Staðgreiðsla opinberra gjalda

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 16:12:12 (6548)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Ég skal taka það fram, virðulegi forseti, strax í upphafi að til þess að hægt sé að innheimta skatta samkvæmt staðgreiðsluskattalögunum þarf það að vera tekið fram í löggjöfinni. Ég minni á að svokallaður lögregluskattur, sem hér hefur verið nefndur til sögunnar, er ekki eina skattheimtan þar sem rætt var um skattskil með þeim hætti heldur var einnig reynt fyrr í vetur og hafði verið fært í tal við sveitarfélögin að nota innheimtukerfið sem notað er við staðgreiðsluna til að ná inn svokölluðu tryggingagjaldi sem var sameinað gjald úr ýmsum öðrum gjöldum og sett var fyrir rúmu ári. Um það tókst ekki samkomulag við sveitarstjórnirnar og því var það mál látið bíða jafnvel þótt það hefði verið afgreitt til 2. umr. úr nefnd.
    Um þær greiðslur, sem sveitarfélögin eiga að inna af hendi samkvæmt lögunum sem gengu undir nafninu bandormurinn þegar þær voru í frumvarpsformi en hafa síðar tekið á sig formbreytingu og flogið úr þeim ham yfir í annan, er það að segja að gert er ráð fyrir að skatturinn sé innheimtur eins og þar er tiltekið. Það er rétt að til skamms tíma hefur skatturinn ekki verið innheimtur, en að því er unnið að gera það með þeim hætti sem sveitarfélögin una best við.
    Ég get því miður ekki svarað fyrirspurn hv. þm. með öðrum hætti því að ég hef ekki alveg nýlegar upplýsingar um það hver staða málsins er. En ef það huggar hv. þm. get ég lofað honum því að það verður gengið eftir því að sveitarfélögin greiði þennan skatt þótt aðeins sé um tímatöf að ræða í þessu tilviki.