Staðgreiðsla opinberra gjalda

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 16:19:51 (6551)


     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Ég get út af fyrir sig alveg verið sammála hæstv. fjmrh. um að það væri að mörgu leyti skynsamlegt að nýta það innheimtukerfi sem fyrir er og nefnist staðgreiðsla og samningur er í gildi um milli ríkis og sveitarfélaganna ef ákvarðanir um skattlagningu sem þar kæmi til væru teknar með eðilegum hætti og aðdragandi þess máls væri með eðlilegum hætti í samskiptum ríkisvaldsins og sveitarfélaganna. Svo var bara ekki hér. Þetta held ég, af því að hæstv. fjmrh vitnar til skynsemi sinnar eða skynseminnar yfirleitt, að ætti að kenna mönnum að vinna þá með skynsamlegum hætti að upptöku slíkra skatta og undirbyggja ákvarðanir um það með eðlilegu samráði viðkomandi aðila, sem í þessu tilviki eru sveitarfélögin og ríkið, byrja á því að ganga frá samkomulagi um innheimtu og meðferð alla í því sambandi, leggja svo fyrir þingið lagafrumvörp. Þá sneru þessi mál allt öðruvísi og ég gæti þess vegna mjög líklega orðið sammála hæstv. fjmrh. um að tæknilega séð væri ekki ástæða til að setja upp margföld innheimtukerfi af þessu tagi. Auðvitað verkar það kannski að nokkru leyti ankannalega, þegar í gildi er innheimtukerfi og reglubundið uppgjör milli ríkis og sveitarfélaga og skipting á sameiginlegri innheimtu, að búa svo þar við hliðina til annað kerfi og svo enn annað o.s.frv. En þá verður líka hæstv. ríkisstjórn að átta sig á því að hún verður að temja sér siðaðra manna vinnubrögð í samskiptum við óháð stjórnvöld eins og sveitarfélögin eru. Það er ekki gert í þessu tilviki og ég veit að svo illa eru sveitarfélögin brennd af þessum samskiptum að þau vilja ekki sjá að ríkisvaldið fari að hrófla t.d. við því samkomulagi sem gert var í góðu andrúmslofti á sínum tíma milli ríkis og sveitarfélaga um innheimtu á staðgreiðslukerfi skatta. Þau vilja hafa það í friði þangað til þau sjálf semja þá með frjálsum hætti um annað.