Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 14:04:42 (6533)


     Geir H. Haarde (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins upplýsa varðandi málsmeðferð á þessu máli að í gær var haldinn fundur formanna þingflokka þar sem saman voru komnir formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar eða talsmenn auk forseta og þess sem hér stendur. Formaður þingflokks Alþfl. var því miður ekki viðstaddur. Þar var það tillaga talsmanna stjórnarandstöðuflokkanna, formanna þeirra, að þessari umræðu lyki í dag, á að giska kl. 3, og að atkvæðagreiðslan yrði á morgun. Ég hafði hins vegar þær hugmyndir að þessi umræða yrði á morgun en féllst á hina tillöguna. Mér þótti sanngjarnt að hafa þann háttinn á. Þetta er það sem í daglegu tali hér í þinginu er kallað samkomulag um meðferð mála. Þetta samkomulag var gert. Þetta gerðu formenn þingflokka og það væri býsna fróðlegt í ljósi þeirra umræðna sem hér hafa farið fram að láta á það reyna hvort við þetta samkomulag er ætlunin að standa eða ekki.
    Klukkan er orðin rúmlega tvö. Hér hafa verið þingskapaumræður samkvæmt venju í rúmlega klukkustund, en ég hygg að menn muni draga af því nokkurn lærdóm um samstarf í þinginu næstu dægrin hvort við þetta samkomulag, sem gert var að tillögu formanna þingflokka stjórnarandstöðuflokkanna varðandi þetta mál, verður staðið eða ekki.