Skipaútgerð ríkisins

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 11:13:00 (6636)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir brtt. á þskj. 926 við frv. til laga um brottfall laga um Skipaútgerð ríkisins, nr. 40/1967. Meðflutningsmenn mínir eru Jóhann Ársælsson, Stefán Guðmundsson og Guðni Ágústsson.
    Þessi brtt. hljóðar svo:
  ,,1. Í fyrsta lagi: ,,Á eftir 1. gr. komi ný grein er orðist svo:
    Ráðherra er heimilt að ráðstafa allt að 50 millj. kr. af því fé sem fæst við sölu á eignum Skipaútgerðar ríkisins til að leysa vanda þeirra byggðarlaga sem við sölu skipanna missa nauðsynlega þjónustu.
    2. Við 2. gr. (verður 3. gr.). Greinin orðist svo:
    Lög þessi öðlast gildi 31. des. 1992. Þó skal 2. gr. taka þegar gildi.``
    Það hefur komið fram í fyrri umræðum í þinginu, og sú sem hér stendur ítrekað bent á það, að samhliða þeim aðgerðum að leggja Skipaútgerðina niður þurfi að leysa mál þeirra byggðarlaga sem við það missa nauðsynlega þjónustu.
    Ég hef ekki hugsað mér að endurtaka það sem ég hef áður sagt um að ég telji málsmeðferð athugaverða í sambandi við þessi mál. En í framhaldi af þeim umræðum sem hér hafa farið fram við fyrri umræðu og þeim athugasemdum leggjum við í minni hluta samgn. fram þessa brtt.
    Það segir í fjárlögum ársins fyrir árið 1992 í 6. gr., í lið nr. 4.24, með leyfi forseta, að fjmrh. sé heimilt að selja eignir Skipaútgerðar ríkisins og verja andvirði þeirra til að greiða kostnað við rekstur útgerðarinnar á meðan hann varir og kostnað við að leggja fyrirtækið niður.
    Ég vil taka það fram að í brtt. sem við leggjum hér fram erum við ekki eingöngu að hugsa um sjóflutninga. Við teljum að það geti vel verið að með breyttum samgöngum og sífelldri framþróun í þeim málum sé hægt að leysa þessi mál á annan hátt. Það sem fyrst og fremst vakir fyrir okkur er að séð sé fyrir því að ákveðin byggðarlög séu ekki sett út á kaldan klaka. Ráðherra hefur lýst því yfir í umræðum áður að það muni verða séð fyrir samgöngum til þessara staða og með brtt. er bent á leiðir til þess.
    Það er fyrirsjáanlegt að það muni verða aukinn kostnaður íbúa þeirra staða sem fyrir því verða að Skipaútgerðin hættir og fá ekki aðra sambærilega þjónustu í staðinn. Að vísu hafa Samskip tekið að sér að leysa þessi mál til að byrja með. Það var ákveðið að Samskip mundu sinna ýmsum þeirra byggðarlaga, sem missa þá þjónustu sem Skipaútgerðin sinnti, í þrjá mánuði til reynslu. Það hefur verið lýst yfir af þeirra hálfu og einnig íbúanna. En það liggur fyrir, a.m.k. á sumum stöðunum, að svo muni ekki verða í framtíðinni ef þessir flutningar Samskipa skila ekki tilætluðum hagnaði.
    Við erum enn og aftur komin að því að land okkar er svo strjálbýlt að hin venjulegu markaðslögmál gilda ekki alls staðar og við verðum oft að leysa úr vanda með öðrum aðferðum en samrýmast beinhörðum markaðslögmálum. Við hljótum að ætlast til þess að sameiginleg þjónusta sé til staðar þar sem svo háttar til, og þegar Skipaútgerðin hættir er mjög líklegt að skipafélögin sjái sér engan hag í því að halda þessari þjónustu áfram.
    Samkvæmt fjárlögum ársins segir í 6. gr. að heimildin sé m.a. vegna þess að það verði kostnaður við að leggja fyrirtækið niður. Og ég spyr: Er ekki alveg eins hægt að segja að það sé kostnaður við að leggja fyrirtækið niður þó þar sé ekki um kostnað ríkisins beint að ræða, þ.e. kostnaður sem íbúarnir taka á sig við að fyrirtækið leggst niður? Ríkið erum við sjálf. Ég tel ekki sjálfgefið að þetta ákvæði eigi aðeins við um ríkissjóð einan. Að vísu hef ég ekki orðið mér úti um hárnákvæma lögfræðilega skýringu á þessu atriði. En með þessari brtt. er ég og við sem flytjum þessar brtt. að ítreka að þessi skilningur geti allt eins vel verið fyrir hendi. Ég vænti þess að þingheimur sjái að hér sé um sanngirnismál að ræða og muni við atkvæðagreiðslu greiða þessari brtt. atkvæði sitt.
    Ég vil að lokum taka fram um þann fyrirvara sem ég geri að verði þessi brtt. ekki samþykkt mun ég ekki styðja frumvarpið um að leggja Skipaútgerðina niður heldur sitja hjá.