Almenn hegningarlög

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 11:04:00 (6634)

     Björn Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég vísa til þess sem fram kom í umræðum um þetta mál á miðvikudaginn þegar 3. umr. um það var frestað og fram komu hugmyndir um nauðsyn þess að breyta orðalagi í 7. gr. frv. Þessar brtt. komu síðan fram á þskj. 906 frá allshn. og síðan komu einnig brtt. á þskj. 907 og 914 frá Guðrúnu Helgadóttur varðandi breytingar á orðalagi á öðrum greinum frv.
    Við þessar aðstæður ákvað nefndin að skoða málið með hliðsjón af þessum brtt. og sú athugun hefur farið fram. Það hefur verið haft samráð við hv. 14. þm. Reykv. Guðrúnu Helgadóttur og eftir það samráð og þær viðræður dregur hv. allshn. brtt. á þskj. 906 til baka og flytur brtt. á þskj. 940 sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Við 7. gr. 1. efnismgr. orðist svo:
    Hver, sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann sem heldur ranglega að mökin eigi sér stað í hjónabandi eða óvígðri sambúð eða hann er í þeirri villu að hann eigi mök við einhvern annan, skal sæta fangelsi allt að sex árum.``
    Ég tek það fram, virðulegi forseti, að í þessu efni var ekki efnislegur ágreiningur að neinu leyti heldur spurning um hvernig þetta yrði best orðað og samkomulag náðist við hv. 14. þm. Reykv. um þetta orðalag. Ég skil það svo, að hún dragi brtt. sínar á þskj. 907 og 914 til baka til að stuðla að snurðulausri framvindu þessa máls.
    Ég vil láta þess getið varðandi skýringar á þessari breytingu og þeirri tillögu sem við leggjum fram og er nauðsynlegt að komi fram um orðalagið ,,sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann sem heldur ranglega að mökin eigi sér stað í hjónabandi eða óvígðri sambúð eða hann er í þeirri villu að hann eigi mök við einhvern annan``, að með orðunum ,,mök`` í síðari hluta efnisgreinarinnar er vísað til orðanna ,,samræði eða önnur kynferðismök`` í fyrri hluta greinarinnar þannig að það fari ekkert á milli mála og er nauðsynlegt að orða þessa skýringu við flutning tillögunnar sem ég legg til að verði samþykkt.