Umboðsmaður barna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 16:24:08 (6553)


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það er í samræmi við það verklag sem nú á sér stað á hinu háa Alþingi að þrátt fyrir að allflestir hv. þm. séu löngu sammála um að nauðsyn sé að stofnsett verði embætti umboðsmanns barna virðist það ekki ætla að ná fram að ganga á þessu þingi fremur en öðrum hinum þrem þingum þar sem þetta mál hefur verið flutt.
    Ástæðan fyrir því að ég flutti málið nú í fjórða sinni var m.a. sú að í greinargerð fyrir frv. sem

hér liggur fyrir til laga um vernd barna og ungmenna er sérstaklega tekið fram af hálfu sifjalaganefndar að nefndin mæli með að sett verði á fót embætti umboðsmanns barna. Þetta mál hefur legið síðan í nóvember í hv. allshn. og þess vegna fráleitt að afsaka afgreiðsluleysi málsins með því að ekki hafi gefist tími til að lagfæra það sem nefndin vildi lagfæra. Þann 30. mars, þegar málið hafði legið síðan í nóvember í hv. nefnd, er það loks sent til umsagnar sifjalaganefndar sem auðvitað hafði mjög skamman tíma til að koma saman og fjalla um málið. Hefði auðvitað verið leikur einn að gera það þá þegar er málið kom til nefndar.
    Ármann Snævarr prófessor, sem alla tíð hefur verið hlynntur þessu máli, skrifaði samt greinargerð um málið, en greindi frá því að honum hefði ekki tekist að koma nefndinni saman. Hann gerir smávægilegar athugasemdir en ekkert sem skiptir verulega máli og harmar að hafa ekki haft meiri tíma til þess að fjalla um það svo að það yrðu þá sniðnir af því þeir agnúar sem nefndinni hafði fundist vera á frv.
    Nú er það svo að auðvitað snerist málið aldrei um það. Það var alveg ljóst frá byrjun að Sjálfstfl. ætlaði ekki þessu sinni fremur en í öll hin skiptin að afgreiða þetta mál. Menn hafa spurt fulltrúa Alþb. í hv. allshn.: Hvers vegna í ósköpunum var þetta mál ekki samþykkt þegar þið voruð í stjórn? En eitt árið af fjórum sem þetta frv. var flutt var ég aðili að ríkisstjórn. Því er til að svara að ég var þá forseti sameinaðs þings og átti afar erfitt með að setja mitt eigið mál í forgang. Það var ein ástæðan. Önnur ástæðan var sú að auðvitað gerði Sjálfstfl. það sem hann lifandi gat til að tefja málið, biðja um fleiri og fleiri umsagnir. Ég veit ekki hve margir tugir umsagna liggja nú fyrir um þetta mál. Það er alveg ljóst að við þetta mál er mjög mikill stuðningur í samfélaginu öllu, meðal ýmissa félagasamtaka, og nægir að nefna Barnaheill, Félag þroskaþjálfa, Barnavinafélagið Sumargjöf og ýmis fleiri félög sem hafa látið sig málefni barna varða.
    Endir þessa máls var síðan sá, þegar nefndin treysti sér ekki eins og ég bað um að skila þá bara nál. með ágreiningi, það væri þá ljóst hverjir styddu þetta mál og hverjir ekki, að það kom í ljós að til þess treystust menn ekki og því var komið til mín og mér settir þeir kostir að málið lægi kyrrt og fengi enga afgreiðslu eða því yrði vísað til ríkisstjórnarinnar sem sýnist vera hámark þess frama sem stjórnarandstöðumál ná á þessu þingi.
    Ég ætla að taka það fram hér að vegna málsins sjálfs og vegna allra þeirra tuga ef ekki hundruða manna sem hafa haft samband við mig og spurt mig um þetta mál, þá tók ég þann kostinn frekar en að málið væri óafgreitt að því yrði vísað til ríkisstjórnarinnar. En fyrir því er aðeins ein ástæða.
    Það vill svo til að þó að ég beri ekki mikið traust til þessarar ríkisstjórnar, þá ber ég enn þá nokkuð traust til hæstv. dómsmrh. Hann hefur komið að máli við mig, nú harma ég mjög að hann skuli ekki vera hér, og fullvissaði mig um að hann skyldi láta það verða fyrst verka að fela sifjalaganefnd að útbúa frv. til laga um embætti umboðsmanns barna. Í trausti þess að hann hyggist gera það af alvöru hef ég fallist á að þessu máli verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Ég verð hins vegar að segja að texti þess nál. sem hér liggur fyrir á þskj. 913, sem ég ætla að leyfa mér að lesa kafla úr, með leyfi hæstv. forseta, er raunar ekki alveg í samræmi við það sem um var talað. En það hljóðar, svo þegar talið hefur verið upp hverjir sendu nefndinni umsagnir, og ég tek það fram að þetta eru umsagnir sem bárust á þessu þingi, fyrir lágu tugir umsagna frá fyrri þingum:
    ,,Frv. fjallar um málefni sem er athyglisvert og kanna þarf nánar. Í því sambandi má nefna að könnuð verða tengsl málsins við frv. til laga um vernd barna og ungmenna, 422. mál, sem nú er til umfjöllunar í félmn. Þarf m.a. að athuga hvort verkefni þau, sem frumvörpin mæla fyrir um, skarist. Enn fremur þarf að athuga frv. þetta vandlega með hliðsjón af lögum um umboðsmann Alþingis, hvort fyrirhugað hlutverk umboðsmanns barna muni rekast á við hlutverk hins fyrrnefnda. Fleira mætti nefna og er það skoðun meiri hluta nefndarinnar að vel færi á því að sifjalaganefnd tæki mál þetta til rækilegrar skoðunar.``
    Hæstv. forseti. Ég vil taka það fram að þetta mál hefur þegar farið til umboðsmanns Alþingis, sem kannaði hvort þetta embætti skaraðist við embætti hans, og niðurstaða Gauks Jörundssonar varð sú að það gerði það ekki. Auk þess mælti umboðsmaður Alþingis sérstaklega með samþykkt þessa máls vegna þess að hann taldi að hér væri um svo sérhæfðan hóp að ræða að það væri fengur að því að fá þetta embætti. Fyrir hann var líka lögð sú spurning hvort sameina mætti þessi tvö embætti þannig að umboðsmaður barna yrði hluti af embætti umboðsmanns Alþingis. Hann taldi svo ekki vera og taldi skynsamlegra að hafa þetta embætti algerlega óháð. Og ég hlýt að spyrja hv. varaformann nefndarinnar: Var þetta gagn ekki skoðað? Hefur hv. varaformaður ekki séð þetta? Varla á að fara að spyrja hinn sama umboðsmann Alþingis að þessu aftur. Það er með ólíkindum hvað þingmönnum er boðið upp á.
    Síðan er talað um að það þurfi að kanna hvort þetta frv. skarist við frv. um vernd barna og ungmenna. Það er fyrir löngu ljóst að það gerir það ekki. Umboðsmaður barna á ekki að fást við neins konar einkamál né barnaverndarmál né annað slíkt. Hans embætti er að fylgjast með stjórnvaldsaðgerðum, að þegar Alþingi samþykkir lög, þegar sveitarstjórnir gera sínar samþykktir stangist þær ekki á við ýtrustu hagsmuni barna sem, þegar öllu er á botninn hvolft, eru fjórðungur þjóðarinnar. Það hefur aldrei staðið til að umboðsmaður barna færi inn á svið barnaverndarnefnda, barnaverndarráðs, félagsmálastofnana né annarra slíkra. Myndu slík erindi berast honum væri það hlutverk hans að vísa þeim málum til réttra aðila. Það var því ekki verið að biðja um einhvern her af starfsfólki.
    Ég vænti þess að hv. formaður nefndarinnar hafi líka séð að fyrir tveimur árum var Fjárhags- og

hagsýslustofnun sent erindi og hún beðin um að áætla hve mikið embættið mundi kosta. Og þá, að vísu eru tvö ár síðan en í verðbólgulausu landi hefur það varla mikið breyst, var talið að þetta mundi kosta um 5 millj. á ári. Barnaverndarnefndir og barnaverndarráð er mikil nauðsyn á að endurskoða eins og lög um vernd bara og unglinga, frv. sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir. En það kemur þessu embætti í sjálfu sér ekkert við. Umboðsmaður barna þarf ekki að vera sérfræðingur í málefnum barna, hvorki sálfræðingur, félagsráðgjafi eða neitt slíkt. Hann þarf helst að vera löglærður maður eða maður með reynslu í stjórnsýslu og stjórnvaldsaðgerðum.
    Þetta er í sjötta eða sjöunda sinn sem ég reyni að útskýra þetta fyrir hv. þingheimi, að þessu sinni vissulega nýjum. Hinum sem hér hafa áður verið átti ekki að vera þetta mál ókunnugt. En það kemur að því að menn gefast upp og einungis vegna þess að hv. 1. þm. Suðurl., Þorsteinn Pálsson, er nú dómsmrh. skal ég fallast á þessa afgreiðslu nú vegna þess að ég ber til hans nokkurt traust sem stjórnmálamanns og sem velviljaðrar manneskju. Það kynni svo vel að vera að ef einhver annar væri í þessu embætti hlustaði ég ekki á þessa afgreiðslu. Ég get sætt mig við hana, en tek það að sjálfsögðu fram að þegar nýtt þing kemur saman mun verða gengið hart eftir að hér hafi það verið gert sem lofað er.