Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 20:41:00 (6587)


     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. menntmrh. er genginn í liðið með hæstv. forsrh. og fleiri góðum mönnum sem hafa ekkert annað til þessarar umræðu að leggja en að menn séu langorðir og leiðinlegir og þetta séu óþarfa málalengingar og ræðuhöld. Ég held að hæstv. menntmrh. hefði átt að sleppa þessari síðustu setningu a.m.k. og jafnvel allri ræðunni, svo ég svari í sama dúr. Þetta var ekki mjög merkileg ræða hjá hæstv. menntmrh. Nei. Ég held að hæstv. menntmrh. ætti þá að rifja upp í hvaða félagsskap hann er sem einn af menntamálaráðherrum Sjálfstfl. og ég held það ætti að fara yfir það úr því hann var að fara út í sögulega upprifjun hér, hæstv. menntmrh., hvernig afkoman hjá Lánasjóði ísl. námsmanna var þegar fyrrv. menntmrh. Svavar Gestsson kom þar að, hvaða verk var þá að vinna að bæta fyrir skemmdarverk ráðherra Sjálfstfl. í þeim málaflokki. Það var ærið verk að vinna að ná upp þeirri 20--30% skerðingu á námslánum sem þau höfðu þá staðið fyrir Ragnhildur Helgadóttir og Sverrir Hermannsson. Ég held að hæstv. núv. menntmrh. ætti að fara varlega í samanburð á frammistöðu einstakra menntmrh. í þessum málaflokki. Ætli sagan muni ekki dæma það best hverjir hafi reynt að standa við bakið á Lánasjóði ísl. námsmanna og hverjir ekki þegar frá líður? Mér er nær að halda það.
    Undir andsvörum er ekki hægt að ræða við hæstv. menntmrh. um annað sem hér kom fram í hans máli, en ég verð þó að segja alveg eins og er að það að ætla að bera það á borð fyrir menn hér, eins og menntmrh. gerir, að með einhverjum þeim hætti sem hægt sé að kalla það samráð eða viðræður við bankakerfið hafi verið undirbúin sú þátttaka þess eða lausn í fjármálum námsmanna sem ríkisstjórnin virðist ætlast til að fari fram, er alveg með ólíkindum. Það er alveg með ólíkindum að jafnþroskaður maður í stjórnmálum og lífinu og veröldinni og hæstv. menntmrh. ætti að vera, kominn á þennan aldur, skuli láta sér detta í hug að bera jafnvel á borð fyrir menn héðan úr ræðustól á Alþingi að símhringingar í bankastjóra jafngildi fullgildu samráði við þá um milljarða fjármögnun í þessu sambandi.