Skipaútgerð ríkisins

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 11:38:00 (6643)


     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. samgrh. liggur mjög á í þessu máli og er með ólíkindum að það skuli liggja svo á að leggja niður Skipaútgerð ríkisins formlega. Það er búið að leggja hana niður í raunveruleikanum að mestu leyti, en það virðist liggja svo mikið á að leggja hana niður formlega að menn sjást ekki fyrir. Það er starfsemi enn í gangi á vegum Skipaútgerðarinnar. Það eru m.a. menn í vinnu hjá Skipaútgerð ríkisins. Þeir verða væntanlega starfsmenn samgrn. þegar lögin taka gildi ef það verður ekki búið að segja þeim upp og samkvæmt því sem hér liggur fyrir er það stutt í það. Þess vegna er það sem þessi tillaga er flutt, til að reyna að koma einhverju viti í þetta mál, að samgrh. verði þá búinn að sjá til þess að það verði búið að leggja starfsemi Skipaútgerðar ríkisins niður um áramótin, að hann fái svigrúm til þess að ganga frá málum endanlega. Það eru engar röksemdir fyrir því að láta þessi lög taka gildi fyrr. Og kannski er meira að segja of knappur tími til þess að það sé hægt að ganga frá öllum málum. Hvað er það sem rekur menn svona áfram? Ég hef ekki heyrt röksemdirnar fyrir því.
    Ég er út af fyrir sig ekki á móti því að Skipaútgerð ríkisins verði lögð niður, enda er það allt of seint. Það er búið að leggja hana niður og það er ekki til neins að vera á móti því lengur. Hins vegar er ég mjög andvígur því hvernig að þessu máli hefur verið farið. Ég tel að það hafi verið slys að menn skyldu ekki skoða þetta með öðrum hætti. Ég er ekki sannfærður um að það hafi verið gæfuspor að fækka aðilum á þessum flutningamarkaði með þessum hætti og ég tel að það hefði mátt skoða það vandlegar hvort það hefði ekki átt að breyta þessu fyrirtæki í almenningshlutafélag og láta það halda áfram starfsemi. Þá hefðu í sjálfu sér sömu hlutirnir gerst, að ríkið hefði dregið sig út úr þessum rekstri, en félagið hefði ekki verið lagt niður. Við vitum ekki hvað við höfum eftir 2--3 ár. Það eru það fáir aðilar sem keppa á þessum markaði að það er ekki tryggt að það verði eðlileg samkeppni um flutningana.

    Það hafa líka verið á ferðinni margs konar rangfærslur í sambandi við Skipaútgerð ríkisins. Menn hafa t.d. haft hér á orði, hæstv. samgrh. hefur margsagt það, að það væri 300 millj. kr. tap á hverju ári á Skipaútgerð ríkisins. Mér er kunnugt um að þau drög að reikningum Skipaútgerðarinnar sem liggja nú fyrir segja allt, allt annað. Og það verður upplýst betur í umræðunum á eftir. Þar kemur fram að það er ekki nálægt því svona mikið tap á útgerð Skipaútgerðar ríkisins og það þrátt fyrir að hæstv. samgrh. hafi tekið ákvarðanir sem urðu til samdráttar og tekjutaps fyrir Skipaútgerðina.
    Ég held að menn hefðu átt að fara sér hægar í þessu máli og ganga betur frá því og ég held að menn hefðu átt að hugsa um framtíð flutninga í kringum landið, gefa því máli meira gaum hvað verður og hvað tekur við, hvernig lítur þetta út eftir 2--3 ár. Ég er því miður smeykur um að svona fákeppni eins og núna er á þessum markaði geti orðið til þess að samkeppnin verði engin, það verði þegjandi samkomulag um að hafa 10 aura á milli eins og er hjá olíufélögunum í dag. Það er ekki sannfærandi samkeppni að það skuli vera 10 aurar á milli þess hvað lítrinn kostar hjá hverju olíufélagi í landinu, segir okkur auðvitað bara að samkeppnin er ekki fyrir hendi þó svo að menn ætlist til þess.
    Ég óska mjög eindregið eftir því að hæstv. samgrh. svari okkur því hjá hvaða aðila þeir starfsmenn verða í vinnu sem nú eru hjá Skipaútgerð ríkisins eftir að hún verður lögð niður með þessum hætti. Hvaða ríkisstofnun borgar þeim laun eftir að búið er að leggja fyrirtækið niður? Er það samgrn. eða er það einhver önnur ríkisstofnun? Mér finnst það ekki hafa komið nógu skýrt fram.
    Ég ætla ekki að fara að setja á langar ræður um það sem hér hefur gerst. Ég held að öllum sé alveg ljóst hvernig þetta mál hefur gengið fyrir sig og hér hefur verið farið fram með offorsi, bæði í aðdraganda málsins og núna í framhaldinu. Ég tel að sú tillaga sem við flytjum sameiginlega úr stjórnarandstöðunni mundi lagfæra málið. Það mundi verða mögulegt að hjálpa til hjá þeim byggðarlögum sem verða fyrir mestum skerðingum á flutningum og það mundi verða svigrúm til að ganga eðlilegar frá málinu með því að fresta gildistöku laganna. Ég tel reyndar að ráðstöfun þeirra fjármuna sem talað er um hér, þessara 50 millj., eigi að vera í samráði við samgn. því að ég er á móti því í ,,prinsippinu`` að ráðherrar eða ráðuneyti hafi úrskurðarvald ein og sér á því hvað eigi að nota fjárhæðirnar í og það eigi þess vegna að bera það undir þingið eða þingnefndir þegar menn vilja hafa tiltæka fjármuni í einhverju skyni sem ekki er hægt að ákvarða nákvæmlega í hvað eiga að fara þegar þingið tekur ákvörðunina um það að veita þeim í þessa tilteknu starfsemi.
    Ég sé ekkert athugavert við að nýta sér eitthvað af þeim fjármunum sem fást inn við sölu á fyrirtækinu í þessum tilgangi og ég tel reyndar að það sé óeðlilegt af hendi ríkisins eftir að hafa haft þau áhrif á flutninga í kringum landið, sem það hefur haft með rekstri Skipaútgerðar ríkisins og fram á þennan dag, að kippa að sér hendinni með þeim hætti sem hér er gert án þess að fylgjast gaumgæfilega með því hvaða áhrif það hefur á stöðunum allt í kringum landið og ég hefði nú heldur viljað sjá það að hæstv. samgrh. hefði gefið þinginu greinargóða skýrslu um áhrif þeirrar breytingar sem orðin er og sagt nákvæmlega hvaða staðir það eru sem þyrftu á aðstoð að halda nú meðan þessi breyting er að ganga yfir og meðan menn eru að finna leiðir til þess að koma í staðinn fyrir starfsemi Skipaútgerðar ríkisins með aðra þjónustu.