þingflokkum stjórnarandstöðunnar um að gera að lögum mikilvæg frv. frá þessum þingmönnum. Það hefur ekki gerst á þessu þingi. Þvert á móti hefur veri gerbreytt um anda og vinnubrögð.
    Ég taldi mig á síðasta kjörtímabili vera að stuðla að framþróun í þessum efnum og ég veit að hv. þm. Geir Haarde, sem hér er í salnum, getur staðfest þetta og slæmt að hæstv. núv. fjmrh. skuli ekki vera viðstaddur. Ég tel þess vegna mjög mikilvægt að núv. hæstv. ríkisstjórn og stjórn þingsins, sem er öll í höndum stjórnarflokkanna, sýni nú í verki síðustu daga þingsins að hún vilji í reynd halda við þeirri þróun, sem hófst hér 1971 og stóð allt til loka síðsta kjörtímabilis, að hér sé að störfum löggjafarþing en ekki bara afgreiðslustofnun eða stimpilklukka og vél fyrir ríkisstjórnina. Við munum fylgjast mjög grannt með því næstu daga hvort þessu þingi lýkur með svipuðum hætti og hv. þm. Guðrún Helgadóttir lýsti að hefði verið niðurstaða þinganna á undanförnum árum eða hvort flokksræðis- og gerræðistilhneigingar núv. forsrh. verða til að drepa í dróma það umbótastarf sem unnið hefur verið hér á Alþingi sl. 20 ár.
    Ég heyrði hvað hæstv. forseti sagði af forsetastól, að það skyldi spurt að leikslokum varðandi það hvað þingmenn fengju mikið samþykkt af sínum málum og afgreidd. Gott og vel. Við skulum spyrja að þeim leikslokum nk. þriðjudag. Það verður mjög fróðlegt að sjá hvort ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur farið með þjóðþingið 30 ár aftur í tímann.