Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 13:58:00 (6530)


     Guðni Ágústsson (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég vil koma inn á eitt atriði sem minnst hefur verið á. Ég vil að vísu fyrst lýsa undrun á því að hér hafi náðst eitthvert samkomulag í þinginu um afgreiðslu á þessu máli þar sem það kemur fram að ríkisstjórnin ætlar hvergi að hvika frá þeim harkalegu áformum sínum í málinu og í rauninni beita námsmönnum og foreldrum þeirra á guð og gaddinn þegar haustar, hún ætlar hvergi að hvika. Þess vegna getur ekki verið neitt samkomulag í þessu máli. Hér var rætt um það atriði að hafin væri viðræða við bankana í landinu um málið. Ég get staðfest það eitt hvað Búnaðarbankann varðar að honum hefur verið skrifað bréf þann 9. apríl sl. þar sem um þetta er rætt, en viðræður hafa engar farið fram. ( Menntmrh.: Það hefur verið upplýst áður.) En ég staðfesti að þetta stendur með þessum hætti. 9. apríl er bréfið skrifað og engar viðræður hafa farið fram. Hvað námsmennina á haustdögum varðar, þá er þetta mál í mjög mikilli óvissu. Ég get upplýst það líka að bankamenn segja mér, bankastjórarnir, að þeir sjái ekki hvernig eigi að leysa þetta mál gagnvart unga fólkinu. Bæði muni það verða kostnaðarsamt fyrir bankana í landinu hvað starfsmannahald varðar, en fyrst og fremst muni verða erfitt um allar þær ábyrgðir sem verður að taka og allan kostnað sem mun leggjast á unga fólkið á Íslandi. Mér er ljóst að þetta mál er sett fram til að hrekja frá námi hundruð ungmenna sem hafa kosið og hafa hæfileika til að sinna langskólanámi. Þess vegna getur það ekki verið, miðað við þær upplýsingar sem hér hafa komið bæði frá forsrh. og hæstv. menntmrh., að menn hafi náð neinu samkomulagi í þinginu um afgreiðslu þessa máls. Við hljótum að halda áfram að berjast fyrir því að ríkisstjórnin átti sig á alvöru málsins, að hér er verið að fara út í slíka ófæru að hún gengur ekki upp.