Staðgreiðsla opinberra gjalda

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 16:14:31 (6549)


     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. svör hans og virði það við hann að hann svarar eftir bestu getu þessari spurningu sem var óundirbúin af minni hálfu, en ég kaus að nota þetta tækifæri af því að frv. til laga um breytingu á lögum um staðgreiðslu skatta var hér til umfjöllunar. Ég skil það svo að það sé skoðun hæstv. fjmrh. að það sé beinlínis óheimilt að hrófla við innheimtu á sköttum af þessu tagi nema bein ákvæði um það komi inn í staðgreiðslulögin, enda var ætlunin í upphafi að breyta þeim lögum með ákvæðum í bandormsfrv. og afla þannig þá þeirrar lagaheimildar. Þetta eru fullnægjandi upplýsingar fyrir mig og falla að því, sem ég hafði reyndar ímyndað mér, að svona hlyti þetta að vera, en ástæða þess að ég bar þetta upp var m.a. sú að ég var spurður að því nokkrum dögum af sveitarstjórnarmanni hvort það gæti komið til álita að fjmrn. gæti með ákvæði í reglugerð sett innheimtu á lögregluskattinum undir staðgreiðsluna. Ég taldi það mjög ólíklegt og hæstv. fjmrh. hefur svarað því alveg skýrt að slíkt sé ekki hægt nema afla til þess alveg ótvíræðrar lagaheimildar.
    Það huggar mig ekkert í sjálfu sér, enda er ég ekkert hnugginn þessa dagana, hæstv. fjmrh., þó að það sé upplýst að innan skamms muni fjmrh. hefja rukkun á lögregluskattinum hjá sveitarfélögunum. Ég tók það þvert á móti fram áðan að ég væri alveg rólegur og þætti það jafnvel ágætt að það drægist sem lengst að fara að rukka þennan leiða og óréttláta skatt sem að mörgu leyti er dapurlegur vegna þess m.a. hvernig hann bar að og hversu ljótan blett hann setti á samskipti ríkisvaldsins og sveitarfélaganna. Það er hins vegar umhugsunarefni held ég fyrir okkur báða, mig og hæstv. fjmrh., og fyrir okkur öll þegar menn vinna þannig að málunum, eins og nú hefur sannast í sambandi við lögregluskattinn, að hæstv. ríkisstjórn var með hugmyndir um að pína hann í gegn og afgreiða hann í desembermánuði og síðan strax eftir áramót. Það mál var jafnhrikalega illa undirbúið og raun ber vitni. Á var bent að það vantaði með öllu ákvæði um innheimtu á þessum skatti, enda var hann ákveðinn á næturfundi í húsi í nágrenninu. Nú er kominn miður maímánuður og enn er ekki hafin innheimta á skattinum. Vegna hvers? Væntanlega vegna þess að þegar farið er svo að vinna að málinu kemur í ljós að það er flókið mál og heilmikil undirbúningsvinna sem þarf að liggja til grundvallar upptöku nýs skattstofns af þessu tagi og innheimtu hans. Nú er næstum hálft ár liðið frá því að þessi ógæfulega ákvörðun var tekin á næturfundi hér í nágrenninu og framkvæmdaatriðin enn ekki klár. Það er skiljanlegt og ég er svo sem ekki að ásaka hæstv. fjmrh. eða fjmrn. fyrir að hafa valið skynsamlegri kostinn að draga að hefja innheimtu á þessum skatti þangað til menn væru orðnir sæmilega í stakk búnir til að gera það. En lagaákvæðin standa eins og þau voru samþykkt og hljóða upp á að innheimta beri þennan skatt með jöfnum upphæðum í hverjum mánuði. Hér er á ferðinni dæmi um lagasetningu sem ekki hefur reynst unnt að fullnusta enn sem komið er vegna þess hversu þetta mál var

illa undirbúið.
    En ég hef fengið svar við minni aðalspurningu sem gerir mér að því leyti til rórra að ég tel það nauðsynlegt að á því leiki enginn vafi að við samskiptum ríkisvaldsins og sveitarfélaganna og samningi sem er í gildi þeirra í milli um innheimtu staðgreiðslu skatta verði ekki hróflað og innheimtu þessa lögregluskatts verði fyrir komið með öðrum hætti.