Skipaútgerð ríkisins

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 11:30:36 (6640)


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hv. 6. þm. Vestf. talaði fyrir brtt. sem var á þann veg að veita samgrh. fjárhagslegt svigrúm til að verja 50 millj. þar sem hann teldi að þörfin væri mest til framkvæmda vegna þeirra breytinga sem orðið hafa með þeirri ákvörðun að Skipaútgerð ríkisins hefur hætt viðkomu á mörgum stöðum. Ég mun að sjálfsögðu styðja þessa brtt. og þeir meðflutningsmenn hennar sem áður voru nefndir eiga að sjálfsögðu ásamt flutningsmanni hinar bestu þakkir fyrir að flytja tillöguna. En ég vil undirstrika að Ísland er vanþróað land á margan hátt í vegasamgöngum. Við þurfum stór átök og til þess að hægt sé að þjóna sumum þeirra byggða sem nú verða út undan þarf hundruð milljóna í vegaframkvæmdir. Ég tel þess vegna algjörlega óhjákvæmilegt að hæstv. samgrh. láti vinna það verk hvaða framkvæmdir í vegagerð eru nauðsynlegar vegna þessarar ákvörðunar.

    Sú ákvörðun sem tekin hefur verið er eins og flestar mannanna ákvarðanir hlutir sem menn mega deila um og geta deilt um. Ef hún verður til þess að flýta aðgerðum í vegamálum getur farið svo að hún leiði til góðs. Ef hún verður til þess að samgönguleysið leggur byggðir í eyði vegna aðgerðarinnar erum við búnir að taka mjög stóra ákvörðun á Alþingi Íslendinga, mjög stóra ákvörðun. En eins og ég gat um: lögin um Skipaútgerð ríkisins eru að verulegu leyti heimildarlög handa ráðherra, ekki á þann veg að Alþingi sem slíkt búi við að yfir þessum skiparekstri hafi verið þingkjörin stjórn.
    Ég tel þess vegna að það blasi við að ekki verði aftur snúið, en það kallar á þá alvöru málsins að menn meti hvað þarf að gera til þess að vegakerfið geti tekið við þessari þjónustu. Á Vestfjörðum er verið að vinna stóra hluti í samgöngumálum þannig að Vestur-Ísafjarðarsýsla og Norður-Ísafjarðarsýsla verða ein heild. Í Barðastrandarsýslu blasir við að það verður að leysa það vandamál að hægt sé að hafa akvegasamband við Bíldudal allt árið og það verður að taka stórátak í vegagerð norður í Árneshrepp ef á að verja það svæði.
    Hér er verið að tala um þá hluti sem eru nauðsynlegir á Vestfjörðum. Ég er ekki nógu staðkunnugur á Austfjörðum til að geta talið upp hvað þar þarf að gera, en ég vil minna á að Alþingi Íslendinga samþykkti á sínum tíma stóra áætlun í Norðurlandi eystra, svokallaðan Hafísveg, vegna þess að þeir vildu tryggja að svæði þar í Norður-Þingeyjarsýslu ættu samgöngulegt öryggi á landi ef samgönguleysi yrði á sjó.
    Þetta segi ég hér og nú til að minna á að það hefur verið tekið á svona málum af ábyrgð af Alþingi Íslendinga og ég vil trúa því að svo verði, en sú grunnvinna sem ég er að óska eftir að verði unnin af hæstv. samgrh. er forsendan fyrir því að hægt sé að meta það nógu vel hvaða upphæðir er verið að tala um, hvað þarf mikið til þess að hægt sé að leysa þessi mál með sómasamlegum hætti.