Háskólinn á Akureyri

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 22:26:27 (6612)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. menntmn. fyrir vel unnin störf við meðferð frv. Ég lýsi stuðningi við þær brtt. sem nefndin hefur flutt á þskj. 918. Ég fagna sérstaklega þeirri samstöðu sem hefur orðið um þetta mál allt saman.
    Eins og hér hefur komið fram t.d. hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni voru uppi efasemdir um að

rétt væri að stofna Háskólann á Akureyri á sínum tíma. Það er skoðun mín að það hafi verið rétt ákvörðun að stofna til háskólanáms á Akureyri. Þetta er raunhæf byggðastefna í skóla- og menntamálum og það er full þörf fyrir slíka stefnu.
    Það hefur verið rætt nokkuð um stofnun kennaradeildar við háskólann og ég fagna því, sem kemur fram í áliti menntmn., að nefndin styður eindregið stofnun kennaradeildar við skólann. Um það mál vil ég annars segja að ákvörðun um stofnun slíkrar deildar verður auðvitað ekki tekin öðruvísi en í tengslum við fjárlög. Ef ákvörðun ætti að taka nú á þessari stundu þyrfti ríkisstjórnin að samþykkja að beita sér fyrir stofnun deildarinnar með yfirlýsingu um að hún mundi beita sér fyrir því að fjárveiting fengist við afgreiðslu næstu fjárlaga. Þetta mál hefur ekki enn verið tekið fyrir í ríkisstjórninni, en ég vænti þess að það verði gert innan skamms.
    Ég hef áður lýst yfir þeirri skoðun minni að æskilegt væri að stofna kennaradeild við skólann og er alveg sannfærður um að slíkt væri til góðs og má færa fyrir því ýmis rök. Ég nefni að slík deild mundi styrkja skólann og á því er full þörf. Í öðru lagi trúi ég því að kennaradeild við Háskólann á Akureyri væri líkleg til þess að bætt yrði úr kennaraskorti á landsbyggðinni og kennaraskortur á landsbyggðinni er tilfinnanlegur eins og kunnugt er.
    Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spurði hvort það væru einhverjar frekari fréttir af undirbúningi og hvort ég treysti mér til að heimila undirbúning og hvenær yrði farið af stað. Ég vil í því sambandi minna á að það er starfandi nefnd sem vinnur að undirbúningi að stofnun kennaradeildar. Ég skipaði þá nefnd í fyrrahaust. Hún skilaði bráðabirgðaskýrslu eða áfangaskýrslu í vetur og nefndin er enn að störfum og ég á von á að hún skili lokaskýrslu sinni alveg á næstunni.
    Það er ekkert sem mælir gegn því að heimila að hefja undirbúning, sagði hv. þm., og það er vissulega rétt. Ég lít svo á að undirbúningur sé í gangi með störfum þessarar nefndar. Það er líka rétt, sem kom fram hjá hv. þm., að heimamenn sýna þessu máli alveg sérstakan áhuga og hafa lýst því yfir að þeir væru reiðubúnir að hjálpa til með peninga ef þess þyrfti og leggja fram fé, sem þarf auðvitað. Ef ákvörðun yrði tekin nú um að deildin tæki til starfa á næsta skólaári eða haustið 1993 þarf auðvitað að leggja fram fé nú á haustdögum. Ég tel ekki að það mundi valda vandræðum ef ákvörðun yrði tekin á annað borð. Við mundum greiða úr því máli, því hef ég sannfæringu fyrir.
    Hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson og einnig hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson nefndu mikilvægi þess að Háskólanum á Akureyri yrði fundinn sjálfstæður tekjustofn. Ég er alveg sammála því að slíkt er mjög mikilvægt. Slíkt hefur komið fram ítrekað í viðræðum við forustumenn Háskólans á Akureyri. Að þessu þarf að vinna og það þarf ekki að vera að deila um það hvort frumkvæðið verður hjá ráðherra eða hjá menntmn. Ég vænti góðs samstarfs milli ráðuneytisins og menntmn. um það atriði og tek mjög undir að það er mikilvægt að finna lausn á þessu máli.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég ítreka þakkir mínar til nefndarinnar fyrir gott starf.