Staðgreiðsla opinberra gjalda

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 16:08:00 (6547)


     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Af því að hér er til umræðu frv. til laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, sem eru auðvitað lög á sviði tekjuöflunar ríkisins, vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh. við þetta tækifæri að einu atriði sem hefur vakið athygli mína. Það er að samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef nýlega fengið hefur enn ekki hafist af hálfu ríkissjóðs innheimta á svonefndum lögregluskatti. Ég tek þetta upp m.a. undir þessum dagskrárlið vegna þess að þegar það frv. sem um þá leiðu skattlagningu fjallar var til umfjöllunar á Alþingi fyrst, var gert ráð fyrir því að þeirri innheimtu yrði komið fyrir innan staðgreiðslunnar og ríkið færi með þeim hætti inn á hið sameiginlega tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs og sveitarfélaganna og drægi sér þennan skatt þar í gegn. Þessu var mjög harðlega mótmælt af hálfu sveitarfélaganna og því var fallið frá því að nota staðgreiðsluinnheimtukerfið í þessu skyni.
    Engu að síður gera lögin um lögregluskattinn ráð fyrir því að hann sé innheimtur með reglubundnum hætti mánaðarlega. Nú er kominn maímánuður og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef nýjastar er enn ekki komin út reglugerð fjmrn. um innheimtu þessa skatts. Fyrstu mánuðirnir eftir að lögin öðluðust gildi eru um garð gengir og ekki hefur enn hafist innheimta á þessari skattlagningu. Ég ætla í sjálfu

sér ekki að gefa mér það fyrir fram að enn séu uppi sömu hugmyndir í fjmrn., að beita staðgreiðslukerfinu til þess að ná þessum tekjum, en dráttur er á því orðinn að innheimta skattsins hefjist þó ég sé í sjálfu sér ekki að harma það og mætti það bíða sem lengst að þessi leiði skattur yrði yfirleitt rukkaður. En þó vil ég gjarnan nota þetta tækifæri til að spyrja hæstv. fjmrh. úr því að tækifæri gefst undir þessum dagskrárlið, sem ég tel eðlilegt og ég vona að hæstv. forseti sé mér sammála um það og hæstv. fjmrh., að það er ekki óeðlilegt að þetta mál sé tekið hér upp og eigi þar heima:
    1. Hvað líður innheimtu á þessum skatti?
    2. Hvernig hyggst fjmrn. standa að innheimtu hans?
    3. Er óhætt að treysta því að þau sinnaskipti sem urðu í vetur, þegar fallið var frá því að nota staðgreiðsluinnheimtukerfið, haldist og staðgreiðslusamkomulag ríkis og sveitarfélaga um tilhögun innheimtu á staðgreiðslusköttum verði ekki misboðið í þessu sambandi?
    Ég vona að hæstv. fjmrh. geti eitthvað upplýst mig um stöðu þessa máls.