Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 21:39:00 (6606)


     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það er almennt venja í þinginu að reyna að ljúka umræðum þegar ekki eru margir þingmenn á mælendaskrá. Einkum á það við þegar fundir eru búnir að standa lengi og kvöldfundur er. Nú er ekki fylgt þeirri venju. Hver er skýringin? Það hefur verið óskað eftir að það sé skýrt með skynsamlegum rökum af forseta. Það er ekki gert. Það er bara ein skýring á því af hverju Sjálfstfl. og Alþfl. vilja hætta umræðunni nú og bíða með hana þangað til í nótt. Það er bara ein skýring. Það er sjónvarpað og útvarpað beint frá þessari umræðu, þjóðin getur hlustað á hana í beinni útsendingu. Sjálfstfl. þolir ekki og Alþfl. þolir ekki að þjóðin fái að heyra meira að sinni af rökum þeim sem stjórnarandstaðan hefur flutt í þessu máli. Og þá er valdinu beitt í forsetastól til að skrúfa fyrir. Lýðræðisflokkarnir skrúfa fyrir. Sjálfstfl. beitir sér fyrir þeirri ritskoðun að hætta umræðunni. Alþfl. lætur það yfir sig ganga að þeirri ritskoðun er beitt á forsetastóli af því að þjóðin getur nú hlustað í fyrsta sinn í beinni útsendingu á það sem hér er sagt milliliðalaust. Þá þorir forsrh. ekki einu sinni að vera í salnum heldur skýlir sér í hliðarherbergjum. Það er ástæðan fyrir því að nú er hætt. Þeir finna reiðiölduna frá fólkinu í landinu, ekki bara frá Morgunblaðinu, ekki bara frá Verkamannafélaginu Dagsbrún, ekki bara frá námsmannahreyfingunni, ekki bara frá Vöku, ekki bara frá Sambandi ungra jafnaðarmanna heldur frá fólkinu um allt land sem núna er að skilja hvað er að gerast í þingsalnum. Og þá er skrúfað fyrir. Þá kemur ritskoðunarfulltrúinn í forsetastól, hv. þm. Björn Bjarnason, og skrúfar fyrir. Ekki meir, ekki meira að sinni, bíða þangað til þjóðin er farin að sofa, halda þá áfram. Það er það sem hér er að gerast. Það er eina skýringin. ( GHelg: Það gæti verið að ég þyrfti að sofa endrum og sinnum.)