Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 18:37:00 (6580)


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. ( GHelg: Hvar er Alþfl.?) Já, ég mun auglýsa eftir honum í pontunni fljótlega því að ég taldi rétt áður en ég fór í pontuna þrjá krata í salnum og álíka marga sjálfstæðismenn og erindi mitt upp í þennan ræðustól var auðvitað að reyna að sýna mönnum fram á villu síns vegar ef þeir ætluðu að styðja þetta frv. Ég áskil mér þann rétt að reyna að sannfæra einhverja þingmenn, reyna að snúa þeim til betri vegar þrátt fyrir að forsrh. segði hér í dag að það stæði ekki til að gera neinar breytingar á frv. En lengi má manninn reyna og ég trúi ekki að allir þingmenn stjórnarflokkanna séu svo heillum horfnir, séu slíkar geðlurður að þeir láti smala sér til stuðnings við þetta frv. eins og rollur í rétt. En til þess að ná eyrum manna verða þeir að vera einhvers staðar nærstaddir og ég sakna ákaflega stjórnarþingmanna héðan úr salnum. Ég verð að lýsa því yfir að mér finnst það sérkennilegt, af því að menn eru að tala um og kvarta undan þingskapaumræðu, og ekki ætla ég að fara að prísa hana, mér leiðist hún eins og öðrum þingmönnum mörgum, að þeir skuli þyrpast í salinn ævinlega til að hlusta á þingskapaumræður en þegar kemur að málefnaumræðunni sjálfri þynnist flokkurinn allverulega. Það var til marks um það undir hvaða dagskrárlið menn eiga eða eiga ekki að taka til máls í þingsalnum. Ég auglýsi nú eftir þingmönnum úr stjórnarliðinu og það væri mjög fróðlegt ef forseti vildi upplýsa okkur um að hve margir úr stjórnarliðinu væru staddir í þinghúsinu núna því að það kann vel að vera að einhverjir séu í hliðarsölum og heyri þá mál mitt, en ég vildi gjarnan fá upplýst hversu margir stjórnarþingmenn eru hér við þennan lokasprett umræðunnar ef það væri hægt. ( Forseti: Hv. þm. ætti að vera kunnugt að í þinghúsinu eru töflur er sýna viðveru þingmanna. Forseti hefur ekki látið fara fram talningu og mér skilst að það sé ekki hefð að baki því að hann hafi þann starfa á hendi þannig að ég vona að hv. þm. taki tillit til þess. ( GHelg: Það stendur á skermi forseta.) Það stendur á skermum og töflum í þinghúsinu.) Forseti hefur þetta á töflu fyrir framan sig og ég veit að hann er skarpur maður og fljótur að telja og ætti ekki að verða skotaskuld úr því að segja mér með einni tölu hvað eru margir stjórnarþingmenn staddir. ( GHelg: Það eru 15 stjórnarliðar í húsinu.) Það eru 15 stjórnarliðar í húsinu. ( Forseti: Forseti óskar eftir því að það verði regla á fundinum.) Nú veit ég að það eru 15 stjórnarliðar í húsinu og þá ætti væntanlega að vera hægt að koma reglu á fundinn og séu þeir einhvers staðar nærstaddir og heyri til mín auglýsi ég eftir þeim í þingsalinn. Ástæðan fyrir því að ég auglýsi eftir þeim og vil fá þá í þingsalinn er að ég vil gjarnan reyna að leiða þeim fyrir sjónir hvað málstaður námsmanna hefur verið affluttur á Alþingi á undanförnum dögum og vikum. Ég verð að segja að mér finnst það nálgast rógsherferð gegn námsmönnum sem hér hefur átt sér stað og þar í flokki hafa farið, því miður, ýmsir sem ættu að vita betur og ættu í rauninni að verja námsmenn og þeirra störf en ekki ráðast gegn þeim og þar er ég ekki síst að tala um hæstv. menntmrh.
    Það má kannski segja að það sé ákveðin þjóðaríþrótt hjá Íslendingum að agnúast út í ákveðna þjóðfélagshópa og við höfum oft heyrt það, þingmenn. Það er sagt um þingmenn að þeir séu siðlausir og spilltir. Menn hafa gaman af því að tala um það. Við erum ekki sátt við þann dóm, teljum að okkar siðferði sé álíka gott og hjá flestu fólki og reynum að mótmæla þessu umtali. Ég verð að segja að það er erfitt sem nýr þingmaður að missa hálft í hvoru æruna fyrir það eitt að setjast á þing. Auðvitað eru hér nokkur fölnuð laufblöð sem setja sitt mark á þingið, en ég ætla ekki að fordæma skóginn fyrir það.
    Opinberir starfsmenn eru gjarnan taldir latir og metnaðarlausir. Þeir eru vegnir og metnir og léttvægir fundnir, ekki síst kennarar, og menn hafa gjarnan talað eins og kennarar hafi gert skóla landsins að hægindi sínu og þar hefur m.a. hæstv. menntmrh. verið í fararbroddi. Útgerðarmenn er fólk sem er óalandi og óferjandi, gírugir og vanhæfir með öllu, með ættbogann allan á spenanum. Þetta er sagt um þá. Námsmenn eru afætur sem hreiðra um sig umkringdir stereógræjum, bílum og stunda lífsins lystisemdir. Þetta höfum við heyrt um námsmenn. Þannig má segja að sé ákveðin þjóðaríþrótt á ferðinni.
    Stundum kynda stjórnvöld undir og það gera þau einkum og sér í lagi ef þarf að knésetja ákveðna þjóðfélagshópa. Og við höfum séð það í vetur. Það hefur verið ráðist af stjórnvöldum á Alþingi gegn kennurum. Það hefur verið ráðist af ráðherrum í vetur gegn þingmönnum og það hefur verið ráðist hér á þingi í vetur gegn námsmönnum. Þessir þrír hópar virðast vera einhver bjálki í augum ráðherra nú um stundir.
    Sá þingmaður sem talaði á undan mér vitnaði í leiðara Morgunblaðsins í dag og í þessum leiðara Morgunblaðsins er vitnað í grein eftir Steingrím Ara Arason sem situr í stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna og er aðstoðarmaður fjmrh. Þar er kannski í hnotskurn samankominn sá rógur sem hafður er uppi um námsmenn nú um tíðir af stjórnvöldum. Mig langar þess vegna til þess að fara nokkrum orðum um þessa grein til að sýna hvers kyns þessi málflutningur er.
    Í fyrsta lagi segir í þessari grein, með leyfi forseta, að rúmlega helmingur námsmanna sem fengu lán hjá sjóðnum skólaárið 1990--1991 hafi vanáætlað tekjur sínar, en tekjur manna hafa mikil áhrif á upphæð námslána. ,,Þannig hafa námsmenn`` --- og ég bið menn að taka eftir --- ,,skammtað sér a.m.k. um stundarsakir vaxtalausa fjármuni svo nemur hundruðum milljóna kr. sem þeir áttu engan rétt á að fá,`` eins og segir í grein aðstoðarmanns fjmrh.
    Það eitt að tala um að þeir ,,skammti sér`` gefur manni til kynna að aðstoðarmaður ráðherrans lítur svo á að um vondan ásetning sé að ræða hjá námsmönnunum, um vísvitandi blekkingar sé að ræða hjá 5.000 námsmönnum því að það kemur síðar fram í grein hans að þarna er um 5 þús. manns að ræða. Það er ekki boðlegur málflutningur af hálfu aðstoðarmanns fjmrh. að tala um þetta eins og vondan ásetning og vísvitandi blekkingar. Það skilur Morgunblaðið og það kom m.a. fram í leiðara þess í dag að það spyr: ,,Getur það verið að 5.000 námsmenn séu svo illa innrættir og spilltir að þeir beinlínis blekki Lánasjóð ísl. námsmanna?`` Morgunblaðið svarar þessari spurningu auðvitað neitandi, enda sér það hver maður ef við förum á bak við þessar upplýsingar hvernig í pottinn er búið. Námsmenn þurfa að sækja um námslán fyrir 1. ágúst á hverju ári. Með öðrum orðum, þeir þurfa að áætla tekjur sínar og maka síns líka í mörgum tilvikum í fimm mánuði, frá ágúst og til áramóta. Og það kemur í ljós, ef maður skoðar greinina hjá Steingrími Ara, að hann tekur það fram síðar að þarna er um 5.000 námsmenn að ræða og það er talað um að vanáætlun tekna hafi numið 640 millj. kr. Ef við reiknum þetta út á námsmann er vanáætlunin á hvern námsmann 124 þús. kr., þ.e. sú upphæð sem þeir vanáætla tekjur sínar fram að áramótum. Þetta eru um 25 þús. kr. á mánuði á námsmann. Eins og Morgunblaðið bendir á þarf ekki annað en fá sæmilega vinnu í jólafríi til að breyta algerlega tekjumyndinni hjá námsmanni. Hann getur náð kannski 125 þús. kr. með mikilli vinnu í jólafríinu sínu. Hann getur fengið einhverja hlutavinnu með námi, náð inn 25 þús. kr. á mánuði þar, og þá er þetta fljótt að tína sig saman. Þarna er ekki um neinar vísvitandi blekkingar að ræða. Við sæjum okkur sjálf ef við ættum að segja fyrir 1. ágúst hverjar yrðu tekjur okkar á þessu ári. Ætli það mundi ekki skeika einhverju hjá flestum okkar. Ég er ansi hrædd um það.
    Það má þess vegna geta þess líka að hann talar um að rúmlega helmingur námsmanna hafi vanáætlað, en hvað þá með hinn helminginn? Hvað með hina? Það er ekkert sagt hérna um þá sem hafa kannski ofáætlað tekjur sínar. Það kynnu þó ekki að vera einhver dæmi um það? Og væri þá ekki ástæða til þess að nefna það líka? En ég tel það harla gott að helmingur námsmanna skuli geta annaðhvort áætlað tekjur sínar rétt eða gefið þá heldur meira upp en þeir hafa svo á endanum.
    Í öðru lagi segir í grein aðstoðarmanns fjmrh.: ,,Í reglum lánasjóðsins er gert ráð fyrir að einungis nýnemar þurfi að skila árangri áður en þeir fá lán sín greidd og aðrir þurfi ekki að skila árangri áður en þeir fá lán sín greidd.``
    Auðvitað er þetta ekkert rétt. Námsmenn sem eru lengra komnir í námi skila árangri á vormissiri, þeir fara í próf á vormissiri, skila árangri og fá út á það lán á haustmissiri. Þeir skila síðan árangri á haustmissiri og fá út á það lán á vormissiri. Þannig gengur þetta fyrir sig eftir að menn hafa komist yfir fyrsta missirið sem nýnemar og því í ósköpunum ættu menn að þurfa að vera að sanna sig á missirisfresti í kannski löngu námi? Sumir eru í 7--8 ára námi og eiga þeir að þurfa að sanna sig á hverju einasta missiri? Þeir eru löngu búnir að því með því að skila alltaf sínum námsafköstum eins og þeim ber. Það er beinlínis rangt hjá aðstoðarmanni fjmrh. að menn þurfi ekki að skila árangri til að fá lán greitt. Þeir þurfa að gera það.
    Í þriðja lagi segir aðstoðarmaðurinn og stjórnarmaðurinn í lánasjóðnum að það séu stóralvarlegar brotalamir í núverandi námslánakerfi. Og hann nefnir í því sambandi að fjöldi fólks eins og hann segir eða um þúsund manns hefur ekki enn skilað sjóðnum upplýsingum um námsárangur. ,,Varlega áætlað hafa 300--400 manns af þessum hópi hætt námi án þess að skila tilskildum árangri``, segir hann síðan. Ég man ekki betur en ráðherra tæki þetta upp í gær og segði að það væri ekki vitað um árangur 1.000 manns sem hefðu fengið lán hjá lánasjóðnum. Þá er rétt að upplýsa það, sem ráðherra hefði alveg eins getað gert í gær og auðvitað hefði honum borið ríkari skylda til þess en mér, að stór hluti þessa fólks eða um helmingur var á síðasta námsári þegar 1990--1991. Það var þeirra lokaár í námi og þeir eru hættir viðskiptum við sjóðinn, þeir leita ekki aftur til sjóðsins og þess vegna eru þeir ekkert að senda upplýsingar um sig eftir á eða láta það undir höfuð leggjast. Margir þessara námsmanna hafa verið í námi erlendis og því fær sjóðurinn ekki sjálfkrafa upplýsingar um þá. Hefðu þeir verið hér heima vissi sjóðurinn og veit um þá námsmenn, að þeir hafa lokið námi, fær slíkar upplýsingar hjá háskólanum. En þessir námsmenn eru hættir viðskiptum við sjóðinn. Þeir hafa verið í sínu námi, þeir eru búnir að ljúka, þeir eru búnir að standa sína ,,plikt``, skila sínum námsárangri og hafa ekki sent upplýsingar um sig eftir námslok. Þannig er hægt að útskýra um helming þessa hóps.

    Tökum þá þessa 300--400 sem hafa hætt námi eins og hér segir án þess að skila tilskildum árangri. Það er ekki heppilegt. Þetta eru nú aðeins 4--5% afföll, það eru öll ósköpin, þetta eru 4--5% afföll. Og við skulum athuga að þessi hópur fólks hefur fyrirgert rétti til frekari námsaðstoðar síðar nema hann vinni upp árangurinn. Þessir krakkar eru að skerða möguleika sína síðar í lífinu til námsláns nema þeir vinni upp þá námsskuld sem þeir skulda lánasjóðnum ef ég má orða það svo. Það ætti í sjálfu sér að vera næg refsing fyrir þau. Þau eru búin að fyrirgera ákveðnum rétti síðar meir. En vilji lánasjóðurinn nú endilega taka á þessu vandamáli, sem er sjálfsagt að gera, þá má láta fólk skrifa undir skuldabréf sem eru þess eðlis að hægt sé að gjaldfella lánið ef ekki fæst viðhlítandi skýring.
    Nú vil ég taka fram að ég held að oft sé til viðhlítandi skýring á því af hverju námsmenn hætta námi án tilskilinna prófa. Það vitum við öll að hefur komið fyrir margan mætan mann og hann getur gefið á því viðhlítandi skýringu. Ætli flest okkar fornu skáld mundu ekki lenda í þeim hópi ef grannt væri skoðað að hafa komið próflausir frá námi og ef við hefðum fjárfest eitthvað í þeim hefði það verið góð fjárfesting.
    Aðstoðarmaður ráðherra segir í fjórða lagi í þessari grein: ,,Verulegur hluti ofgreiddra lána greiðist sjóðnum án vaxta þegar frá líður. Það er þó ekki kjarni málsins``, segir hann. ,,Hann er sá að með röngum upplýsingum fékk rúmlega helmingur námsmanna á þessu skólaári í hendur mikla vaxtalausa fjármuni sem þeir áttu ekki rétt á.``
    Ég fæ ekki betur séð en þetta sé beinlínis rangt og sé til marks um vondan málstað þessa stjórnarmanns í lánasjóðnum. Helmingur þess hóps sem þarna er um að græða fékk ofgreitt lán í mjög skamman tíma, virðulegur ráðherra, og það skiptir auðvitað engu máli þegar til lengri tíma er litið. Þessir námsmenn fengu þarna um 90 þús. að meðaltali hver í ofgreitt lán. Það mun nema um 90 þús. kr. að meðaltali sem þeir fengu ofgreitt. Þeir fengu það ofgreitt í 2--3 mánuði. Síðan var það dregið frá þegar útgreiðslan kom í febrúar eða mars. Þetta er kannski spurning um að þeir hafi fengið fullmikið greitt á fyrri hluta námsársins og það hefur verið þá dregið frá á síðari hluta og það breytir ekki heildarláninu sem námsmaðurinn tekur til margra ára og jafnvel áratuga. Það breytir ekki því þannig að þegar til lengri tíma er litið skiptir þetta ekki nokkru einasta máli þó að menn hampi þessu mjög í umræðunni og telji þetta vera þung rök fyrir því að koma námslánum þannig fyrir að þau séu eftirágreidd.
    Í fimmta lagi segir í grein þessa stjórnarmanns í lánasjóðnum: ,,Á það hefur verið bent að nýjar reglur sem kveða á um aðra tilhögun á greiðslu námslána en verið hefur hafi kostnað í för með sér fyrir námsmenn``, þ.e. að vísa þeim á bankakerfið þar sem þeir þurfa að taka lán með háum raunvöxtum. Og hann viðurkennir, stjórnarmaðurinn, að það sé rétt, en segir svo: ,,Til þess þarf einfaldlega að taka tillit þegar námslán eru ákveðin og hækka lán til þess að mæta þeim kostnaði, þ.e bankakostnaðinum. Enn fremur þarf að draga enn úr því að tekjur hafi áhrif á námslán.``
    Um þetta tvennt verð ég að tala vegna þess að þarna eru á ferðinni dæmigerð gylliboð. Og það er sagt: Allt þetta skulið þið fá. Þið skulið fá lánað fyrir vöxtunum sem þið þurfið að borga í bankakerfinu og þið skuluð fá meira tekið tillit til sumarteknanna ykkar --- eða maður skyldi segja kannski minna tillit tekið til þeirra, þær komi ekki til að lækka námslánin hjá námsmönnum þó að þeir hafi drjúgar sumartekjur --- bara ef þið viljið það sem verið er að bjóða ykkur upp á. En hvað kosta svona yfirboð ef þeir ætla í raun og veru að greiða þetta?
    Ráðherra upplýsti í gær að það að lána námsmönnum eftir á fyrir vöxtum í bankakerfinu mundi kannski auka fjárþörf lánasjóðsins um 1--2% og vísaði þá í hvernig þetta væri með fyrsta árs nema í háskólanum, að þeir tækju yfirleitt mjög lág lán, þetta væri miklu lægri lán en þeir mundu fá úr lánasjóðnum og það væri aðeins lítill hluti þeirra sem tæki þessi lán. Þessi regla, sem gildir um fyrsta árs nema, var síðan yfirfærð á námsmannahópinn í heild sinni. Þar er um tvennt ólíkt að ræða, virðulegur ráðherra, vegna þess að margir fyrsta árs nemar eru hikandi. Þeir eru kannski ekki alveg vissir um að þeir ætli sér í raun og veru í nám. Þeir eru að prófa sig áfram. Þeir eru kannski að hugsa um að seinna meir muni þeir eða um áramót hugsanlega skipta um, fara í einhverja aðra grein. ( Menntmrh.: Ég sagði m.a. tekið tillit til þessa.) M.a. En 1--2%? Ég veit ekki þá út frá hverju þau eru fundin ef ekki þessu sem var það eina sem ráðherrann nefndi hér. Það var það eina sem ráðherrann nefndi í gær. Þetta er auðvitað ekki hægt að yfirfæra á 8 þús. námsmenn í heild sinni sem margir hverjir eru með börn á framfæri sínu og þurfa að taka þá drjúg lán í bankakerfinu til að framfæra þau.
    Þetta yfirboð, sem ég var að nefna hér, felur það í sér að ráðherra og hans menn lofa því að lána námsmönnum fyrir 10--11% raunvöxtum af skammtímalánum sem þeir taka sér í bönkunum. Og þá hlýtur maður að spyrja: Af hverju er lánasjóðurinn að borga þetta verð fyrir lánsfé, þessa raunvexti fyrir lánsfé þegar sjóðurinn sem stór lántakandi gæti fengið peninga að láni fyrir mun minna verð en einn og einn námsmaður sem fer og slær sér lán í banka? Af hverju er lánasjóðurinn að borga þetta verð fyrir lánsfé? Hvers konar hagspeki er þarna á ferðinni, virðulegur ráðherra?
    Ég held að það sé engin hagspeki þarna á ferðinni. Málið er einfaldlega að stjórnvöld ætla með þessum aðgerðum að hræða ákveðinn fjölda frá námi. Það er fælingarmáttur vaxtanna sem er aðalatriðið í þessu sambandi, þ.e. að fæla ákveðinn fjölda námsmanna frá námi, og þannig ætla þeir að skera niður fjárþörf sjóðsins bæði í nútíð og framtíð og ég hugsa að þeir séu að gæla við að niðurskurðurinn sem með þessu móti náist geri að verkum að þeir þurfi jafnvel ekki að breyta úthlutunarreglum sjóðsins. Að óbreyttum úthlutunarreglum ættu haustlán að nema um 1.270 millj. kr. ef ég man rétt. Það eru 800 millj. til ráðstöfunar í sjóðnum sem á flytja fram yfir áramót og þannig vantar upp á ákveðið fé og það mætti segja mér að menn væru að gæla við að þeir þyrftu ekki að leggja meira fé til sjóðsins vegna fælingarmáttar bankavaxtanna. En þeir eru sem sagt að bjóða þeim námsmönnum sem eftir standa að lána þeim fyrir bankavöxtunum og þar með eru þeir auðvitað ekki að gera annað en það að binda þessum námsmönnum enn þyngri skuldabagga í framtíðinni.
    Hér var talað í þingskapaumræðum um bankakerfið og því var mótmælt að menntmn. skyldi ekki fá tækifæri til þess að ræða við fulltrúa viðskiptabankanna á fundi sínum áðan. Ráðherra hefur útlistað það þannig að bankarnir geti ekkert svarað því hvaða kjör þeir bjóði námsmönnum á þessum lánum, sem væntanlega munu koma til inni í bankakerfinu, en það er ekki eina málið sem snýr að bankakerfinu. Þetta snýr líka að almennum viðskiptamönnum bankanna. Hvaða áhrif mundi það t.d. hafa ef þúsundir námsmanna koma í bankakerfið og sækja þangað há lán, við skulum segja þessar 800 millj. eða milljarð sem þarf í námslán í haust og jafnvel 1,2 milljarða, hvaða áhrif hefði það á vextina, hvaða áhrif hefði það á möguleika almennings í landinu til þess að fá lánafyrirgreiðslu í bönkunum? Það er svo margt inni í þessari mynd og það er ekki bara það sem snýr að námsmönnum heldur almenningi í landinu og við þessu hefði menntmn. auðvitað þurft að fá svör. Hvaða áhrif hefur þetta almennt á þjóðlífið? ( Gripið fram í: Það var tilgangurinn.) Það var tilgangurinn, já. En það virðist að hæstv. menntmrh. hafi ekki skilið né heldur formaður menntmn. sem er greinilega einhvers staðar víðs fjarri núna.
    Ég las upp áðan úr grein Steingríms Ara Arasonar, stjórnarmanns í LÍN og aðstoðarmanns fjmrh., og hann sagði að það þyrfti að draga úr áhrifum tekna á upphæð námslána. Með öðrum orðum, það ætti ekki að láta tekjur skerða námslán á sama hátt og þær gera í dag. Ég verð að segja að þetta er sérkennileg aðferð á samdráttartímum, að koma því þannig fyrir, því auðvitað er sú regla að gefa sumartekjum ekki mikla vigt í útreikningum námslána hreinn útgjaldaauki fyrir sjóðinn. Ef ekki væri skorið niður annars staðar væri þarna um hreinan útgjaldaauka fyrir lánasjóðinn að ræða. Ég hef grun um og hef heyrt það svo sem hjá mönnum í stjórnarliðinu að þetta þjóni einhverju sérstöku uppeldismarkmiði. Það á að vera vinnuhvetjandi fyrir námsmenn. Ef þeir fá að halda sem mestu af sumartekjum sínum óskertum og þær komi ekki til að skerða námslánin þeirra sé það vinnuhvetjandi og það sé göfugt uppeldismarkmið. En mér finnst þetta sérkennilegt uppátæki á atvinnuleysistímum þegar fjölmargir námsmenn fá mjög takmarkaða og illa borgaða vinnu.
    Ef ég hef reiknað rétt má einstaklingur í dag hafa um 70 þús. kr. í laun á mánuði í leyfi án þess að námslánið skerðist. Ég hlýt að spyrja: Hversu margir námsmenn hafa mikið meira en það á mánuði í sumartekjur? Það getur vel verið að einstaka strákar sem komast í vel launuð störf hafi meira, en er þá ástæða til þess að umbuna þeim sérstaklega hjá lánasjóðnum fyrir það að komast í vellaunuð störf? Af hverju skyldu þeir ekki nota það sem út af stendur af sumarhýrunni til að lækka lánsfjárþörf sína hjá lánasjóðnum? Er það göfugt uppeldismarkmið að veita fólki aðgang að meira lánsfé en það þarf? Er það merkilegt uppeldismarkmið að benda fólki á að það megi fá meira fé að láni en það í raun og veru þarf? Ég veit að það hefur verið við lýði í ýmsum atvinnugreinum að taka ótæpilega að láni og það hefur verið stundað um langt árabil. En ég vissi ekki að það teldist til eftirbreytni og væri eitthvert sérstakt uppeldismarkmið í því fólgið. Það hefur þá eitthvað í þeim málflutningi farið fram hjá mér. Hvort tveggja það að ætla að lofa námsmönnum því að lána þeim fyrir bankavöxtunum og hitt að ætla að draga úr tekjutillitinu eru gylliboð og ekki annað en yfirboð af hálfu þessa stjórnarmanns.
    Hér hefur talsvert miklum tíma verið eytt í að ræða 6. gr. frv. sem felur í sér það fáheyrða óréttlæti að ætla ekki að veita námsmönnum framfærslulán í haust. Þetta er að verða mál málannna núna í þessari umræðu. Við vitum öll að þetta er ekki bara spurningin um haustið í haust heldur mun sama sagan endurtaka sig í vor. Námsmaður sem tekur bankalán í haust til að geta stundað sitt nám og fær námslán í við skulum segja febrúar þarf að nota það námslán til að greiða upp skuldina í bankanum og þarf að fara af stað aftur í bankana, slá víxil til að geta framfleytt sér fram á vorið þegar námslánið kemur sem fer þá aftur í að greiða þann víxil og svo aftur koll af kolli.
    Það talaði við mig um daginn námsmaður sem er að fara í nám til Bandaríkjanna í júlí með fjölskyldu sína og hann spurði hvernig hann ætti að fara að, það eru engin eyðublöð til uppi í lánasjóði. Hann getur ekki einu sinni sótt um, það eru engin eyðublöð tilbúin þar núna. Hann veit ekki hverjar úthlutunarreglurnar verða. Hann er algerlega í lausu loft og veit ekkert á hvaða mið hann er að róa þó að hann viti að þau séu rýr. Þessi námsmaður þarf að fara í banka núna og taka bankalán fyrir skólagjöldum í bandarískum háskóla og bankalán til þess að framfæra fjölskyldu sína fram yfir áramót því að þarna er um fjölskyldumann að ræða. Próf eru í janúar og að öllum líkindum verður ekki búið að ganga frá þeim málum og upplýsingar komnar til lánasjóðsins fyrr en í febrúar/mars. Þá fær þessi námsmaður greitt sitt námslán sem fer þá í víxilsskuldirnar og hann verður að slá sér lán fram á vorið. Þetta þurfa menn sem sagt að gera tvisvar á ári, að leggja mál sín fyrir bankastjóra og vera upp á mat þeirra, náð og miskunn komnir.
    Það er eitt í þessu sambandi varðandi námsmenn erlendis. Hverjir eiga að gera þetta fyrir námsmenn erlendis sem eru víðs fjarri vettvangi? Þeir verða að hafa einhverja sérstaka sláttumenn hérna sem eru tilbúnir til að fara bónarveginn að Sverri Hermannssyni tvisvar á ári og ef maður þekkir Sverrir Hermannsson, sem var stúdentaskelfir þegar hann var menntmrh., þá er ekki ólíklegt að hann geri einhverjar

kröfur til bæði námsárangurs hjá þessum námsmönnum og til ábyrgðarmanna og annarra hluta. En þegar menn eru hugsanlega búnir að fá lán hjá bankastjóra þarf líka að ganga fyrir hvers manns dyr og reyna að fá uppáskrift upp á hátt skammtímalán í banka með háum raunvöxtum. Við skulum athuga það að ekki eiga allir mjög greiðan aðgang að ábyrgðarmönnum. Það eru ekki allir sem eiga foreldra sem geta skrifað upp á eða kæra sig um að skrifa upp á skuldabréf fyrir börn sín. Stundum er samband lítið á milli námsmanna og foreldra þeirra og stundum efast foreldrarnir um að þeir séu taldir nógu fínir pappírar í bönkunum. Mig langar til þess að segja frá því hér að það hringdi í mig móðir sem á börn í námi og hún sagði einmitt við mig: ,,Ég er ekki viss um að mitt nafn verði tekið gilt í bönkunum, en börnin mín eiga bara mig að og engan annan. Og hver ætlar þá að skrifa upp á skuldabréfin hjá þeim? Ætlar Ólafur Garðar að gera það, menntmrh.? Er það til hans sem ég á að fara og biðja um undirskrift á þessa pappíra? Eða hvert á ég að fara?``
    Ráðherra sagði í gær um þessa eftirágreiðslu lána að það gerðist ekkert annað en það að haustlán flytjast fram í febrúar, sagði hann. Það eru 800 millj. kr. sem verða fluttar fram yfir áramót úr lánasjóðnum. En auðvitað gerist svo margt annað, hæstv. menntmrh., hvar sem þú ert nú staddur svo maður segi eins og í sögunni um Búkollu. Það gerist svo margt annað og það er maður margbúinn að reyna að leiða honum hér fyrir sjónir. Þetta hefur margháttuð áhrif á líf þúsundir námsmanna og fjölskyldna þeirra og þetta verður til þess að auka efnalega mismunun meðal námsmanna. Sumir eiga foreldra sem geta lánað þeim vaxtalaust eða styrkt þá fram yfir áramót og þeir þurfa þá jafnvel ekki að nota námslánið sitt sem kemur í mars og aftur um vorið til þess að greiða niður skuldir. Hinir eiga engan slíkan aðgang, hvorki að uppáskriftum né að styrkjum.
    Ég sagði áðan að það þyrfti 1.270 millj. kr. samkvæmt reglum sjóðsins til að mæta haustlánum eins og þau ættu að vera miðað við úthlutunarreglur, en það eru til 800 millj. Það hefur komið hér margsinnis fram. Og því hlýtur maður að spyrja hvort það verði tryggt fjármagn á fjárlögum næsta árs til að mæta kostnaði vegna haustlána miðað við núgildandi útlánareglur, þ.e. hvort þessar 470 millj. sem þá vantar upp á féð sem nú er í sjóðnum og þessar úthlutunarreglur gera ráð fyrir að þurfi verði tryggðar eftir áramót þannig að það megi ganga út frá því sem vísu að úthlutunarreglur verði eins og þær eru nú. Eða eru menn að gæla við þá von að engin útgreiðsla í haust skeri námsmenn svo niður við trog að ekki sé þörf á að bæta við fjárframlagi né heldur breyta úthlutunarreglunum? Við þessu verða að fást svör við þessa umræðu í kvöld, enda ekki seinna vænna.
    Náist þessi niðurskurður fram, sem mér heyrist stjórnarþingmenn sumir hverjir vera að gæla við og vona að aðrir sjái sóma sinn í að standa gegn, hvar skyldi hann þá koma niður, hverja skyldi hann hitta fyrir? Ég er hrædd um að það sé hætt við að það verði öðru fremur þeir sem hafa veikt bakland og þurfa að standa á eigin fótum, jafnvel með barn eða börn á framfæri sínu. Ég reikna með því að ráðherrann hafi lesið Morgunblaðið spjaldanna á milli í dag og sé vel kunnugur því sem þar er skrifað núna um námslánin, en þar var einmitt viðtal við sex námsmenn, þrjár konur og þrjá karla, og það er kannski dæmigert fyrir stöðuna eins og hún er núna að þar eru tveir námsmenn að velta því fyrir sér jafnvel að hætta námi og segja að ef þeim bjóðist einhver vinna sé eins líklegt að þeir hætti námi. Og hverjir eru það úr þessum hópi námsmanna? Jú, það eru tvær konur sem báðar eru einstæðar mæður. Það eru þær sem eru að velta því fyrir sér að fái þær einhverja launaða vinnu muni þær væntanlega hætta námi ef þessar reglur verða að veruleika. Og þær benda báðar á það og það er samdóma álit þeirra að þetta sé stórt skref aftur á bak í jafnréttisbaráttu í landinu og ég held að við hljótum að samþykkja að svo sé. Því miður eru hér greinilega enn einhverjir stjórnarþingmenn sem ætla að standa að þessu stóra skrefi og ég held að það sé rétt að tilkynna þeim þá, og ég veit að þeir vita það, að það verður eftir því tekið hverjir stjórna því stóra skrefi og hverjir eiga aðild að þessu stóra skrefi. En áður en ég fer úr pontu, virðulegi forseti, ætla ég að lesa ályktun sem Verkamannafélagið Dagsbrún gerði einmitt um 6. gr. frv. og megi hún verða einhverjum stjórnarmönnum til umhugsunar á eftir og viðbragða vonandi. En þessi ályktun er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Stjórn Verkamannafélagsins Dagsbrúnar ályktar um 6. gr. frv. til laga um Lánasjóð ísl. námsmanna.
    Í 6. gr. frv. er gert ráð fyrir því að námsmenn fái ekki lán úr LÍN fyrr en tilskildri skólasókn og námsárangri er náð á ári hverju. Stjórn Verkamannafélagsins Dagsbrúnar álítur að þetta sé óeðlileg og óréttmæt breyting frá því sem verið hefur. Það er mikilvægt að nemendur geti áfram stundað nám óháð efnahag. Hin nýju ákvæði auka mismun.
    Efnaminni námsmenn hafa ekki sömu möguleika og hinir efnameiri til að fjármagna nám sitt meðan beðið er eftir námsláni. Það verður þung byrði fyrir aðstandendur námsmanna sem hafa gengið í ábyrgð á skammtímalánum ef námsmanni mistekst í námi eða vegna veikinda. Slíkt fjárhagslegt álag á fjölskyldu námsmanns getur orðið lágtekjufólki ofviða, einkum í því slæma efnahags- og atvinnuástandi eins og nú er. Stjórn verkamannafélagsins Dagsbrúnar skorar á Alþingi að lagfæra ofangreind atriði í því frv. sem nú er til afgreiðslu.``
    Svo mörg voru þau orð.