Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 18:15:39 (6579)


     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Það er fyrst að greina frá því, sem þegar hefur komið fram, að það var haldinn fundur í hv. menntmn. um miðjan dag í dag að ósk stjórnarandstöðunnar, en því var aftur á móti hafnað af hálfu formanns nefndarinnar að kalla til fulltrúa frá bönkunum heldur var þeirra tillaga sú að framkvæmdastjóri LÍN mætti á fundinn og var á það fallist. Þá óskaði formaður Stúdentaráðs eftir því að fá að sitja fundinn sem áheyrnarfulltrúi, en það var ekki orðið við þeirri ósk af hálfu formanns menntmn.
    En það sem kom fyrst og fremst fram á þessum fundi í máli framkvæmdastjóra lánasjóðsins var m.a. að hann hafði skrifað öllum bönkum og sparisjóðum og skýrt frá því að það væri vilji LÍN að viðskipti gætu orðið á milli námsmanna og bankanna og rætt hefði verið við fulltrúa Íslandsbanka og Landsbankans og hann hefði talað tvisvar sinnum við bankastjóra Búnaðarbankans, Stefán Pálsson, í síma svo að maður greini nú nákvæmlega frá. Fundur með sparisjóðum og Búnaðarbanka yrði í næstu viku. Það hafði verið rætt um það við bankana að fá lán á sérstökum kjörum, en það liggur ekki fyrir um svör við því. Bankarnir eru að hugleiða að reyna að koma sér upp þjónustudeildum og hafa óskað eftir því að fá þjálfun á starfsfólki í samvinnu við LÍN. Eins er óskað eftir aðgangi að upplýsingum sem liggja fyrir hjá lánasjóðnum. Þetta finnst mér að segi manni að það sé verið að færa þjónustuna við námsmenn, þá þjónustu sem lánasjóðurinn hefur veitt, inn í bankakerfið. Enn fremur kom fram að lánasjóðurinn mun ekki veita bankaábyrgðir.
    Framkvæmdastjórinn gerði ráð fyrir að þegar fram í sækti mundu námsmenn planleggja nám sitt þannig að þeir ættu einhverja aura, eins og hann orðaði það, þegar nám hæfist og þar af leiðandi þyrftu þeir ekki svo mikið á þessari þjónustu að halda hjá bönkunum og hafði hann í því sambandi til hliðsjónar að fyrsta árs nemar sem ekki hafa fengið lán sín í hendur frá lánasjóðnum fyrr en eftir að þeir hafa sýnt fram á árangur hafi ekki í svo gífurlegum mæli þurft að sækja til bankanna. Þetta finnst mér vera mjög umhugsunarvert því að þó svo að nemendur á fyrsta ári geti aflað sér tekna og jafnvel tekið sér eitthvert frí frá skólagöngu að loknu framhaldsskólanámi gildir allt annað um þá nemendur sem eru komnir lengra í námi.
    Hann taldi að lánasjóðurinn hefði ákveðið vaxtahagræði af því að lán verði greidd síðar út og námsmenn muni njóta þess vaxtahagræðis. En þar sem fundurinn var stuttur gafst ekki tími til að fá frekari útfærslu á því hvað framkvæmdastjóri lánasjóðsins átti við þegar hann sagði að námsmenn mundu njóta þess vaxtahagræðis og væri forvitnilegt ef hæstv. menntmrh. gæti upplýst þingheim frekar um það mál.
    Hæstv. forseti. Það líður nú senn að lokum þessarar umræðu um Lánasjóð ísl. námsmanna. Það er rétt, sem hefur komið fram m.a. hjá hæstv. forsrh., að umræðan hefur tekið nokkurn tíma. En hún hefur verið málefnaleg og hún hefur borið ákveðinn árangur. Ég minni á að í lok 2. umr. steig einn þingmanna Sjálfstfl. í pontu til að láta í ljós þá skoðun sína að umræðan hefði verið málefnalegri en oft tíðkaðist um umræður á hv. Alþingi. En þó svo umræðan hafi borið þann árangur að mörgu hefur verið breytt frá upphaflegu frv. er málið við 3. umr. enn þá í þeim búningi að engin leið er fyrir okkur stjórnarandstæðinga að fella okkur við það og við erum því algerlega andvíg. Ég hef því leyft mér ásamt tveimur hv. þm., þeim Hjörleifi Guttormssyni og Kristínu Ástgeirsdóttur, að leggja fram brtt. á þskj. 927 sem úrslitatilraun til að forða stórslysi á hv. Alþingi. Megintillagan felst í 2. tölulið, en þar er lagt til að við 19. gr. bætist nýr málsliður á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,Í samráði við samtök námsmanna skal fyrir lok þessa árs endurskoða lög þessi og leggja frv. um ný lög um Lánasjóð ísl. námsmanna fyrir næsta þing.``
    Frv. er eins og það liggur fyrir eftir 2. umr. í þinginu algerlega óásættanlegt og ef hv. stjórnarsinnar sem greiddu frv. atkvæði við 2. umr. hafa ekki enn þann dag í dag áttað sig á því, þá veit ég að þeir munu gera það í haust þegar mörg þúsund námsmanna þurfa að leita til bankakerfisins eftir framfærsluláni vegna náms á sama tíma og lánasjóðurinn á 800 millj. til að úthluta, en samkvæmt lögum frá Alþingi, verði frv. samþykkt, má ekki úthluta þessum peningum. Við leggjum því til að við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 6. gr. skal haustið 1992 veita lán er nema a.m.k. 2 / 3 hlutum áætlaðra námslána á haustmissiri``, --- en það eru um það bil 800 millj. kr.
    Þessi tillaga er lögð fram til að bjarga haustinu og er í beinu framhaldi af þeirri tillögu að málið verði tekið upp að nýju og nýtt frv. lagt fyrir næsta þing og það frv. verði samið í samráði við samtök námsmanna sem ekki var gert með það mál sem hér er til umræðu og vitna greinar námsmanna í Morgunblaðinu sl. daga best um það. Auk þess sagði hæstv. menntmrh. í viðtali við Röskvublað frá því í ágúst sl., með leyfi forseta:
    ,,Þegar drög að nýjum lögum um lánasjóðinn verða tilbúin óska ég eftir sem allra nánustu samstarfi við námsmenn og fullyrði að ég mun ekki þvinga slík lög í gegnum þingið án samráðs við námsmenn.``
    Svo mörg voru þau orð og hverjar eru efndirnar?
    Þriðja brtt. á þskj. 927 varðar breytingu á 16. gr. og hún snýr að hagsmunasamtökum námsmanna. Í dag er framkvæmdin sú t.d. hvað varðar SÍNE að námsmenn borga félagsgjald með lánum sínum, þ.e. gjaldið er tekið af láninu ef á lánsumsókn er ekki farið fram á að það verði ekki gert. Eins og 16. gr. liggur fyrir eftir 2. umr. þarf viðkomandi námsmaður að leggja fram ósk þar að lútandi á námsumsókn. Hér virðist kannski ekki í fljótu bragði vera um stórt mál að ræða, en engu að síður skiptir það máli að þessi hagsmunasamtök námsmanna geti haldið áfram starfa. Hættan við fyrirkomulagið eins og það er verði frv. samþykkt er sú að umboðsmenn námsmanna erlendis geri sér ekki grein fyrir mikilvægi samtakanna og biðji því ekki um að félagsgjald sé tekið af námsláni og þar með lognist samtökin út af.
    Hæstv. forseti. Eins og ég sagði áðan er hér um úrslitatilraun af hálfu okkar stjórnarandstöðuflokkanna að ræða til að reyna að bjarga því sem bjargað verður á síðasta sólarhring umræðunnar væntanlega. Það verður ekki annað sagt en við höfum lagt okkur fram í þessari umræðu um að fá fram breytingar á afleitu máli. Nú er boltinn hjá stjórnarsinnum á hv. Alþingi. Spjótin beinast að þeim úr öllum áttum. Samkvæmt viðtali við einn hv. þm. Alþfl. í DV í gær kemur fram að verið sé að vinna að því að koma fram breytingum á 6. gr. Ég vildi að satt væri. Í umræðu í gærkvöld og reyndar aftur í dag mótmælti hæstv. menntmrh. því að svo væri. Ég hlýt því að óska eftir því að þessi hv. þm., Sigbjörn Gunnarsson, komi í ræðustól og geri þingheimi grein fyrir þessari stórfrétt. ( Gripið fram í: Hvar er hv. þm.?) Ég sé ekki hv. þm. --- Mér kemur það að sjálfsögðu ekkert á óvart þar sem hér er um landsbyggðarþingmann að ræða að honum líði illa út af 6. gr. Það er eflaust með hann eins og mig að okkar viðhorf til málsins markast mjög af aðstöðu landsbyggðarfólks, fólks sem þarf að leggja út í mikinn kostnað samfara því að stunda langskólanám. Því fólki veitir svo sannarlega ekki af því fjármagni sem það á kost á hjá lánasjóðnum til að standa undir kostnaði við húsnæði o.fl.
    Ég hef orðið þess vör að á síðustu dögum hefur verið settur í gang sá áróður að námsmenn lifi miklu lúxuslífi. Þeir liggi á sólarströndum og aki um í dýrum bílum. Þeir hafi því allt of mikla peninga á milli handa og þurfi enga samúð þótt nú sé verið að kollvarpa því kerfi sem verið hefur í gildi síðustu tíu árin og komið var á fót í ráðherratíð Ingvars Gíslasonar.
    Mitt svar við þessu er það að þeir námsmenn sem nota námslánið sem vasapeninga og búa ókeypis hjá pabba og mömmu hafa mikla peninga milli handanna. Það er í sjálfu sér slæmt ef námsmenn sem búa við þessar aðstæður koma óorði á námsmenn almennt með lúxuslifnaði og bruðli. Að sjálfsögðu ættu þeir ekki að eiga rétt á svo háum lánum frá lánasjóðnum sem raun ber vitni. En einmitt í ráðherratíð núv. hæstv. menntmrn. hefur munur á lánveitingum til þeirra sem búa í foreldrahúsum og hinna verið minnkaður. Að hugsa sér annað eins. Hvaða sjónarmið ráða við slíkar ákvarðanir? Hver er tilgangurinn?
    Í Morgunblaðinu í dag kemur fram hjá ungum hagfræðinema, Stefáni Gunnari Thors, að hann þurfi svo sem ekkert að kvarta þar sem hann búi í foreldrahúsum og fái 31 þús. á mánuði í námslán. En þar kemur jafnframt fram að honum finnst munurinn of lítill á milli þeirra sem búa í foreldrahúsum og hinna sem búa í leiguhúsnæði. Þeir fái kannski 16--17 þús. að auki, en leiga fyrir tveggja herbergja íbúð sé 30--35 þús. kr. Mér finnst þetta heiðarlegt framlag þessa námsmanns inn í þá umræðu sem hér fer fram.
    Það hefur verið komið inn á ályktanir ungra jafnaðarmanna og ég spyr: Ætlar þingflokkur Alþfl. að hundsa þær ályktanir eða er verið að vinna að breytingum á 6. gr.? Er þingflokkurinn samþykkur frv. eða má hann sín einskis í því ríkisstjórnarsamstarfi sem hann er í með Sjálfstfl.? Ræður e.t.v. hæstv. forsrh. ferðinni í þessu máli líka?
    Þær breytingar sem verið er að gera í lánasjóðnum eru mjög í takt við önnur verk hæstv. forsrh. og því þykir mér ekki ótrúlegt að það sé fyrst og fremst hann sem standi á bremsunni. Hann virðist andvígur félagslegri uppbyggingu. Ef það eru til peningar skulu þeir ekki notaðir til slíkra hluta heldur í steinsteypu. Þessu ber borgarstjóraferill hans hér í borg mjög glöggt vitni. Þar voru byggðar hallir á sama tíma og stórlega vantaði leikskólarými í borginni og allir vita hvernig ástandið er í sambandi við gamalt fólk og heilsugæslustöðvar. En ég skal halda mig við efnið, hæstv. forseti.
    Hæstv. menntmrh. hefur bæði játað því og neitað að það séu fyrst og fremst fjárhagsaðstæður sem ráða því að verið er að kollvarpa lögum um lánasjóðinn. Hann reynir að telja sjálfum sér og öðrum trú um

að þetta sé hið eina rétta og þetta tryggi jafnrétti til náms. Þetta tryggi það að þeir sem eru í raunverulegu námi en ekki bara innritaðir, eins og hann segir, fái fyrirgreiðslu. Í andsvari við ræðu minni við 2. umr. um málið neitaði hann því að það væru ekki fyrst og fremst fjárhagsaðstæður sem réðu ferðinni en síðar í umræðunni hefur hann talað um sem aðalatriði eftir því sem ég hef skilið að það fólk sem er í raunverulegu námi eigi einungis að eiga rétt á lánum og þá þurfi að koma á aga. Skyldi ráðherrann líta svo á að þeir sem verður það á að falla einu sinni séu þar með ekki lengur í raunverulegu námi?
    Morgunblaðið í morgun tekur mjög myndarlega á málefnum lánasjóðsins og þar er uppfullt af greinum sem snerta málið sem ég hef lesið af athygli, en það sem er kannski athyglisverðast er sjálfur leiðarinn. Ég ætla að leyfa mér, hæstv. forseti, að lesa þennan leiðara og mun síðan ljúka máli mínu því þetta er mjög athyglisverður leiðari og ekki síst af því að hann kemur úr þessari átt. Hann hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Mikil breyting hefur orðið á starfsemi Lánasjóðs ísl. námsmanna á nokkrum undanförnum árum. Sú var tíðin, að námsmenn gátu aldrei gengið út frá nokkrum hlut vísum hjá lánasjóðnum og mikil gagnrýni var á vinnubrögð sjóðsins við afgreiðslu námslána. Þetta hefur gjörbreyst. Í raun og veru má segja að starfshættir sjóðsins og starfsmanna hans séu til fyrirmyndar. Hafi viðskiptamenn sjóðsins þau gögn á hreinu, sem þeim ber að skila geta þeir gengið út frá því sem vísu að lánin eru afgreidd þegar í stað og á þeim tíma sem sagt hefur verið. Þetta er mikil breyting frá því sem áður var.
    Að undanförnu hafa staðið yfir á Alþingi miklar umræður um lánasjóðinn og námslánakerfið vegna frv., sem ríkisstjórnin hefur lagt fram um breytingu á námslánakerfinu. Þetta frv. gerir ráð fyrir þeirri grundvallarbreytingu að námslánin séu greidd út eftir að námsmaður hefur skilað inn til sjóðsins gögnum um að hann hafi náð tilskildum árangri í námi. Talsmenn lánasjóðsins hafa sagt, að námsmenn eigi að brúa bilið með bankalánum og hafa þeir tekið upp viðræður við einhverja bankana a.m.k. um slíkar bráðabirgðalánveitingar. Í Morgunblaðinu í gær var frá því skýrt að í viðræðum bankanna og lánasjóðsins hefðu komið fram hugmyndir um að bankarnir mundu afla sér upplýsinga um námsárangur námsmanna sem til þeirra leita og byggja lánveitingar að einhverju leyti á þeim upplýsingum.
    Í fyrradag birtist hér í blaðinu grein eftir Steingrím Ara Arason, aðstoðarmann fjmrh., sem á sæti í stjórn lánasjóðsins, þar sem hann færir fram efnisleg rök fyrir þessari fyrirhuguðu breytingu. Kjarninn í röksemdafærslu Steingríms Ara er sá að um það bil 5.000 námsmenn og makar þeirra af um 8.000 viðskiptamönnum lánasjóðsins hafi gefið upp að hausti rangar upplýsingar um tekjur, sem hafi valdið því að sjóðurinn hafi þurft að leggja út 300--400 millj. kr. umfram það sem hann ella hefði þurft að gera. Að vísu koma þeir peningar til baka, ef svo má að orði komast vegna þess að skattskýrslum er skilað inn til lánasjóðsins í byrjun febrúar ár hvert, bornar saman við tekjuupplýsingar frá haustinu áður og lánveitingar að vori skertar sem hugsanlegum mismun nemur. Um þetta segir Steingrímur Ari Arason:
    ,,Verulegur hluti þessara ofgreiddu lána greiðist sjóðnum án vaxta þegar frá líður. Það er þó ekki kjarni málsins. Hann er sá að með röngum upplýsingum fékk rúmlega helmingur námsmanna á þessu skólaári í hendur mikla vaxtalausa fjármuni sem þeir áttu ekki rétt á.`` ( Menntmrh.: En hvað með 5% skerðinguna?)
    Þetta eru þungar ásakanir. Það má lesa margt út úr tölum. Þótt ekki skuli úr því dregið að einhver hópur námsmanna hafi reynt að misnota námslánakerfið, sem að vísu hlýtur að vera mjög erfitt vegna þess hversu afdráttarlausar starfsreglur þess eru, má spyrja hvort það sé hugsanlegt að svo stór hluti námsmanna hafi gert það. Tekjuupplýsingum er skilað síðla sumars eða snemma á haustin. Hvað gerist ef námsmaður vinnur með námi fram að áramótum og getur hvorki séð fyrir að hann fái slíka vinnu eða áætlað tekjur sínar af slíkri vinnu með nokkurri nákvæmni þegar tekjuupplýsingum er skilað inn til lánasjóðsins? Hvað gerist ef námsmaður, sem er við nám erlendis, kemur heim í jólafrí og fær tilfallandi vinnu og þar með tekjur sem hann hafði enga hugmynd um að mundu falla til nokkrum mánuðum áður? Varla halda talsmenn lánasjóðsins því fram, að í því felist misnotkun eða röng upplýsingagjöf ef slíkar tekjur koma ekki fram fyrr en á skattaframtali?
    Það er margt óljóst um framkvæmd þessa tvöfalda kerfis sem ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir virðast vilja taka upp við veitingu námslána. Hvaða kröfur gera bankarnir um ábyrgðir? Hvernig meta bankarnir hvort þeir treysta sér til að veita námsmanni bráðabirgðalán? Hvað gerist ef námsmaður sem fær bráðabirgðalán í banka veikist á miðju tímabili, getur ekki lokið prófi og fær þar með ekki lán hjá lánasjóðnum eftir áramót og verður síðan að leita til banka um enn frekara lán fram á vorið? Ef niðurstaðan verður sú að bankarnir byggja lánveitingar að einhverju leyti á námsárangri verða þeir að setja upp sérstakt kerfi til þess að meta prófgögn, sem eru mismunandi frá hinum ýmsu löndum og skólum. Sjá menn fyrir endann á því sem hér er verið að gera?
    Það er enginn vafi á því að það er nauðsynlegt að breyta námslánakerfinu með ýmsum hætti. Þar hefur ekki aðeins verið um að ræða einhverja misnotkun heldur og ekki síður að fólk hefur notfært sér út í ystu æsar það sem kerfið hefur haft upp á að bjóða. Á hinn bóginn ber að framkvæma allar breytingar á þessu kerfi af mikilli varkárni. Það er t.d. augljós hætta á því að þeir sem minna mega sín eigi erfiðara uppdráttar af margvíslegum ástæðum þurfi þeir að leita til banka til að fjármagna skólagöngu sína. Þótt um bráðabirgðalán sé að ræða þýðir það kerfi sem nú er rætt um að námsmenn eru með bráðabirgðalán í banka frá hausti og fram á vor. Það kostar peninga. Lánasjóðurinn segist ætla að lána fyrir þeim kostnaði. Hvaða vit er í því? Bæði frá sjónarmiði lánasjóðsins og viðskiptamanna hans sem borga lánin til baka með verðtryggingu og nú einnig með einhverjum vöxtum.
    Alþingi lýkur væntanlega afgreiðslu þessa frv. nú í vikunni. Alþingismenn ættu að skoða hug sinn vandlega áður en þeir taka ákvörðun um að standa að þessari breytingu á námslánakerfinu. Er breytingin nógu vel undirbúin til þess að óhætt sé að taka þetta skref?``
    Lýkur þá upplestri úr leiðara Morgunblaðsins frá þessum degi. Þessi leiðari þarfnast ekki skýringar. Hann segir allt sem segja þarf og það er ánægjulegt að Morgunblaðið skuli fylkja liði með námsmönnum og okkur stjórnarandstæðingum í þessu mikilvæga máli og það væri óskandi að leiðari blaðsins yrði til þess að opna augu einhverra á þessum degi hér á hv. Alþingi og e.t.v. einhverra sem trúa á það blað.
    Hæstv. forseti. Ég lýk nú máli mínu. Ég vil að síðustu segja að verði það frv. um Lánasjóð ísl. námsmanna sem liggur fyrir eftir 2. umr. að lögum er stigið stórt skref aftur á bak í menntasögu þjóðarinnar. Það verður ekki lengur hægt að tala um jafnrétti til náms, enda treystu ríkisstjórnarflokkarnir sér ekki til að nota það orð í 1. gr. frv. Eftirágreiðslukerfið er ómanneskjulegt og byggir á hugarfari sem er hættulegt okkar þjóðfélagi, hugarfari sem þekkir ekki aðstæður almennings í landinu, hugarfari þeirra sem eru fæddir með silfurskeið í munni.