Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 20:53:32 (6594)


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það er mér bæði ljúft og skylt að þakka hæstv. menntmrh. fyrir að hafa staðfest að í samstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. voru það framsóknarmenn sem stóðu vörð um Lánasjóð ísl. námsmanna. Slík yfirlýsing er okkur ómetanleg hér í kvöld vegna þess að það er nauðsyn að þjóðin átti sig á því þegar samstarf á sér stað á milli flokka að sumir hlutir verða þar til vegna þrýstings frá öðrum flokknum en aðrir hlutir frá hinum gagnstæða flokki. Þetta ruglar menn oft og þeir átta sig ekki á því hver stefna stjórnmálaflokkanna er.
    Það var heiðarlegt svar sem hæstv. félmrh. gaf í kvöld þegar ráðherrann gerði grein fyrir því að Alþfl. hefði samþykkt þessa hluti. Þeir hefðu samþykkt þá. En það kom glögglega fram að þetta var ekki það sem þeir vildu. En það sem situr eftir ósvarað og magnar upp hugsunina: Hvað var það sem þeir fengu og var svo mikils virði að það þótti stætt á því að fórna hagsmunum íslenskra námsmanna? Hvert var kaupverð gæfunnar? Það dugar ekki að segja það við íslenska þjóð að það hafi bara verið setan í ráðherrastólunum. Það verður þá að sýna fram á hvað það var.
    Ég geri mér grein fyrir því að ungir jafnaðarmenn munu krefjast þessara svara á flokksþingi Alþfl. Og ég geri mér grein fyrir því að Jónarnir, hæstv. ráðherrarnir tveir, munu eiga erfiða nótt áður en þeir ganga til þess leiks. Það er nefnilega svo að það er komið þannig fyrir þeim flokki, Alþfl., að þjóðin hlustar á einn ráðherra, hvað hann segir, vegna þess að þó menn séu ekki alltaf sammála því sem sagt er, þá trúa menn því að þar sé ekki vísvitandi verið að segja ósatt og þar skilur á milli feigs og ófeigs í þeirri stöðu.
    Ég tel óhjákvæmilegt eins og mál standa að fara nokkuð vítt yfir þetta svið. Ég tel óhjákvæmilegt annað en byrja á því að víkja nokkrum orðum að ræðu hæstv. forsrh. þegar hann vék að því hvernig þingmenn störfuðu. Það kom fram í ræðu hæstv. forsrh. að þingmenn töluðu mikið, þetta væri hálfgerður langhundur stundum og menn væru að éta hver upp eftir öðrum. Til þess að ekkert fari milli mála vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa örstuttan kafla sem snertir lánasjóðinn úr ræðu forsrh.:
    ,,Lánasjóður námsmanna er afar þýðingarmikið mál og mikið deilumál sem eðlilegt er. Í þingnefnd hefur verið unnið að málinu og stjórnarliðar gert fjölmargar breytingar til að nálgast þá sem gagnrýnt hafa frv. Sjálfsagt er að hver þingflokkur lýsi afstöðu sinni skýrt og skorinort til máls af því tagi, jafnvel með fleirum en einum talsmanni og við hverja umræðu um málið. Hér er hins vegar sú aðferð notuð að hver þingmaður af öðrum flytur langhund um málið og fer þá gjarnan þannig að hver étur eftir öðrum. Allir vita þó að hversu mjög sem talað verður mun ríkisstjórnarmeirihlutinn á Alþingi koma málinu í gegn, enda fjárlög ríkisins á því byggð. Málæði af þessu tagi hefur því ekki annan ávinning en þann að koma í veg fyrir að öllur mál, mál sem þorri þingmanna er kannski sammála um að fái afgreiðslu á þinginu á meðan, nái fram að ganga. Vinnubrögð af þessu tagi sem og svokallaðar þingskapaumræður eru þinginu til vansæmdar og er óhjákvæmilegt að þingflokkarnir íhugi vel ráð sitt í þessum efnum. Við hljótum að taka reglurnar um fundarsköp Alþingis til endurskoðunar og tryggja að eftir þeim sé farið. Þjóðin vill mega gera slíka kröfur til þessarar virðulegu stofnunar og þingmenn verða að geta risið undir slíkum kröfum.``
    Ég geri mér grein fyrir því að draumur hæstv. forsrh. er að það verði komið fyrir faxtækjum á borðum þingmanna og skipst verði á skeytum þvert yfir salinn. Þá þyrfti engar umræður. En nú skulum við örlítið víkja að staðreyndum.
    Í fyrsta lagi. Hæstv. forsrh. valdi sér samstarfsmenn sem ráðherra. Skyldi enginn þeirra hafa talað um þingsköp á seinustu þingum? Skyldi enginn þeirra hafa flutt mál, stundum nokkuð langt, á seinustu þingum? Það fer ekki á milli mála sem mannvalið skoðar að hann valdi úr þingflokknum langhundaliðið. Hann valdi langhundaliðið. Það er alvarlegt mál, hæstv. forsrh., að fara þannig að þegar ráðherrar eru valdir. Það er hægt að fara yfir þingtíðindin, fletta þeim upp og fara yfir það hvað þessir menn töluðu.
    Nei, hæstv. forsrh. vegur að eigin mönnum. Það er nú einu sinni svo að þetta er málþing og þingmenn fá enga yfirvinnu greidda þó þeir mæti hér á kvöld- og næturfundum og mín vegna þarf ekki lífvarðasveit um þetta þing til þess að forða því að Íslendingar veiti því aðför. Það eru þá hagsmunir einhverra annarra ef menn telja að það sé nauðsyn. Hæstv. forsrh. vill aftur kynna þetta þing sem óhæft. Hann er búinn að ferðast víða. Þeir slógust í ítalska þinginu, eftir sjónvarpsfréttum. Það er ráð að hann spyrji þá frétta á Ítalíu hvernig standi á þessu næst.
    En svo kemur það langalvarlegasta. Það langalvarlegasta í þessu öllu saman er ein setning. Þar segir: ,,enda fjárlög ríkisins á því byggð.`` Þetta er því miður, hæstv. forsrh., það sem kallað er á góðri íslensku hrein lygi. Og nú skora ég á íslenska fréttamenn: Eruð þið starfi ykkar vaxnir, eruð þið menn til að gæta þeirrar rannsóknarblaðamennsku sem stundum var krafist úr þessum ræðustól af mikilli festu? Eruð þið menn til þess að fletta upp fjárlögunum og skoða það sem hv. þm. Svavar Gestsson vitnaði í þegar hann benti á að fjárlög íslenska ríkisins gera ráð fyrir að sjóðurinn hafi ákveðna fjármuni á þessu ári og að samkvæmt þeim séu 800 millj. til ráðstöfunar í haust? Þetta hljóta íslenskir blaðamenn að geta gert. Og það sem meira er, fréttamenn Íslands eru skyldugir til að gera þetta. Ef það er staðreynd að forsrh. telur sínum tíma best varið á Alþingi Íslendinga með því að svívirða þingmenn en ljúga að þjóðinni, þá er sá forsrh. ekki maður til að stjórna þessu landi. Ég skora þess vegna á fréttamenn að gegna skyldu sinni. Ég skora á þá að upplýsa hvor fór með satt mál í þessum efnum, forsrh. eða Svavar Gestsson. Það þýðir ekki að hrópa kommúnisti, kommúnisti! og segja að þess vegna séu menn að ljúga. Jafnvel Morgunblaðið mundi neita að taka undir þann vopnaburð. Það er nefnilega satt sem hæstv. menntmrh. sagði: Morgunblaðið er hætt að taka að sér það hlutverk að vera skilyrðislaus, auðmjúkur þjónn Sjálfstfl. Þar eru menn sem krefjast þess að mega hugsa sjálfstætt, skrifa eins og þeir telja rétt og boða þjóðinni þá stefnu sem þeir telja rétta. Mér er ljóst að þetta ruglar oft sjálfstæðismenn vítt og breitt um landið í ríminu. Þeir átta sig ekki á því hvort þeir eigi að trúa Morgunblaðinu eða hvort þeir eigi að taka mark á ráðherrunum. Hérna stendur í Morgunblaðinu:
    ,,Fjárhagsstaða LÍN í lok vormissiris: 800 millj. kr. eftir af framlagi og lántökuheimildum fjárlaga.``
    Enn eitt vitnið er leitt fram og ég þakka þeim sem settu þetta á prent. Þetta er yfirlýsing um að forsrh. þjóðarinnar leyfði sér í eldhúsdagsumræðum að ljúga að þjóðinni. ,,Orð skulu standa``, sagði þessi hæstv. forsrh., og var keikur í stólnum í dag. Orð skulu standa. Hvaða orð, hvers orð?
    Ég minnist þess sem nemandi í Kennaraskóla Íslands að eitt sinn tók skólastjóri skólans sig til og ræddi einmitt um þennan þátt mála, orð skulu standa. Vissulega var það rétt að þá bændur hétu Guðmundi Arasyni hinum góða illu, þá efndu þeir það. Það er vissulega satt. En það sem dr. Broddi spurði að var einfaldlega þetta: Ef þér verður á að segja hlut sem er alrangur, fullyrða hluti, lýsa yfir ákvörðun sem er röng, ertu þá ekki að bæta gráu ofan á svart með því að segja: ,,Orð skulu standa``? Það er vissulega rétt að þegar menn gefa góð loforð eiga menn að reyna að standa við þau. En er það jafnvíst að þegar menn hafa í heitingum, þá beri líka að standa við það? Ég hygg að hæstv. forsrh. yrði maður að meiri ef hann kæmi í ræðustól og gerði grein fyrir því að hvað snertir þá fullyrðingu í eldhúsdagsumræðunni þar sem hann segir að það séu fjárlögin sem krefjast þessa hefði hann farið offari í málflutningi. Þetta væri því miður rangt.
    Ég get ekki látið hjá líða að hafa á því orð sem ég hef vissulega sagt áður úr þessum ræðustól. Ég hef vitnað í japanskan hagfræðing sem hefur haldið því fram að mesti auður hverrar þjóðar væri fólkið. Það er athyglisvert að ef við skoðum hans heimaland finnum við ekki þær auðlindir sem gjarnan er talað um sem aðalauðlindir þjóða. Við finnum ekki olíulindir, við finnum ekki námurnar stóru, við finnum ekki þessi gífurlegu fiskimið. Samt siglir Japan hraðbyr til þess að verða ríkasta þjóð heimsins. Hvers

vegna? Vegna þess að þeir trúa því að fólkið sjálft sé mesta auðlindin. Ef íslenska skólakerfið rís undir nafni trúi ég því að við höfum ekki efni á að hrekja frá námi þá sem valda þeim verkefnum sem þar er um að tefla. Og ég vil bæta því við: Ég tel að skólakerfið eigi að leita þeirra leiða sem í fornsögunum var lýst svo fagurlega um einn norskan höfðingja, Erling á Sóla: Öllum kom hann til nokkurs þroska.
    Ég held þess vegna að það þurfi að liggja alveg skýrt fyrir í vitund hvers einasta Íslendings að það er ekki af góðmennsku sem við styðjum Lánasjóð ísl. námsmanna. Það er vegna þess að við viljum tryggja framtíð þessarar þjóðar og það er vegna þess að við erum það eigingjarnir sem nú erum á miðjum aldri að við viljum tryggja að þegar við verðum gamlir getum við treyst þeim sem þá stjórna þessu landi. Ég vil þess vegna undirstrika að hér er ekki um það að tefla eins og fram hefur komið að það sé vegna fjárlaganna að þessi ákvörðun er tekin. Því miður blasir annað við.
    Því hefur verið haldið fram að Lánasjóður ísl. námsmanna sé í þeim vanda að það verði að bjarga sjóðnum. Mér finnst satt best að segja að hæstv. menntmrh. hafi lent í sömu gátunni og Örn Arnar orðaði svo snilldarlega:
        En alltaf stendur það einhvern veginn
        óljóst fyrir mér,
        hvort þú varst sniðin fyrir föt
        eða fötin handa þér.
Hann virðist ekki gera sér grein fyrir því hvort námsmenn urðu til vegna lánasjóðsins eða lánasjóðurinn til vegna námsmanna og hefur nú tekið ákvörðun um að bjarga sjóðnum. Þetta er satt best að segja stórmerkileg niðurstaða, væri virðingarverð ef það lægi ekki jafnframt fyrir, eins og hv. þm. Svavar Gestsson gerði grein fyrir, að eigið fé sjóðsins stendur fyrir sínu. Hitt er svo spurning og umhugsunarefni: Er það skynsamlegt þegar á móti blæs í efnahagsmálum Íslendinga eins og gert hefur seinustu ár að líta svo á að það sé skilyrðislaust rétt að safna fé í þessum sjóði? Er ekki aðalatriðið að hann geti sinnt sínu markmiði með þá námsaðstoð sem honum var ætlað að veita? Getum við ekki treyst því að um leið og við rísum á ný til sterkari átaka, þá verði áfram vökumenn sem tryggi að sjóðurinn styrkist á nýjan leik? Hér er ekki um neinn sjóð aftan úr grárri forneskju að ræða. Hér er um tiltölulega ungan sjóð að ræða. Og það kom fram í skýrslu, og enn vitna ég í hv. þm. Svavar Gestsson, að það voru 9 milljarðar eigið fé, 9 milljarðar þegar allt var upp greitt.
    En þær eru merkilegar hugleiðingar hæstv. menntmrh. í innganginum þegar hann byrjar að ræða um hverjir það séu sem geti staðið undir markaðsvöxtum. Ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa örstuttan kafla úr þessum inngangi. Þar segir svo:
    ,,Það er oft haft á orði að Íslendingar leggi mikla áherslu á menntun. Víst er um það að allir eiga kost á almennri menntun á Íslandi og sífellt fleiri námsmenn taka nú stúdentspróf úr hverjum árgangi og sækja framhaldsnám í háskóla eða sérskólum. Mikill fjöldi íslenskra kennara hefur hlotið menntun sína og starfsþjálfun í erlendum eða innlendum skólum. Enginn vafi er á því að Lánasjóður ísl. námsmanna hefur stuðlað að því að gera þeim kleift að stunda framhaldsnám eftir stúdentspróf sem til þess hafa haft vilja og getu. Engum blandast hugur um að almenn menntun kemur yfirleitt bæði einstaklingunum sjálfum og þjóðfélaginu öllu til góða. En menntunin er ekki ókeypis og því verðum við að huga að því hvernig greitt skuli fyrir hana. Þótt ekki sé alltaf samræmi milli námslengdar og tekna manna þegar út í lífið er komið er unnt að sýna fram á að í mörgum starfsgreinum er jákvæð fylgni milli námstíma og tekna. Arðsemi menntunar skiptist milli einstaklinga og þjóðfélagsins eftir því hvort einstaklingurinn fær hærra kaup vegna meiri menntunar eða hún hefur óbein áhrif á hagöxt og velferð.``
    Í þeim greinum þar sem einkageirinn er sterkur eins og varðandi eftirspurn eftir viðskiptafræðingum og verkfræðingum má reikna út arðsemi menntunar og hún reyndist vera meiri en markaðsvextir. Það er búið að reikna dæmið út. En hvaða hópur fékk kveðjuna undir rós í upphafi um að hann stæðist ekki kröfuna um markaðsvextina? Það voru íslenskir kennarar. Það gengur ekki upp þeirra námstími og markaðsvextirnir. Annaðhvort er þetta sú harðasta lögeggjan sem íslenskir kennarar hafa nokkurn tíma fengið um að heimta hærra kaup eða undir rós verið að gefa það í skyn að það verði að stytta hjá þeim námstímann.
    Það er nú svo að sumir eru uppteknir við lestur Morgunblaðsins og er allt gott um það að segja. Ég tel að það séu fleiri sem vakni við og fari nú að reikna út námið. Ætli hjúkrunarfræðingarnir íslensku ráði sér ekki viðskiptafræðing, þó að kjörin séu kannski ekki mjög góð hjá þeim hafa þeir trúlega efni á slíkum útreikningi, og láti reikna það út samkvæmt markaðsvöxtunum hvað þeir þurfi að hafa í kaup og þessi nýi forstöðumaður samninganefndar ríkisins þurfi að fá sér annan til að láta reikna út hvers vegna þeir eigi ekki að fá þessi laun. Ég er dálítið hræddur um að það verði margir reikningsmeistarar sem fái atvinnu við að reikna þetta fram og til baka. Hins vegar fannst mér dálítið misskipt hvaða háskólagreinar hæstv. ráðherra minntist á. Ég saknaði arkitektanna, ég segi nú eins og er. Maður las bækur um jólin. En það var heldur ekkert minnst á læknana. Var þetta lið kannski svo tæpt að standast markaðsvextina að það væri ekki vit í að minnast á þá?
    Það vildi svo til að í sjónvarpinu í gær kom fram forstjóri Landsvirkjunar, glöggur maður og gegn, og gerði grein fyrir því hvaða markaðsvexti Landsvirkjun væri að borga. Hann greindi á milli nafnvaxta og raunvaxta. Hvaða vextir voru það sem hann sagði að þeir væru að borga af japönsku dollaralánunum?

Munið þið það? Var það ekki milli 3 og 4%? ( Gripið fram í: Um 3%.) Um 3%. Skyldi það nú vera tilviljun að vextirnir í Lánasjóði ísl. námsmanna eru settir á það sama og Landsvirkjun telur rétt að borga, þ.e. markaðsvexti? Skyldi það vera tilviljun að sérfræðingalið Sjálfstfl. komst að sömu niðurstöðu þegar það reiknaði? Ég er ekki viss. Hins vegar var dálítið óþægilegt að þetta viðtal skyldi vera í gær, það viðurkenni ég. Það hefði mátt fresta því í það minnsta fram yfir helgi. Þannig er nú forstjóri Þjóðhagsstofnunar miklu tillitssamari þegar hann kemur fram með fréttir sem ekki er rétt að fleygja framan í þjóðina á hvaða tímapunkti sem er. ( Forseti: Með vísan til þess samkomulags sem forseti og formenn þingflokka gerðu um að umræður um þetta dagskrármál stæðu í tvær klukkustundir vill forseti vekja athygli á því að hinn umsamdi tími er liðinn og gott betur. Forseti mælist til þess, ef ræðumaður á langt mál eftir, að hann geri hlé á máli sínu, enda verði umræðu frestað þar til síðar í kvöld.) Það er mjög ljúft að verða við þessu því að mér sýnist sem þreytumerki séu orðin á ráðherrum, en ég spyr eftir því samkvæmt hvaða grein þingskapa þingflokksformenn telja sig hafa rétt til að takmarka ræðutíma manna. En ég vil aftur á móti líka vekja athygli á því að forseti hefur að sjálfsögðu rétt til að bera upp dagskrártillögu og láta þingið taka ákvörðun um að umræðu sé lokið. Það hefur einu sinni verið gert á Alþingi Íslendinga. ( ÓRG: Forseti fer með rangt mál af forsetastóli.) ( Forseti: Forseti hefur ekki svipt hv. ræðumann orðinu heldur hefur hann lýst því yfir að umræðum verði frestað þar til síðar í kvöld og málið þá tekið aftur á dagskrá.)