Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 14:08:44 (6535)


     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég varð nokkuð undrandi á ræðu hv. þm. Geirs Haarde. Það er algengt að hér í þinginu geri menn samkomulag. Svo gerist það ærið oft í mannlegu lífi að það koma fram nýjar forsendur eða þá að menn telja að hlutirnir séu með öðrum hætti en talið var þegar samkomulagið var gert. Þá var hv. þm. Geir Haarde, formaður þingflokks Sjálfstfl., að lýsa þeirri skoðun sinni að afstaðan eigi bara að vera samkomulagið án nokkurs tillits til neins annars og mönnum stillt upp við vegg og sýndur hnefinn eins og hv. þm. Svavar Gestsson orðaði það hér. Ef þetta er hugsunarhátturinn sem ræður ríkjum í forustu Sjálfstfl. fer ég að skilja ýmislegt í dag. Þá er það kannski þannig að hæstv. menntmrh. leyfði sér ummæli sín hér vegna þess að hann ætlaði að skáka í því skjólinu að umræðan yrði búin eftir tvo klukkutíma þannig að ráðherrar ríkisstjórnarinnar fari að leyfa sér hvað sem er í dylgjum og aðdróttunum og áburði á þingmenn stjórnarandstöðunnar í ræðustól í skjóli þess að umræðan verði búin eftir tvo tíma. Eru þetta ,,trikkin`` sem nýja forustan í Sjálfstfl. hefur fundið upp, að fyrst reynum við að ná hér niðurstöðu í góðri trú og svo fari menn að skáka í því skjólinu, ráðherrar ríkisstjórnarinnar, og bera alls konar áburð á þingmenn stjórnarandstöðunnar í trausti þess að þeir hafi ekki tíma eða tóm til að afsanna hann því að það er einmitt það sem gerðist hér í dag.
    Hæstv. menntmrh. kom upp og sagði hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur fara með fleipur, ósannindi og róg í garð framkvæmdastjóra Lánasjóðs ísl. námsmanna, hún hefði ekki rétt fyrir sér, vissi ekki hvað hún væri að tala um. Síðan gerist það að formaður bankaráðs Búnaðarbankans kemur upp og staðfestir allt það sem Guðrún Helgadóttir sagði. En átti þá kannski bara að segja: Eftir tvo tíma fellur klukkan, þá fellur klukkan, eftir tvo tíma? Nú er um að gera að ráðherrarnir beiti nógu andskoti ósvífnum vinnubrögðum af því að eftir tvo klukkutíma fellur klukkan. (Gripið fram í.) Svona er ekki hægt að starfa í þinginu, hv. þm. Geir Haarde.
    Hér kom fram eðlileg ósk frá fulltrúa Kvennalistans um að það yrði gert smáhlé á umræðum svo að hægt væri að kalla forsvarsmenn bankanna, sem allir eru í 3--5 mínútna fjarlægð frá þessu húsi, til fundar til þess að fá úr þessu skorið. Það ætti ekki að taka langan tíma. En hvað gerist? Áður en forseti fær tækifæri til að svara ósk þingmanns Kvennalistans, þá kemur formaður þingflokks Sjálfstfl. og gefur línuna ( GHH: Við gerðum samkomulagið.) svo að það sé tryggt að forsetinn verði ekki við ósk hv. þm. Kvennalistans, Kristínar Ástgeirsdóttur. Það er svo sem ekki í fyrsta sinn sem formaður þingflokks Sjálfstfl. kemur upp til að gefa forseta Alþingis flokkslínuna. Það hefur gerst áður hér í vetur og við höfum fylgst með því hvað eftir annað. ( Forseti: Forseti frábiður sér svona ávirðingar.) Ég var ekki með neinar ávirðingar í garð forseta. Það er misskilningur, hæstv. forseti. ( Forseti: Alveg sama.) Ég sagði að það væri hv. þm. Geir Haarde sem hefði staðið upp og gefið forseta flokkslínuna. Ég sagði ekkert um það hvort forsetinn fylgdi þeirri flokkslínu eða ekki. En það mun koma í ljós eftir nokkrar mínútur hvort hæstv. forseti verður við ósk hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur eða hvort hann hlýðir þeim tilmælum sem hv. þm. Geir Haarde flutti áðan og þá getum við öll dregið þá ályktun hvorum megin víglínunnar hæstv. forseti stendur.