Atvinnuleysistryggingasjóður

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 13:18:00 (6512)

     Svavar Gestsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er er það mál sem hér er til meðferðar flutt af nefnd og um það er samkomulag í hv. heilbr.- og trn. að flytja þetta mál, svo og annað dagskrármálið. Þess vegna var gert ráð fyrir því að þessi mál þyrftu ekki að fara til skoðunar í nefnd á ný. Ég hygg að hv. formaður nefndarinnar hafi ekki gert tillögu um það að málið færi aftur til nefndar.
    Nú háttar hins vegar þannig til að mér hafa borist nýjar upplýsingar um stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs sem gera það algerlega óhjákvæmilegt að nefndin fái frv. til meðferðar á ný. Samkvæmt upplýsingum sem ég fékk frá Atvinnuleysistryggingasjóði og dags. eru í gær, 13. maí, kemur fram að það vantar í sjóðinn á þessu ári miðað við það atvinnuleysisstig sem Þjóðhagsstofnun spáir nú 480 millj. kr. Á fjárlögum fara í Atvinnuleysistryggingasjóð 1.280 millj., en gert er ráð fyrir að það þurfi að borga 1.759 millj. Mismunurinn er með öðrum orðum tæplega hálfur milljarður kr. Þetta er samkvæmt nýjustu tölum frá Þjóðhagsstofnun og útreikningi sem okkur birtist frá fjmrn. sem endurskoðar áætlun fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð árið 1992 og setur fram hugmyndir fyrir árið 1993. Það kemur í ljós í þessum upplýsingum sem mér bárust í dag, svo og öðrum nefndarmönnum í hv. heilbr.- og trn., að á þessu ári er búið að borga út úr sjóðnum sýnist mér um 700 millj. kr. af þeim 1.200 millj. sem ríkið leggur sjóðnum til þannig að hér er bersýnilega um að ræða stórfellt vandamál. Ríkisstjórnin hefur ekki leitað eftir því við Alþingi að flutt

verði fjáraukalagafrv. út af þessu ástandi. Ríkisstjórnin hafði ákveðið að skerða atvinnuleysistryggingabætur. Heilbr.- og trmrh. hafði sagt að hann mundi lækka dagpeninga atvinnulausra. Nú stöðvaði verkalýðshreyfingin það í síðustu kjarasamningum og þá liggur það fyrir að þarna vantar 480--500 millj. kr. Ég tel því algerlega óhjákvæmilegt, virðulegi forseti, að leggja til að þessu frv. verði á ný vísað til hv. heilbr.- og trn. þannig að hún gæti gengið úr skugga um með eðlilegum hætti hvort fjármunir fást til að standa við útgreiðslu atvinnuleysisbóta á þessu ári.
    Eins og kunnugt er liggur fyrir Alþingi frv. til laga um greiðslur úr ríkissjóði sem ég hef út af fyrir sig ekki tekið þátt í miklum umræðum um, en þar er gert ráð fyrir því að það sé algerlega óheimilt að borga krónu umfram það sem stendur í fjárlögum. Það er bersýnilega stefnan hjá fjárln. og ríkisstjórninni ef ég hef skilið þetta rétt að hlutirnir eigi að vera þannig að menn borgi ekki krónu umfram það sem stendur í fjárlögum. Hér er hins vegar staðan þannig að það er nauðsynlegt að bæta við úr ríkissjóði 500 millj. kr. til að standa við lög um Atvinnuleysistryggingasjóð á þessu ári, 500 millj. kr. Þess vegna hvet ég til þess, virðulegi forseti, og ég geri beina tillögu um að þessu máli verði vísað til hv. heilbr.- og trn. Ég gæti út af fyrir sig lagt til að málinu yrði vísað til fjárln. þannig að hún gæti íhugað hvort hún á að flytja frv. til fjáraukalaga til þess að það séu heimildir til að borga út atvinnuleysisbætur. Það er mikill skaði að hér skuli ekki vera hv. formaður fjárln., sem er gamall verkalýðsleiðtogi frá fyrri árum, sagði af sér þegar hann varð formaður fjárln. af eðlilegum ástæðum, en það er fróðlegt að vita hvort hann væri kannski tilbúinn til að beita sér fyrir því að fjárln. flytji frv. til fjáraukalaga til þess að það verði hægt að borga út atvinnuleysisbætur á síðari hluta þessa árs sem er ekki heimilt eins og staðan er í dag miðað við þá stefnu sem ríkisstjórnin hefur haft.
    Þess vegna flyt ég þessa till., virðulegi forseti, um að málinu verði a.m.k. vísað til heilbr.- og trmn. og áskil mér allan rétt þar til að fara fram á það við fjárln. að hún beiti sér fyrir því að flutt verði frv. til fjáraukalaga til að tryggja að atvinnuleysingjar á Íslandi þurfi ekki að vera algerlega framfærslueyrislausir í lok þessa árs eins og íslenskir námsmenn.