Skattskylda innlánsstofnana

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 23:15:55 (6618)



     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson ):
    Virðulegi forseti. Það er nú orðið nokkuð áliðið þegar hafin er umræða um frv. um skattskyldu innlánsstofnana og verður að segjast eins og er að það er nokkuð bagalegt miðað við að þetta er samkvæmt þeim heimildum sem ég hef eitt af örfáum lagafrv. sem ríkisstjórnin leggur höfuðáherslu á að fáist afgreidd fyrir þinglok. Fyrir því eru margar ástæður eflaust að ríkisstjórnin leggur kapp á það og líklegast ekki síst sú að í fjárlögum fyrir þetta ár, sem voru samþykkt á síðasta ári, er reiknað með tekjum af þessum skatti þó svo að þau lög hafi ekki verið samþykkt samhliða fjárlagafrv. Ég held reyndar að þar hafi fjmrh. sýnt veruleg hyggindi þegar hann lagði til að þeirri umræðu yrði frestað því að það hefur komið svo rækilega fram í umfjöllun hv. nefndar um málið að það var ekki vanþörf á því að fara yfir þetta mál.
    Þrátt fyrir að hér hafa verið lagðar fram af meiri hluta efh.- og viðskn. nokkrar brtt. teljum við í minni hluta að það sé langt frá því að vera nóg að gert og leggjum þess vegna fram sérstakt nál. sem ég mæli fyrir.
    ,,Frv. þetta á sér langan aðdraganda og er flutt lítið breytt frá því að um það var fjallað á Alþingi síðast, en það var á 111. löggjafarþingi. Undirbúningi málsins var þannig háttað þá að ekki þótti mögulegt að afgreiða það. Þrátt fyrir þá augljósu annmarka sem voru á málinu var það ekki lagfært í samræmi við þá málsmeðferð sem málið fékk áður á Alþingi. Þótt nokkrar breytingar hafi verið gerðar á frv. telur minni hluti nefndarinnar að rétt sé að vinna málið enn betur og leggja það fyrir að nýju í upphafi Alþingis á komandi hausti.
    Ef frv. verður að lögum mun það leiða til vaxtahækkana hjá nokkrum fjárfestingarlánasjóðum sem mun hafa áhrif á starfsskilyrði atvinnugreinanna. Í því sambandi má sérstaklega benda á Fiskveiðasjóð sem hefur skilað ítarlegum greinargerðum um málið, en ríkisstjórnin hefur lofað því að bæta starfsskilyrði sjávarútvegsins. Ekkert hefur bólað á aðgerðum í þessu skyni og það eitt gert að vísa málinu til nefndar sem er upptekin við önnur verkefni. Minni hluti nefndarinnar getur ekki fallist á að samþykkja frv. og íþyngja atvinnuvegunum við núverandi skilyrði.
    Varðandi ágalla málsins vísar minni hluti nefndarinnar til meðfylgjandi fskj. þar sem skýrt koma fram ýmsar athugasemdir fjárfestingarlánasjóðanna. Með tilliti til þessa leggur minni hlutinn til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``
    Undir þetta skrifa Halldór Ásgrímsson, Steingrímur J. Sigfússon, Kristín Ástgeirsdóttir og Jóhannes Geir Sigurgeirsson.
    Virðulegi forseti. Nú sé ég að hér er enginn ráðherra lengur, nú kemur að vísu fjmrh. í salinn, til þess að fylgjast með þessu einu af höfuðmálum til afgreiðslu á síðustu dögum þingsins. Það vekur nokkra athygli, virðulegi forseti, að lítið sést til hæstv. forsrh. í þingsölum þó svo að forsrh. telji sig umkominn þess í útvarpsumræðum að lýsa efnisinnihaldi ræðna sem þingmenn flytja hér hvort sem hann er viðstaddur eða ekki. Ég beini þeirri spurningu til forseta hvort hæstv. forsrh. sé farinn úr þinghúsinu. ( Forseti: Samkvæmt viðveruskrá mun svo vera.) Þá vil ég spyrja hæstv. forseta hvort hann telji að hann sé farinn fyrir fullt og allt á þessu kvöldi og þessari nóttu og hvort hæstv. forsrh. ætli að viðhalda þeirri venju sinni að láta þingheim vinna fram undir morgun en vera ekki sjálfur viðstaddur og koma síðan fram fyrir alþjóð og telja sig þess umkominn að skilgreina efni og innihald þeirra ræðna sem fluttar eru að honum fjarstöddum og leggja meira að segja mat á íhygli og greind þeirra sem flytja þær ræður. Ég vildi fara fram á það við virðulegan forseta að hann komi því á framfæri við hæstv. forsrh. að sá sem hér stendur í ræðustól sé ekki ánægður með þessi vinnubrögð.
    Einhvern veginn heyrðist mér á frammíkalli hv. 17. þm. Reykv. og formanns þingflokks Alþfl. að hann væri harla ánægður með fjarveru forsrh. og skil ég það mætavel miðað við þá spennitreyju sem Sjálfstfl. er búinn að setja hann og Alþfl. í á þessum síðustu starfsdögum þingsins í vor.
    Ég ætla að fara yfir nokkur atriði varðandi þetta mál. Ein höfuðröksemdafærslan sem hefur verið höfð uppi gagnvart okkur í minni hluta í efh.- og viðskn. er sú að hér sé verið að jafna aðstöðu lánastofnana í landinu. Þetta er að mínu viti alrangt. Eina ástæðan fyrir því að þetta mál er sótt af svona miklu kappi er sú að það er verið að leita að nýjum tekjustofni fyrir ríkissjóð. Það er hægt að rökstyðja á margvíslegan hátt. Ég ætla að byrja að nefna Stofnlánadeild landbúnaðarins. En í lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Hlutverk Stofnlánadeildar landbúnaðarins er að efla framleiðslu og framleiðni í íslenskum landbúnaði og treysta byggð í sveitum landsins. Hún veitir fjármagn til framkvæmda á sveitabýlum og til þjónustufyrirtækja landbúnaðarins ,,svo sem nánar er tilgreint í lögum þessum.
    Landbrh. hefur yfirstjórn þeirra mála, er lög þessi taka til.``
    Því er þannig varið með Stofnlánadeildina að hún hefur samkvæmt lögum heimild til að taka gjald af því verði sem gengur til bóndans af allri búvöruframleiðslu í landinu og nota það til að jafna milli manna hvað snertir lánskjör. Þetta hefur í för með sér að stofnlán á ýmsum sviðum til landbúnaðar frá Stofnlánadeildinni eru með 2% vöxtum. Í atvinnugrein eins og landbúnaði, sem býr við langan framleiðsluferil og langan endurgreiðslutíma fjármagns, er vandséð hvernig hægt er þar að viðhalda greininni, koma við kynslóðaskiptum öðruvísi en slík aðferð sé viðhöfð. Og í eðli þessarar aðgerðar felst einfaldlega að það er ekki meiningin að Stofnlánadeildin veiti lán á hliðstæðum kjörum og gerist á almennum lánamarkaði. --- Nú, virðulegi forseti, doka ég við meðan formaður viðskn. og fjmrh. ljúka sínum fundi. --- Út frá þessum forsendum er algerlega út í hött að það þurfi með lögum að jafna aðstöðu Stofnlánadeildarinnar gagnvart öðrum lánastofnunum í landinu.
    Fulltrúar Stofnlánadeildar hafa einnig bent á að ef þeir ættu að hafa sömu aðstöðu og aðrar lánastofnanir, yrðu þeir væntanlega að fá réttinn líka til að reka sparisjóð og taka peninga til ávöxtunar og útlána þannig að það er vandséð hvers vegna þessum rökum er beitt.
    Í framhaldi af þessu, að það eigi að jafna aðstöðu fjármálastofnana, voru ein af þeim gögnum sem við fengum í hendur úttekt á því hvað þessi skattlagning mundi þýða annars vegar fyrir Iðnþróunarsjóð og Iðnlánasjóð, Fiskveiðasjóð og hins vegar fyrir bankana og þar kemur ýmislegt athyglisvert í ljós. Þar kemur í ljós að eftir að farið væri að skattleggja eftir þessum nýju lögum mundi Iðnþróunarsjóður greiða í skatt sem hlutfall af sínum útlánum 0,6%, Iðnlánasjóður mundi greiða 0,36%, Fiskveiðasjóður 0,25%, Búnaðarbankinn 0,11%, Landsbanki og Samvinnubanki 0,11% og síðan Íslandsbanki 0,01% sem hlutfall skatts af útlánum. Þetta sýnir kannski betur en nokkuð annað að hér liggur eitthvað allt annað að baki en að jafna aðstöðu fjármálasjóðanna.
    Til þess að ég gæti allrar sanngirni vil ég skýra aðeins hvers vegna Íslandsbanki kemur svona út. Hann er hlutafjárbanki sem gerir það að verkum að eigið fé hans er ekki skráð á bankann heldur er það skráð hjá eigendum hans, hluthöfunum. Vissulega bera einhverjir þeirra skatta af eign sinni, en einhver hluti af því fellur hins vegar innan skattleysismarka einstaklinga sem eiga hlutafé. Ég tel mig hafa sýnt fram á með þessu að það er eitthvað allt annað sem liggur að baki en jafna aðstöðuna og reyndar hef ég sagt áður hver er aðalástæðan. Hún er sú að afla ríkissjóði tekna. En ég held reyndar að þær tölur sem ég nefndi áðan varpi nokkru ljósi á aðra ástæðu.
    Það hefur komið fram í starfi nefndarinnar að nokkur þrýstingur hafi verið frá öðrum fjármálastofnunum á að þetta yrði leiðrétt. Ég býst við að eftir lestur þessara talna um hlutfall skatts af útlánum, þá séu menn ekki í miklum vafa um hvaðan sá þrýstingur hafi komið. Hver hagnast mest? Það er væntanlega sá aðilinn sem borgar 0,01% af sínum útlánum í skatta.
    Eitt atriði sem kom fram hjá öllum aðilum sem við ræddum við var að þeir teldu að ekki væri nógu langt gengið varðandi afskriftarákvæði vegna útlána þegar þessi breyting átti sér stað og í raun er það viðurkennt með bréfi frá fjmrn. sem hv. 1. þm. Vestf., formaður efnh.- og viðskn., las upp áðan, en þar kemur fram að menn eru í miklum efa um að þær tillögur sem þarna eru nægi. Það er að vísu þannig að samkvæmt almennum skattalögum er heimild til að afskrifa þau töp sem sannanlega eru orðin. En við þær aðstæður sem núna eru virðist vera veruleg ástæða til þess að það sé heimilt að hafa hærri almenna afskriftaprósentu en 1%.
    Það er annað í þessu atriði sem aldrei hefur komið skýrt fram en er að vísu minna mál, snertir ekki tekjuskatt en snertir eignarskattinn og það er hver verður skattaleg meðferð þess sem nú er í afskriftarsjóðum og sem þessir sjóðir hafa getað byggt upp án tillits til skattareglna vegna þess að þeir hafa notið skattfrelsis. Verður það sem nú er í afskriftasjóðum ekki upphafið sem jafnvirk eign gagnvart eignarskatti og annað eigið fé sjóðanna? Þetta finnst mér aldrei hafa komið fyllilega skýrt fram í umfjöllun um málið.
    Ég ætla nú að koma að athugasemdum Fiskveiðasjóðs sem að mínu mati eru langsamlega alvarlegastar varðandi það sem hér hefur komið fram. Afstaða sjóðsins er mjög skýr og ég ætla, með leyfi forseta, að lesa upp nokkur atriði sem fram hafa komið í þeirra umfjöllun. Þeir segja:
    Í fyrsta lagi. Um er að ræða miklar og ótímabærar álögur á sjávarútveg sem lauslega má ætla að verði rúmlega 300 millj. kr. á ári hverju.
    Til þess að útskýra það aðeins nánar ætla ég að fara yfir töflu sem er í þeirra gögnum. Annars vegar setja þeir upp raunávöxtun eigin fjár og þeir setja það upp frá -2% upp í 9,5% raunávöxtun. Nú skulum við halda okkur við það að Fiskveiðasjóður verði að hafa viðunandi raunávöxtun eigin fjár og að hann stefni að því að ávaxta sitt eigið fé frá 4% og upp í 7%, einhvers staðar á því bili. Samkvæmt því yrðu

álögur alls á ári á bilinu frá 290 millj. upp í tæpar 400 millj. Svo að ég taki eitt dæmi: Ef við segjum 5% ávöxtun eigin fjár, tekjuafgangur fyrir skatta væri 492 millj., tekjuskattur 221 millj., eignarskattur 61 millj., samtals skattar 282 millj. Til viðbótar er, sem er nýtt og ekki hefur verið krafist áður, að samkvæmt þessum lögum væri Fiskveiðasjóði ætlað að greiða stimpilgjöld af sínum lánum. Þar væru 40 millj. til viðbótar. Álögur eru þá alls 322 millj. Og hver skyldi nú bera þessar álögur? Þessum álögum verður sjóðurinn að varpa beint út í atvinnulífið. Það eru þeir lántakendur sem taka lán hjá Fiskveiðasjóði sem verða að bera þetta.
     Fiskveiðasjóður segir einnig, með leyfi forseta: ,,Meginmarkmið frv. er að jafna samkeppnisaðstöðu lánastofnana með því að afnema skattalega mismunun. Vér teljum að frv. leiði til nýrrar og engu minni mismununar`` --- og það hef ég reyndar rökstutt hér áður.
    Svo segir hér áfram: ,,Vér leggjum sérstaka áherslu á þá staðreynd að þetta frv. gengur lengra í skattlagningu en þriggja ára frv. með því að gera skjöl vegna útlána stimpilskyld (um um það bil 40 millj. kr. á ári).
    Þetta er raunar að voru mati í öllu tilliti fáránlegur skattur sem ber að afnema fremur en að auka við.``
    Síðan fara þeir yfir afleiðingar lagasetningar af þessu tagi og þeir segja þar m.a., með leyfi forseta:
    ,,Verði frv. að lögum hlýtur stjórn Fiskveiðasjóðs Íslands að ákveða vaxtahækkun þegar í stað. Sú hækkun þyrfti að vera um það bil 2% á lánum með breytilega vexti ef miðað er við 4,5% raunávöxtun eigin fjár svo dæmi sé tekið. Áhrif laganna talin í krónum eru skýrð nánar á meðfylgjandi yfirliti.``
    Ég er reyndar búinn að fara yfir það yfirlit.
    Síðan segja þeir áfram: ,,Ósamræmi gagnvart meginmarkmiði. Meginmarkmið frv. er að jafna samkeppnisstöðu lánastofnana og a.m.k. draga úr skattalegri mismunun. Sú þverstæða er þó augljós að Fiskveiðasjóður er settur í sérstaka afkima. Ríkisbankar og opinberir sjóðir nema Fiskveiðasjóður njóta ríkisábyrgðar á skuldbindingum sínum og þar með betri lánskjara. Lánastofnanir í formi hlutafélaga greiða ekki eignarskatt af hlutfé sínu en ríkisbankarnir og opinberir sjóðir, þar með talinn Fiskveiðasjóður, greiða eignarskatt af öllu eigin fé verði frv. að lögum.``
    Hérna er það undirstrikað, sem ég benti á fyrr í ræðu minni, að það er miklu fremur að verið sé að mismuna enn frekar en jafna stöðuna.
    Síðan tala þeir um tæknilega ágalla og nefna m.a. að það vakni upp spurningar hvort framlög sjávarútvegsins til sjóðsins á umliðnum árum geti talist stofnframlag og hluti eigin fjár hans vegna eignarskattsstofns. Þeir ítreka einnig að að mati þeirra sé ákvæði 9. gr. um 1% afskriftareikning of þröngt og eðlilegt að miða við 3--5%.
    Fiskveiðasjóður skrifaði nefndinni fleiri bréf og það er að vísu mikið til efnislega samhljóða því sem ég er búinn að lesa úr hér. Mér þótti hins vegar ástæða til þess þegar málið var vakið upp aftur eftir að hafa legið í dvala í nokkra mánuði í nefndinni að ítreka þessi sjónarmið.
    Frá Iðnlánasjóði hafa komið mjög hliðstæðar athugasemdir og þeir segja m.a., með leyfi forseta:
    ,,Skattlagning fjármálastofnana er mjög flókið og viðamikið mál. Mismunandi eignar- og rekstrarform gerir málið enn þá flóknara. Við þetta bætist aukin samkeppni við erlendar lánastofnanir í kjölfar aukins frjálsræðis í alþjóðaviðskiptum.``
    Það er enn ítrekað að hér er um að ræða miklu flóknara mál en svo að það frv. sem við erum hér að fjalla um sé á nokkurn hátt fært um að jafna aðstöðu milli lánastofnana. Það ítrekar enn það sem að mínu mati er megintilgangur þess að leggja þetta fram, að afla ríkissjóði tekna.
    Ég ætla að leggja sérstaka áherslu á einn þátt þessa máls og það er samspil þess við atvinnulífið í landinu, við stöðu sjávarútvegsins og við þau fyrirheit sem gefin voru við nýgerða kjarasamninga.
    Það var löng umræða fyrir tveim nóttum, ef ég man rétt, um stöðu sjávarútvegsins, um gengismál, um þróun gengis síðustu ár og aðgerðir eða réttara sagt aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart þessu. Enda er það svo að nánast allar aðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar frá því að hún kom til valda og snúa að grunnatvinnuvegunum, útflutningsatvinnuvegunum eru í þá veru að íþyngja þeim, auka gjaldtöku, hækka álögur á útgerð og fiskvinnslu. Hér er kominn einn þátturinn enn. Það er enn einu sinni vegið í sama knérunn. Hér eru álögur á útgerð og fiskvinnslu enn hækkaðar. Þetta gerist á sama tíma og er búið að ganga frá kjarasamningum sem skilja við fiskvinnsluna í 10% halla.
    Hæstv. forsrh. sagði í sjónvarpsumræðum á mánudagskvöldið var að þetta væru þau starfsskilyrði sem þessir atvinnuvegir yrðu að aðlaga sig og sætta sig við. Nokkrum dögum seinna er Alþingi ætlað að afgreiða frv. sem enn þrengir að, sem enn setur pressu á gengið og gengur þvert á það, sem ríkisstjórnin segir í það minnsta í orði, að með aðgerðum sínum og þeim áhrifum sem þær hafi á efnahagsmál hér ætlist þeir til þess að gengið lagist gagnvart erlendum gjaldmiðlum vegna þess að hér verði verðbólga lægri en annars staðar. Nú er ég ekki að kalla á gengisfellingu. En ég hlýt að frábiðja að á séu lagðar frekari álögur sem setja þrýsting á gengið. Það er nefnilega svo að það er hægt að laga gengið með fleiri aðferðum en gengisfellingu.
    Formaður Vinnuveitendasambands Íslands setti fram hugmyndir í þá veru nokkrum vikum áður en kjarasamningar voru gerðir. Illu heilli neituðu bæði ríkisstjórnin og aðrir aðilar vinnumarkaðarins að skoða

þær tillögur betur og ég hef reyndar grun um að einhverjir úr þeim hópi séu farnir að naga sig í handarbakið fyrir að hafa ekki gert það. Þær tillögur gengu einmitt í þá átt að lækka gengið, minnka pressuna á grunnatvinnuvegina með aðgerðum í ríkisfjármálum, með því að taka álögur af útflutningsatvinnuvegunum. Ríkisstjórnin hlustaði ekki á þetta. Þvert á móti heldur ríkisstjórnin áfram að leggja álögur á útflutningsatvinnuvegina, á sjávarútveginn og útgerðina sem er undirstaða þjóðfélagsins. Tillögur Einars Odds Kristjánssonar gengu út á það að afnema aðstöðugjaldið, lækka þannig tilkostnaðinn við atvinnulífið og leggja þess í stað á tekjuskatta, hvort sem það voru háar tekjur, fjármagnstekjur eða eignatekjur, og láta þá sem höfðu tekjur, sem höfðu sannanlega eitthvað á milli handanna, borga brúsann. Þessu hafnaði ríkisstjórnin umyrðalaust vegna þess að slíkar aðgerðir eru ekki á hennar verkefnalista. Hópurinn sem ríkisstjórnin hefur kosið að hlífa við auknum álögum er einmitt þeir sem eru á miðjum aldri, hafa háar tekjur, ég tala nú ekki um ef þeir eiga ekki börn. Þetta er sá hópur sem ekki hefur verið hróflað við.
    Það hefur staðið mikill slagur síðustu daga um vaxtamál og nú sáum við þá sérstöðu uppi í dag að fram kom í sjónvarpi í kvöld framkvæmdastjóri Sjálfstfl. sem var settur í það í Landsbankanum að beita handafli við vaxtalækkun og síðan kom aftur talsmaður Búnaðarbankans, formaður bankaráðs Búnaðarbankans, sem sagði í sinni hógværð að Búnaðarbankinn biði eftir því hvað markaðurinn segði varðandi næstu vaxtaákvörðun. Og ég verð að segja það, virðulegi forseti og hæstv. fjmrh., að ég hef sjaldan séð formerkjum snúið eins rækilega við. Hvað voru menn að pína niður í Landsbankanum? Menn voru að pína vextina niður um 1% fyrir heimilin í landinu og fyrir atvinnulífið. En á sama degi erum við í 2. umr. um frv. um skattlagningu innlánsstofnana sem að mati Fiskveiðasjóðs getur þýtt að þeir þurfi að hækka vexti á sínum lánum um allt að 2%. Nú sé ég að hæstv. fjmrh. hristir höfuðið og hann hristir höfuðið meira. (Gripið fram í.) Nei, ég vil nú ekki segja að ég heyri það. Það vil ég alls ekki gera. (Gripið fram í.) Hann er slitinn sá brandari. Og þó að það væri ekki nema 1%, hæstv. fjmrh., sem Fiskveiðasjóður þyrfti að hækka sína vexti, þá væri það yfrið nóg og gengi engu að síður þvert á þá stefnu sem ríkisstjórnin, í það minnsta í orði, segist hafa gagnvart peningamálum.
    Virðulegi forseti. Ég hef í minni fyrri ræðu, því ekki vil ég lofa því að ég sé að ljúka máli mínu, við 2. umr., farið nokkrum orðum um þetta frv. Ég tel mig hafa fært að því rök að það sem átti að vera meginmarkmiðið fyrir því að leggja þetta frv. fram, þ.e. að jafna aðstöðu útlánasjóða, útlánastofnana, sé einungis --- ég vil ekki kalla það blekkingu en meginmarkmiðið sé að afla ríkissjóði tekna, enda kemur fram í fjárlögum að þar er þessum skatti fyrir yfirstandandi ár ætlað að afla ríkissjóði nokkurra tekna þó ég muni ekki lengur hver sú upphæð var, hún var skorin niður verulega þegar það var ljóst að þetta frv. færi ekki í gegn samhliða fjárlögunum. ( Fjmrh.: 150 millj.) 150 millj., en það skiptir ekki öllu máli.
    Ég hef einnig sýnt fram á að það bendir margt til þess að í stað þess að jafna aðstöðu auki frv. á aðstöðumun. Ég hef einnig sýnt fram á það að með suma þá sjóði sem hér ræðir um, þá var það markmið þeirra frá upphafi og er enn að lána stofnlán á hagstæðari kjörum en annars staðar bjóðast. Það er einnig ljóst að ýmsir þessara sjóða hafa tekjustofna sem ekki eru lánaðir út heldur veittir til styrktarframlaga. Það hefur að vísu verið komið til móts við þau sjónarmið að þau framlög falli ekki undir skattlagninguna og við verðum að vona að þær tillögur haldi. Þó hef ég ekki vissu fyrir því hvernig verður farið með vaxtajöfnunina í Stofnlánadeild landbúnaðarins og ég spyr hæstv. fjmrh. eftir því. Það er mikið álitamál hvernig á að fara með þann lið. Það er hægt að líta á alla vextina sem tekjur Stofnlánadeildar, bæði vextina og það sem greitt er af afurðaverði bænda til niðurgreiðslnanna, og þá mundi hann bera tekjuskatt að fullu. Ef millifærslan ætti að vera undanþegin tekjuskatti kæmi hins vegar upp sú staða að Stofnlánadeildin væri gerð upp samkvæmt því með bullandi tapi og gæti þess vegna safnað tapi frá ári til árs og komið sér upp myndarlegum varasjóði af uppsöfnuðu tapi.
    Ég vil þess vegna að síðustu spyrja fjmrh. beint. --- Virðulegi forseti. Það er svolítið pirrandi að ræða við mann, ég hef ekki gert mikið af því að beina orðum mínum beint til fjmrh., sem er upptekinn af samræðum þannig að ég verð að endurtaka þennan kafla ræðu minnar. ( ÓÞÞ: Var það síðasti hálftími eða svo?) Virðulegi forseti. Ég skal ekki taka síðasta hálftímann. En það er í mínum huga ekki ljóst hvernig á að fara með vaxtaniðurgreiðslurnar hjá Stofnlánadeild. Ég spyr þess vegna hæstv. fjmrh.: Hvernig verður farið með það? Það skiptir öllu máli fyrir skattalegt uppgjör þeirrar stofnunar allt frá því að Stofnlánadeildin þurfi að greiða verulegan tekjuskatt og öfgarnir í hinn endann að hann verði gerður upp með verulegu tapi sem hann geti safnað upp frá ári til árs.