Skattskylda innlánsstofnana

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 23:04:33 (6617)

     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Matthías Bjarnason) :
    Virðulegur forseti. Nefndin hefur fjallað um þetta frv. til laga um breytingu á lögum nr. 65/1982, um skattskyldu innlánsstofnana, með síðari breytingum. Hún hefur fengið á sinn fund Indriða H. Þorláksson, skrifstofustjóra í fjmrn., Þorvarð Alfonsson, forstjóra Iðnþróunarsjóðs, Braga Hannesson, forstjóra Iðnlánasjóðs, Má Elísson, Svavar Ármannsson og Ólaf Stefánsson frá Fiskveiðasjóði Íslands, Jón Guðbjörnsson og Jóhannes Torfason frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins, Svein Jónsson og Leif Kr. Jóhannesson frá Stofnlánadeild landbúnaðarins, Jóhönnu Leópoldsdóttur og Snorra Tómasson frá Ferðamálasjóði, Kristján Ragnarsson, formann LÍÚ, og Svein Hannesson, framkvæmdastjóra Félags ísl. iðnrekenda.
    Meiri hluti efh.- og viðskn. leggur til að gerðar verði nokkrar breytingar á frv. Í fyrsta lagi er lagt til að tvær nýjar málsgreinar bætist við 1. gr. frv., en í þeim er kveðið á um réttarstöðu opinberra fjárfestingarlánasjóða sem lögin ná til. Samkvæmt tillögunni skulu þeir undanþegnir aðstöðugjaldi og einnig er gert ráð fyrir að lögbundin framlög frá ríki eða sveitarfélagi, svo og aðrar lögbundnar tekjur sjóðanna, teljist ekki til tekjuskattsstofns þeirra. Meiri hluti nefndarinnar telur nauðsynlegt að gera þessar breytingar til að taka af allan vafa um réttarstöðu fjárfestingarlánasjóða hvað þetta varðar.
    Fram komu fyrirspurnir við yfirferð nefndarinnar á málinu um hvort verið væri að gera opinbera fjárfestingarlánasjóði aðstöðugjaldsskylda. Það var ekki ætlunin með frv., enda þyrftu bein lagafyrirmæli að koma til.
    Eins og ég sagði áðan þykir þó rétt að tiltaka að sjóðirnir séu undanskildir aðstöðugjaldi. Bankar og sparisjóðir greiða landsútsvar, en ekki þykja efni til að leggja það á fjárfestingarlánasjóðina. Vafi hefur einnig risið um hvernig fara eigi með lögbundin framlög ríkis eða sveitarfélaga til opinberra fjárfestingarlánasjóða sem og aðrar lögbundnar tekjur þeirra í skattalegu tilliti. Um getur verið að ræða tilvik er sjóður úthlutar styrkjum eftir þeim reglum sem um slíkt gilda samkvæmt lögum og stjórnvaldsfyrirmælum. Í því sambandi hafa verið nefnd framlög Hafnarbótasjóðs og Ferðamálasjóðs og einnig svokölluð iðnlánasjóðsgjöld sem eru tekjustofn Iðnlánasjóðs.
    Í bréfi sem fjmrn. sendi efh.- og viðskn. 17. febr. sl. kemur fram að ráðuneytið hafi litið svo á að sjóðirnir séu í reynd milligönguðailar varðandi slík framlög og styrki sem hér um ræðir og þau verði því ekki talin til skattskyldra tekna. Að því er eignafærslu um áramót varðar, þá telst óráðstafað framlag ekki tilheyra eignum viðkomandi sjóðs. Þessi túlkun ráðuneytisins er eðlileg. Líta má á þessi framlög í skattalegu tilliti eins og eiginfjárframlag eiganda fyrirtækisins. Af þessu tilefni og til að taka af allan vafa leggur meiri hluti nefndarinnar til að samþykkt verði ákvæði um meðferð lögbundinna framlaga og tekna opinberra fjárfestingarlánasjóða.
    Í 2. brtt. meiri hluta nefndarinnar er lagt til að Framleiðnisjóði landbúnaðarins og Lánasjóði sveitarfélaga verði bætt við í upptalningu 2. gr. frv. frá þeim sjóðum sem skattskylda nær ekki til. Einnig er lagt til að í stað ,,Byggðasjóðs`` standi ,,Byggðastofnun``.
    Í þriðja lagi er nauðsynlegt að breyta gildistökuákvæðum laganna og lagt er til að þau öðlist þegar gildi.
    Að síðustu er lagt til að við lögin bætist tvö ný ákvæði til bráðabirgða er verði 10. og 11. gr. frv. Hið fyrra kveður á um að ákvæði um skattskyldu komi ekki til framkvæmda um Iðnþróunarsjóð fyrr en við álagningu 1995. Iðnþróunarsjóður starfar eftir lögum nr. 9/1970, en stofnfé sjóðsins kom frá hverju hinna fimm Norðurlanda og skal stofnframlag hinna Norðurlandanna endurgreiðast á 25 árum frá stofnun sjóðsins, en það verður árið 1995. Ekki þykir rétt að breyta ákvæðum um skattskyldu sjóðsins fyrr en stofnfé annarra Norðurlanda hefur verið að fullu endurgreitt.
    Síðara bráðabirgðaákvæðið gerir ráð fyrir að skuldaskjöl vegna lánveitinga úr Fiskveiðasjóði Íslands sem formlega hafa verið ákveðnar fyrir gildistöku laga þessara skuli undanþegin stimpilgjaldi.
    Ég vil bæta því við að til viðbótar þeirri brtt. sem liggur fyrir á þskj. 850 komi inn sú brtt. við þessa brtt. að í stað orðanna ,,og Lánasjóðs sveitarfélaga`` í niðurlagi 2. tölul. komi: Lánasjóðs sveitarfélaga og Lánasjóðs Vestur-Norðurlanda. Þetta kom til eftir að brtt. höfðu farið til prentunar. Okkur þykir full ástæða til þess að í þessi undanþáguákvæði komi einnig Lánasjóður Vestur-Norðurlanda og hygg ég að um þetta atriði sé ekki nokkur deila.
    Það er aðeins eitt atriði sem ég hygg að geti komið til viðbótar breytingu á frv. milli 2. og 3. umr. og það er varðandi stimpilskyldu bréfa Fiskveiðasjóðs. Ef gripið er til þess að endurlána eða veita viðbótarlán til að standa skil á eldri lánum, þá geti það verið nauðsynlegt og um leið sanngjarnt að það sé undanþegið stimpilgjaldi. En nefndin mun fjalla um það á milli 2. og 3. umr. og það er þá fyllilega í samræmi við þá breytingu sem er er á stimpilgjöldum vegna Fiskveiðasjóðs.

    Nefndinni barst eftirfarandi bréf frá fjmrn. sem er dags. 29. apríl sl.:
    ,,Í umræðum um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 65/1982, um skattskyldu innlánsstofnana, hefur komið fram ábending þess efnis að heimild til að færa fjárhæðir til gjalda í sérstakan afskriftareikning útlána, sbr. 3. gr. laganna, séu of tamörkuð. Í tilefni af því vill ráðuneytið taka eftirfarandi fram:
    Mál þetta hefur verið athugað af starfshópi á vegum viðskrn. sem falið var að kanna rekstrarskilyrði innlánsstofnana. Taldi hann heimildir þessar þrengri hér en á hinum Norðurlöndunum. Í framhaldi af þeirri athugun er málið nú til skoðunar hjá fjmrn. og skattayfirvöldum. Leiði þessi athugun til þeirrar niðurstöðu að skattaleg starfsskilyrði íslenskra innlánsstofnana séu að þessu leyti lakari en í nágrannalöndum okkar mun ráðuneytið leggja fyrir komandi haustþing frv. sem fela mun í sér jöfnun þessara starfsskilyrða.``
    Undir þetta bréf rita fyrir hönd ráðherra Indriði H. Þorláksson og Bragi Gunnarsson.
    Samkvæmt þessu, sem ég hef sagt og skýrt frá, leggur meiri hluti nefndarinnar til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á þskj. 850 og viðbótarbrtt. sem ég skýrði sérstaklega frá á þskj. 894. Undir nál. meiri hluta rita Matthías Bjarnason frsm., Ingi Björn Albertsson, Sólveig Pétursdóttir, Magnús Jónsson og Vilhjálmur Egilsson.