Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 21:36:37 (6604)


     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Mér þykir það allsérstakt hjá hv. þm. Geir H. Haarde, 8. þm. Reykv., að segja að við séum að gera kröfur, ég sé að gera kröfu um að halda umræðunni áfram. Ég hef ekki gert slíka kröfu. Ég laut valdi forseta, yfirgaf ræðustólinn og gerði hlé.
    Hins vegar vil ég minna alþýðuflokksmenn sem hér eru inni á gamalt atvik í þingsögunni. Í ræðustólnum stóð alþýðuflokksmaður, í forsetastólnum var sjálfstæðismaður. Hann var í miðri ræðu og fyrirskipun kom um að hann færi úr ræðustólnum. Þessi maður var hertur af baráttuanda þeirra manna sem eitt sinn voru í Alþfl. og hafði þurft að sýna þá hörku sem stundum þurfti að sýna þegar menn vildu halda sjálfstæði sínu. Hann sagði að þeir gætu borið sig úr stólnum og Jónas Rafnar, sá sem var forsetinn, hafði vit á að láta orð ekki standa. En sá sem stóð í stólnum var Jón Ármann Héðinsson. Þetta segi ég alþýðuflokksmönnum til umhugsunar því það er mikil ábyrgð að stjórna þingi svo vel sé.