Framhald þingfundar

145. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 00:59:20 (6623)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan spyrjast fyrir um það hvað forseti hyggst gera með frekari umræður hér og mál. Nú veit ég að næsta mál er þannig vaxið að ýmsir þingmenn úr mínum flokki og öðrum flokkum vilja gjarnan taka þátt í þessari umræðu um Skipaútgerð ríkisins. Það hefur jafnframt verið boðaður fundur kl. 11 í fyrramálið. Ég vildi því spyrja virðulegan forseta áður en lengra er haldið hvað menn hyggjast fyrir með frekari störf á þessari nóttu. Það hefur nú staðið þingfundur nokkuð látlaust, fyrir utan hlé sem gerð voru vegna funda í flokkum og funda með forsetum, í 14 klukkustundir samfleytt. Ég held að það sé nokkur leitun á því, virðulegi forseti, að svo langir fundir hafi verið í þinginu eins og það að nokkuð samfelldur fundur standi í 14 klukkustundir. Út af fyrir sig gerir maður kannski ekki athugasemd við það að hv. 1. þm. Vesturl. mæli fyrir nál., ég vil ekki gera neina athugasemd við það, en ég vildi gjarnan fá að vita hver hugsunin er með þessu þinghaldi í nótt og hvort virkilega er ætlunin að halda við það að hér haldi fundur áfram eitthvað í nótt og svo byrji fundur kl. 11 í fyrramálið. Finnst mönnum þetta skynsamlegt?