Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 20:21:40 (6584)


     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég bið forsetann að afsaka að mér fataðist nokkuð á þingsköpunum þar sem mér varð svo mikið um svar hæstv. félmrh. En þannig háttar til að því miður lýsti hún því yfir að hún væri bundin af þessum ósköpum og Alþfl. stæði að því að loka Lánasjóði ísl. námsmanna í haust. Satt best að segja svaraði hún að vísu ekki öllum mínum spurningum, t.d. ekki um það hvort ákvörðun um þetta mál hafi verið tekin samhljóða í þingflokki Alþfl. Það má út af fyrir sig einu gilda úr þessu. Aðalatriðið er að Alþfl. hefur ákveðið að taka fulla pólitíska ábyrgð á því að loka Lánasjóði ísl. námsmanna haustið 1992, að fella úr gildi ákvæði um jafnrétti í lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna, að leggja vexti á námslán, að herða endurgreiðslur og skapa þannig sérstaka erfiðleika. Og fyrir hverja? Fyrir fátækt fólk í landinu sem á ekki steinsteypu eða hús til að veðsetja fyrir börnin sín svo að þau geti tekið lán í bönkum. Fyrir fólk á landsbyggð og fyrir konur. Þetta eru hóparnir sem verða sérstaklega fyrir barðinu á þessari skörulegu málamiðlunarsamþykkt Alþfl.
    Hæstv. félmrh. Vonin sem var bundin við sanngjarnar leikreglur fyrir fáeinum sólarhringum er að engu orðin. Það stóð skamma stund.