Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 13:43:32 (6522)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég er reyndar alveg hættur að botna því hvað er gæsla þingskapa og hvað er efnisumræða um mál. Ég heyri ekki betur en hér sé verið að tala um málið sem á að fara að taka á dagskrá. En ef það má verða til þess að flýta eitthvað fyrir umræðum vil ég upplýsa það, sem ég hef þegar upplýst í umræðunni áður, að forsvarsmenn Lánasjóðs ísl. námsmanna hafa rætt við bankakerfið, við forustumenn bankanna. Það hefur komið fram að það hafa ekki hafist formlegar umræður við Búnaðarbankann. Ef hv. þm. Guðrún Helgadóttir hefur einhverjar aðrar upplýsingar, þá er hún að segja að framkvæmdastjóri Lánasjóðs ísl. námsmanna fari með rangt mál. Hún er að segja það. Og ég kann ekki við að heyra svoleiðis úr ræðustól Alþingis vegna þess að ég veit að þessar viðræður hafa farið fram.
    En ég hef jafnframt tekið fram þegar ég hef verið að upplýsa þetta í þinginu að þeim viðræðum er ekki lokið og það hefur að sjálfsögðu enginn samningur verið gerður milli lánasjóðsins og bankanna um fyrirgreiðslu bankanna í þessu samhengi vegna þess að slíkur samningur verður ekki gerður fyrr en þetta frv. er orðið að lögum. Það er ekki rétt sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir upplýsir hér að það hafi engar viðræður átt sér stað. Það hefur hins vegar ekki verður gerður samningur, ég ítreka það, og ekkert verið rætt um með hvaða hætti ábyrgðum verður háttað. Það hefur ekki verið gert þannig að hv. þm. Guðrún Helgadóttir er ekki að upplýsa einhverjar fréttir þó að hún segi núna að það hafi ekkert komið fram um að ábyrgðum verði háttað með öðrum hætti en venja er í bankakerfinu. Það hefur heldur ekkert um það verið samið þannig að það eru engar fréttir hér, alls ekki.
    Ég held að ég hafi ekki um þetta mál meira að segja í þingskapaumræðu, en ég hef kannski eitthvað meira um það að segja á eftir.