Yfirskattanefnd

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 16:04:20 (6545)


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef í sjálfu sér engu við framsögu frsm. að bæta, en ég vildi þó nú á tímum stórra yfirlýsinga um samkomulag og hvernig menn standa við það láta koma fram að í meðferð málsins fyrir jól varð um það samkomulag að nefndin tæki þetta mál til rækilegrar umfjöllunar á vorþinginu og stæði sameiginlega að því að afgreiða það fyrir þinglausnir. Við það hefur að öllu leyti verið staðið og að mínu mati farið mjög vandlega yfir frv. og teknar til greina, eins og kom fram áðan, fjölmargar ábendingar sem komu fram, enda var að mínu mati nauðsynlegt að menn tækju þennan tíma til vandaðra vinnubragða í þessu máli einfaldlega vegna þess að það eru fá mál sem eru einstaklingunum eins viðkvæm og skattamálin og er þess vegna mjög nauðsynlegt að á hverjum tíma eigi menn greiðan aðgang að úrskurðaraðila varðandi þau atriði.