Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 20:30:29 (6586)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Það eru örfá atriði sem mig langar að drepa á að gefnu tilefni í ræðum síðustu ræðumanna nokkurra.
    Fyrst ætla ég að nefna að leiðari Morgunblaðsins í dag hefur orðið stjórnarandstæðingum mikill hvalreki og raunar Morgunblaðið allt í dag, sýnist mér. Það er gjarnan svo að það er vitnað í Morgunblaðið sem málgagn Sjálfstfl. Þegar blaðið skrifar þannig að það er ekki alveg í takt við stefnumál sjálfstæðismanna vitna stjórnarandstæðingar ótt og títt í skrif Morgunblaðsins. Nú ætti það að vera vitað af öllum að Morgunblaðið hefur lagt kapp á það undanfarin ár að sanna fyrir lesendum sínum, og lesendur Morgunblaðsins eru allir landsmenn eins og menn vita, að það sé ekki málgagn Sjálfstfl. Það sé frjálst og óháð blað. Það tel ég mjög skynsamlegt af Morgunblaðinu að leggja áherslu á. Þetta er svona. Morgunblaðið er ekkert sérstakt málgagn Sjálfstfl. Sjálfstfl. á ekki Morgunblaðið. Það er munurinn á Morgunblaðinu og Tímanum og Morgunblaðinu og Alþýðublaðinu og var líka munurinn á Morgunblaðinu og Þjóðviljanum meðan hann var og hét. En sú var tíðin að menn lásu leiðara Morgunblaðsins til þess að kynna sér stefnu Sjálfstfl. Sú var tíðin. En sú tíð er löngu liðin. Það er staðreynd málsins. Leiðarar Morgunblaðsins eru þess vegna ekkert frekar skoðanir Sjálfstfl., þeir eru skoðanir ritstjóra Morgunblaðsins. Ef þeir væru spurðir held

ég það sé enginn vafi á að þeir mundu svara því svona og það er allt gott um það að segja. ( HG: Hvaða flokki eru þeir í?) Þeir eru sjálfstæðismenn báðir. Þeir fara ekkert dult með það. Það er alveg ljóst af þessum skrifum Morgunblaðsins í dag á hvaða sveif þeir leggjast, það fer ekkert á milli mála. Þeir nota allar breiðsíður blaðsins undir málflutning þeirra sem eru andvígir því sem ríkisstjórnin er að gera. Það er að vísu ein grein í blaðinu, sem er falin á öftustu síðunum, sem lýsir öðrum skoðunum og er náttúrlega langbesta greinin sem birtist í blaðinu í dag um lánasjóðsmálin, það er alveg ljóst.
    Ég hef þegar komið nokkuð að ræðu hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur í þingskapaumræðum í dag og mér varð á að finna að því að hún skyldi ekki hafa beðið afsökunar á orðum sínum þegar hún las bréfið frá Landsbankanum. Út af þeim orðum mínum var ráðist alveg sérstaklega á mig af formanni flokks hennar, Ólafi Ragnari Grímssyni.
    Nú ætla ég, með leyfi hæstv. forseta, að biðja hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að koma með mér á smáupprifjunarnámskeið. Ég er nefnilega með útskrift af ræðu hennar frá því fyrr í dag. Mér nægir held ég að lesa alveg eina setningu og hún er svona, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ég talaði við nokkra bankamenn í morgun. Það hefur enginn rætt við neinn í bankakerfinu um að annast þessa fyrirgreiðslu við námsmenn`` o.s.frv. ( GHelg: Það er alveg rétt.) ,,Það hefur enginn rætt við neinn í bankakerfinu um að annast þessa fyrirgreiðslu við námsmenn.`` --- Og það er alveg rétt, segir þingmaðurinn enn þá. Hún er búin að lesa bréf frá Landsbankanum, hún er búin að heyra í gegnum sinn fulltrúa í menntmn. hvað framkvæmdastjóri lánasjóðsins hafði að segja um þetta, en hún virðist ekki enn átta sig á staðreyndum málsins. Ég get ekki gert að því. Ég er búinn að upplýsa þetta, en það dugar víst ekki.
    Hv. þm. Svavar Gestsson las upp úr skýrslum frá árinu 1990, manna sem tilnefndir voru í nefnd varðandi lánasjóðinn, og hann sagði að það hefði verið almennt mat að ekki væri um það mikinn vanda að ræða þegar núv. stjórn kom til valda að þyrfti að umbylta sjóðnum. --- Það væri ekki um það mikinn vanda að ræða.
    Nú leggja menn sjálfsagt nokkuð misjafnt mat á hvað sé vandi eða hvað sé mikill vandi. Það kann að vera að það líti misjafnlega út eftir því hver horfir eða frá hvaða sjónarhóli horft er. En hvað kallast það þegar viðskilnaður fyrrv. ríkisstjórnar á málefnum lánasjóðsins var þannig að það skorti 1 milljarð kr. þegar síðasta ríkisstjórn fór frá til þess að lánasjóðurinn gæti staðið við skuldbindingar sínar? Það kom í hlut núverandi ríkisstjórnar að bæta úr þessu með nokkrum hætti og það var gert. Það var gert þannig að á fjáraukalögum á sl. hausti voru veittar 700 millj. kr. til þess að lánasjóðurinn gæti staðið við skuldbindingar sínar. Það var dregið hins vegar úr fjárþörfinni um 300 millj. með sérstökum aðgerðum. En þetta var nú viðskilnaðurinn og í máli hv. þm. Svavars Gestssonar heitir þetta að það væri ekki svo mikill vandi að þyrfti að umbylta sjóðnum.
    Hann undirstrikaði, hv. þm., að það væru engin efnisleg rök fyrir breytingum. Þegar hv. þm. talar svona er hann um leið að segja að það eigi að halda áfram á þeirri braut sem gengin var í tíð síðustu ríkisstjórnar, þ.e. er fullkomið ábyrgðarleysi í fjármálum Lánasjóðs ísl. námsmanna. Það er þetta sem hann er að segja.
    Hv. þm. sagði að ég hefði talað í þessum umræðum eins og ég væri með úthlutunarreglurnar í höndunum eða drög að úthlutunarreglum. Það er ekki svo. Ég hef hins vegar rætt við framkvæmdastjóra lánasjóðsins og hann hefur skýrt mér frá hvað hafi verið rætt í stjórn sjóðsins um einstök atriði sem sérstaklega hafa komið upp í umræðunum. Og frá því hef ég skýrt. Ég tel að það hafi verið heiðarlegt af mér að segja frá því hvað sjóðstjórnin væri að ræða um einstök og veigamikil atriði í væntanlegum úthlutunarreglum. Þar nefni ég t.d. þetta atriði um vextina sem námsmenn þurfa að borga vegna lána sem þeir kunna að taka í bankakerfinu meðan þeir bíða eftir lánum hjá lánasjóðnum.
    Það er nokkuð mikið gert úr því sýnist mér í þessari umræðu hvað það muni kosta lánasjóðinn geysilega mikið fé að bæta við þessum vöxtum. Ég hef ekki nákvæma áætlun um þetta. Það er erfitt að gera þessa áætlun. Ég hef sagt það áður. En það segir sig sjálft að lánasjóðurinn verður fyrir nokkru hagræði af því að geta frestað því að taka lánin við það að haustlánunum er frestað fram yfir áramót. Þetta hagræði gengur að nokkru til nemendanna, væntanlegra viðskiptamanna sjóðsins, með hækkun lánanna vegna vaxtanna.
    Hv. þm. las upp úr grein Ólafs Arnarsonar, grein sem hann skrifaði 1986, og hafði greinilega afskaplega mikið yndi af að fá þessa grein upp í hendurnar. En ef þessi grein er lesin í samhengi kemur í ljós að höfundur hennar var að mótmæla skerðingu sem þá var líkleg um 30--50% og það er nákvæmlega það sama sem við erum að gera núna með frv., við erum að koma í veg fyrir að slík skerðing verði á grunnlánum lánasjóðsins. Það er nákvæmlega það sama.
    Hæstv. forseti. Það er freistandi að segja ýmislegt fleira um það sem komið hefur fram í umræðunni, en þá er ég hræddur um að ég lendi í því sama og hv. stjórnarandstæðingar gera allan tímann, það er að ég færi að endurtaka sjálfan mig, og ég ætla að stilla mig um það.