Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 20:50:41 (6592)


     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta er rangt hjá hæstv. menntmrh. Það var og er engin ástæða til að breyta grunnframfærslunni. Það er engin ástæða til að breyta þeim grundvallarmarkmiðum sem menn settu sér í upphafi með lögunum um námslán og námsstyrki frá 1982 --- nema einu atriði og það eru allir sammála um. Það er að endurheimtuhlutfall lánanna er lægra en menn áætluðu í upphafi. Það sem hér er hins vegar verið að gera er að það er verið að innleiða að þeir sem hafa greitt lánin sín að fullu fram undir þetta eiga að greiða meira. Þeir sem ekki hafa greitt eiga að halda áfram að þurfa ekki að greiða þannig að það grundvallarmarkmið sem menn ætluðu að ná í upphafi með þessum breytingum næst ekki. Það sem út úr þessu kemur, ef þetta gengur allt saman fram með þeim óskapnaði sem hér er boðað, er að þá mun Lánasjóður ísl. námsmanna verða fyrir viðbótarútgjöldum umfram það sem hann hefði annars orðið fyrir um 35--40 millj. kr. vegna þess að það á að fara að lána fyrir vöxtunum í stað þess að lána út strax á haustmissiri og þurfa ekki að vísa námsmönnum á bankakerfið.