Skipaútgerð ríkisins

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 11:54:00 (6645)



     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég vil segja nokkur orð, slatta af orðum, í tengslum við þetta mál.
    Í fyrsta lagi tek ég undir brtt. þá sem hér liggur fyrir og flutt er af minni hluta hv. samgn. Ég held að það sé skynsamlegt og í beinu samræmi við það sem reyndar var fyrr rætt og á bent af hálfu ýmissa þegar málið var til umræðu við afgreiðslu fjárlaga og reyndar oftar á sl. vetri, að það væri ákaflega óvarlegt að standa þannig að málum, eins og þar var gert, að ætla enga einustu krónu á fjárlögum til ráðstöfunar, hafa ekki einu sinni heimild til að grípa til ráðstafana í þessu sambandi ef ástæða væri til eða illa tækist til varðandi samgöngur við einstök byggðarlög á sjó. Hér væri þá sett inn slík heimild sem jafnframt er þá ákveðin fyrirmæli um hvernig ráðstafa skuli ef á þarf að halda því fé sem til fellur e.t.v. við eignasölu Skipaútgerðar ríkisins.
    Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að það hafi kannski verið fullsnemmt hjá mönnum að rjúka upp til handa og fóta og halda hátíð og fagna þegar ákveðið var með skyndilegum hætti að leggja niður Skipaútgerð ríkisins, ekki vegna þess að það hafi ekki vel komið til greina og geti ekki vel þróast svo að ríkið hætti þessum rekstri. Það var búið að vera til umræðu um árabil eins og menn þekkja að breyta starfsemi Skipaútgerðar ríkisins og reyna með einum eða öðrum hætti að hagræða í þessum flutningum í landinu. Til þess var rík þörf og þá ekki bara vegna þeirra útgjalda sem ríkissjóður landsmanna hafði af því að styrkja hluta af þessum samgöngum heldur er ég sannfærður um það, og það held ég að flestir séu sem hafa skoðað þessi mál, að ná mætti fram umtalsverðum þjóðhagslegum sparnaði með því að skipuleggja betur og koma á eðlilegu samstarfi eða samnýtingu þeirra tækja sem notuð væru í samgöngum á sjó umhverfis landið. Það er þess vegna ekki endilega efniságreiningur um það að sú leið að leggja niður starfsemi Skipaútgerðar ríkisins og fela hana öðrum aðilum í rekstri á þessu sviði gæti vel komið til greina og hafi eftir atvikum átt rétt á sér. Miklu frekar er þá um það rætt hvernig að því hafi verið staðið.
    Ég vil láta það sjónarmið mitt koma fram og það er óbreytt að það hafi verið ótímabært að fagna því og slá því föstu að þessar breytingar hafi tekist að öllu leyti vel og muni engan dilk draga á eftir sér að ríkið með svona skyndilegum hætti hverfur út úr þessum rekstri og felur það þeim einkaaðilum sem starfandi eru á þessu sviði án nokkurra skuldbindinga af þeirra hálfu, án nokkurra trygginga fyrir því að fullnægjandi samgönguþjónustu verði haldið uppi á þessu sviði til allra staða á landinu.
    Ég hygg reyndar að þeir sem hafa farið yfir það strax á fyrstu mánuðum eftir að þessar breytingar urðu geti borið um að þegar láti á sér kræla ákveðin vandamál í sambandi við einangruð og afskekkt byggðarlög þó að þau séu e.t.v. ekki stórvægileg enn sem komið er og ég er alls ekki heldur að segja að þau muni ekki leysast, en væntanlega þarf þá að vinna að því. Mér er ekki kunnugt um það t.d. að samgöngur séu til einhverrar frambúðar tryggðar á sjó til allra byggðarlaga á Vestfjörðum sem eru þó vegna landfræðilegrar einangrunar mjög háð slíkum samgöngum. Hæstv. samgrh. getur e.t.v. upplýst okkur um að svo sé, þannig sé því t.d. háttað um Norðurfjörð á Ströndum, og er það þá vel.
    Ég hef a.m.k. undir höndum ákveðin gögn úr mínu kjördæmi sem strax benda til þess að þar muni skipafélögin af rekstrarlegum ástæðum fara út í ýmsar breytingar á tilhögun strandsiglinganna sem vekja takmarkaða hrifningu í sumum af þeim byggðarlögum sem fyrir verða. Þar með er ekki endilega sagt að þjónustan verði kannski verri til þeirra byggðarlaga því að e.t.v. er hægt að leysa hana með landflutningum í tengslum við sjóflutningana, en þetta hefur í för með sér ýmsar aðrar breytingar fyrir viðkomandi byggðarlög. Sveitarfélögin missa tekjur vegna þess að skipakomur leggjast af og ýmislegt annað getur fylgt í kjölfarið.
    Þannig hafa forsvarsmenn sveitarfélaga og fyrirtækja á Raufarhöfn fengið bréf nú nýlega frá Skipaafgreiðslu Húsavíkur hf., sem mun vera umboðsaðili Eimskipafélags Íslands á því svæði, og þar er tilkynnt að Eimskipafélagið hyggist hætta skipakomum á Raufarhöfn, ef ég ræð rétt í texta bréfsins, og eftirleiðis verði flutningum til Raufarhafnar hagað þannig, eins og þessir húmoristar sem skrifa bréfið taka nú til orða, að Skipaafgreiðsla Húsavíkur muni annast ,,siglingar`` fyrir þeirra hönd til Raufarhafnar á vörubílum. Þetta er þá alveg ný viðbót við tunguna að menn hafi undið upp segl og flengi nú sjóinn á vörubifreiðum milli staða og það meira að segja drekkhlöðnum af varningi. En ég ræð þannig í þetta orðalag að það standi sem sagt til að hætta skipakomum á vegum Eimskiparfélags Íslands til Raufarhafnar og í staðinn muni vöruflutningabílar Skipaafgreiðslu Húsavíkur annast tengingu við áætlunarsiglingar Eimskipafélagsins til Húsavíkur. Ég tek það skýrt fram að eins og ráða má af bréfinu verði þjónustan ekki lakari og jafnvel meiri en verið hefur, þ.e. tíðari, en hún verður öðruvísi því að vöruflutningabílar eru ekki sama og skip og það hljóta að vakna spurningar um ýmsa stórstykkjavöru og þungavöru sem erfiðleikar hljóta að geta verið samfara að taka með bílum milli staða, en þetta mun að sjálfsögðu hafa í för með sér ýmsar breytingar eins og ég var að nefna, til að mynda á tekjur viðkomandi sveitarfélgs. Þarna er búið að leggja í kostnað bæði af hálfu ríkis og sveitarfélags við hafnargerð. Þarna hefur það fyrirtæki sem er aðalframleiðandi sjávarafurða á staðnum lagt í nokkurn kostnað til að auðvelda sér að koma vöru milli fyrirtækis og skips og sú fjárfesting verður að sjálfsögðu ónýtt eins og nú horfir. Þó svo að þessi breyting, sem auðsjáanlega er að verða á stöðu mála á Raufarhöfn, kunni ekki að boða nein stórfelld vandræði, a.m.k. hvað samgönguþáttinn snertir hvað sem öðrum áhrifum líður, þá er ekki þar með sagt að svo verði alls staðar annars staðar.
    Mér sýnist það blasa við og þurfti svo sem enga speki til að sjá það fyrir að þetta mun taka til við að breytast með margvíslegum hætti í hinum einstöku byggðarlögum á grundvelli rekstrarhagsmuna tveggja skipafélaga sem eru fyrst og fremst starfandi á þessu sviði í landinu. Það má segja að svo sé komið hjá okkur Íslendingum að engin umtalsverð starfsemi, a.m.k. ekki sem áhrif hefur á flutningamál hér innan lands og í tiltölulega óverulegum mæli einnig milli Íslands og annarra landa, sé á höndum annarra en þessara tveggja skipafélaga. Þau standa í mikilli samkeppni. Sú samkeppni kann fyrst í stað að hafa birst í því hvað strandsiglingarnar snertir að fyrirtækin reyndu að ná fótfestu og sem sterkastri stöðu með því að bjóða upp á verulega þjónustu, jafnvel aukna þjónustu í mörgum tilvikum. En það er ekki þar með sagt að þegar frá líður verði það útkoman. Ég held að þarna hafi af eðlilegum ástæðum eðlilegar styrkleikaæfingar farið í gang milli skipafélaganna og er ekkert nema gott um það að segja. Það er eðlilegt þar sem þau eru að reyna að treysta stöðu sína, ná fótfestu og ná flutningum inn í sitt flutningakerfi. En þau munu að sjálfsögðu þegar frá líður og væntanlega fyrr en síðar af rekstrarlegum ástæðum neyðast til þess að fara ofan í saumana á þessum rekstri og skera jafnvel þar mjög niður þá þjónustuna sem minnstum tekjum skilar eða jafnvel kostar þar beinlínis fjárútlát. Það liggur í hlutarins eðli. Og þau munu þar fórna minni hagsmunum fyrir meiri. Þau munu ekki til þess að halda uppi þjónustu við afskekkt byggðarlög á landsbyggðinni tapa fé sem gerir þau verr í stakk búin til að keppa á markaðnum þar sem hann er þyngstur og mikilvægastur sem er í flutningum til og frá landinu og í flutningum á milli stærstu staða. Þetta segir sig alveg sjálft. Og ég tala nú ekki um ef svo fer á næstu árum, sem sumir óttast, að annað þessara skipafélaga verði undir í samkeppninni við hitt. Þá bið ég guð að hjálpa okkur. Það verð ég að segja alveg eins og er. ( ÓRG: Sumir vona það.) Það kann að vera að sumir voni það, já, að svo fari að óskabarnið verði aleitt eftir innan fárra ára því það virðist lítill vafi, því miður, hvorum muni veita betur ef í harðan slag fer, hvor hafi bolmagn til að ganga af hinum dauðum. Það er nokkuð ljóst að þar er leikurinn harla ójafn.
    Ég held, herra forseti að það hljóti að vera nauðsynlegt og óhætt að taka þessi málefni sjóflutninganna aðeins til umræðu undir þessum dagskrárlið í víðara samhengi. Það er eiginlega óhjákvæmilegt. Staðreyndin er sú að við Íslendingar búum á þessu sviði við mjög háskalega fákeppni. Það má segja að það hafi verið svo alveg frá því að fyrirtækið Hafskip hf. fór á höfuðið því að Eimskipafélag Íslands náð meira og minna að hirða þá aðstöðu og þá flutninga sem það fyrirtæki hafði með höndum og náði við þá breytingu algerum undirtökum t.d. í stykkjavöruflutningi til og frá landinu. Staðan er þannig í dag að þó svo flutningar á sjó hafi lengi að nafninu til verið frjálsir og reyndar sé það eitt svið viðskipta þar sem fjrálsræði hefur lengi að nafninu til ríkt, þá búum við við mjög takmarkaða samkeppni og satt best að segja háskalega fákeppni í þeim efnum.
    Ég get tekið tvö dæmi um hvernig þetta birtist. Þetta birtist í fyrsta lagi þannig að skipafélögin eða skipafélagið sérstaklega hefur með því að tryggja sér þannig undirtök hvað varðar hafnaraðstöðu í landinu og sérstaklega hér á suðvesturhorninu nánast komið í veg fyrir að nýir aðilar á sviði sjóflutninga geti hafið starfsemi með þeirri ósköp einföldu aðgerð að eiga allt viðlegupláss þannig að nýir aðilar, sem ætluðu sér að hefja sjósiglingar í samkeppni við núverandi aðila, geta bara hvergi bundið skipin sín. Þannig var það t.d. fyrir um tveimur árum þegar danskt skipafélag með umboðsmann á Íslandi fór í að reikna út möguleikana á því að hefja hingað siglingar, bjóða hér upp á þjónustu. Það dæmi leit dável út, fragtin var há og það virtust vera möguleikar á því að taka frá Danmörku hluta af þeim umtalsverðu flutningum sem fara milli Íslands og Danmerkur. En það var bara einn hængur þar á og hann var þessi: Skipafélagið sá ekki fram á hvar það gæti bundið skipin sín, losað þau og lestað þau á suðvesturhorni landsins af því að það var lítið um laust bryggjupláss. Og það vill nú reyndar svo grátbroslega vel til að þeir leituðu til þess fyrirtækis sem hefur verið að geispa golunni á undanförnum mánuðum og á núna að leggja niður, þ.e. Skipaútgerðar ríkisins, og Skipaútgerð ríkisins taldi það ekki beinlínis sitt hlutverk að vera að greiða götu erlendra skipafélaga inn í landið. En það var allavega afstaða samgrn. á þeim tíma að Skipaútgerð ríkisins skyldi ekki svara þessu erindi neitandi. Skipaútgerð ríkisins skyldi ekki svara því neitandi að til greina gæti komið að hið danska skipafélag fengi viðlegupláss og þjónustu í aðstöðu Skipaútgerðar ríkisins af því að það er engin samkeppni ef þannig er komið að engir nýir aðilar geta hafið starfsemi í sjóflutningum vegna þess að þeir sem fyrir eru eiga alla viðlegukanta í landinu. Það er auðvitað ekki alveg svo. En það stappar nærri að skipafélögin hafi með eignarhaldi sínu og á aðstöðu á höfuðborgarsvæðinu þannig aðstæður að þeir geti meira og minna útilokað að nýir aðilar hefji starfsemi sem þeim sé skeinuhætt. Menn kannast væntanlega við að það liggur við að skipafélögin, eða skipafélagið er mér nú nær að segja, hafi verið áskrifandi að húsnæði og viðleguköntum sem losnað hafa t.d. við gjaldþrot fiskvinnslufyrirtækja í Reykjavík eða Hafnarfirði ef um slíkt hefur verið að ræða á undanförnum árum. Og þeir eru að sjálfsögðu ekki að safna þessu að gamni sínu heldur liggur þarna ákveðin hugsun að baki.
    Í öðru lagi nefni ég að það skuli enn vera svo, ef ég veit rétt, að íslensku skipafélögin neiti smáinnflytjendum um safngámaþjónustu. Það segir líka sína sögu um hversu virk samkeppni er á þessu sviði. Fjölmargir aðilar kvörtuðu yfir því á sínum tíma við samgrn. þegar ég átti þar innangengt að það hindraði mjög möguleika þeirra á því að bjóða hér eðlilega þjónustu og lægra vöruverð á innfluttri vöru að skipafélögin neituðu þeim um svonefnda safngámaþjónustu og þá fyrst og fremst Eimskipafélagið sem er nánast ráðandi í stykkjavöruinnflutningi til landsins eins og ég hef áður sagt. Þetta þýðir að smáinnflytjandi sem er að flytja litlar vörusendingar til landsins sem ekki duga til að fylla heilan gám er látinn borga hærri fragt. Hann fær ekki þau kjör eins og stærri aðilar sem fylla heila gáma eiga kost á. Þetta er yfirleitt leyst þannig að smáaðilum er heimilað á grundvelli gjaldskrár að sameinast um að fylla í gáma og þannig geta t.d. þrír minni aðilar, sem kannski eru að flytja vöru sem er tiltölulega verðmæt í einingum en fer lítið fyrir, slegið sér saman um einn gám, fyllt hann og fengið þá þau farmgjöld sem þar með eru í gildi. En þetta er ekki hægt eða hefur a.m.k. ekki verið hægt vegna þess að íslensku skipafélögin hafa ekki séð ástæðu til þess eða ekki verið í þeirri aðstöðu að þau þyrftu að bjóða upp á slíka þjónustu. Afleiðingin er hærra verð á þeirri vöru sem smáinnflytjendur eru að taka inn í landið með skipum. Okkar heildverslun er nú einu sinni þannig, og má margt um það segja, að þar úir og grúir af ýmsum litlum aðilum sem eru að flytja inn smásendingar af ýmsum sérhæfðum vörum og þetta endurspeglast í hærra vöruverði í landinu en vera þyrfti. Það skal að vísu játað að það er nokkuð um liðið síðan ég fór yfir þessi mál, en þannig var þetta a.m.k. fyrir um 1--1 1 / 2 ári, þá var staðan svona. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að ræða þessi sjóflutningamál og siglingamál svolítið í almennara samhengi í tengslum við þetta frv. þar sem lagt er til að leggja niður Skipaútgerð ríkisins.
    Ég er fyrst og fremst, herra forseti, að mæla ákveðin varnaðarorð. Ég er að vara menn við því að trúa að það sé fundin einhver endanleg lausn á þessum sjóflutningamálum á ströndinni þannig að allir geti orðið hamingjusamir um aldur og ævi. Því miður óttast ég að svo sé ekki. Og meira en óttast. Ég er nokkuð sannfærður um að við munum sjá á næstu árum að skipafélögin --- hvort sem þau verða nú áfram tvö, ég tala nú ekki um ef annað þeirra nær undirtökunum í samkeppninni og króar hitt þannig af að það hætti að skipta máli eða jafnvel gengur af því dauðu eins og ýmsir óttast í viðskiptalífinu þessar vikurnar, ég hygg að þeir sem fylgjast nokkuð með umræðum á þeim vettvangi kannist við það og er beygur í mörgum út af því --- fari að gera þær ráðstafanir sem þeim sýnist og draga úr og skera niður og jafnvel hætta alveg þeirri þjónustu sem þau þurfa að leggja einhverja peninga með og þá mun það bitna mjög á mörgum minni byggðarlögum og ég óttast að við munum hverfa aftur til þess tíma, sem menn bjuggu við fyrir áratugum, að skipakomur voru stopular, fylgdu engri reglulegri áætlun heldur var siglt á fjölmörg byggðarlaganna eingöngu þannig að þegar það hentaði útflutningsaðilum framleiðsluvörunnar, sjávarfangsins yfirleitt, sem þar var framleidd, þá var sent skip á margra vikna eða jafnvel margra mánaða fresti, varan tekin og síðan var safnað í nýjan farm. Þetta var þjónusta sem var á engan hátt sambærileg við þá góðu þjónustu sem haldið var uppi á síðustu árum og áratugum af Skipaútgerð ríkisins og tryggði reglubundna flutninga á sjó til og frá öllum þéttbýlisstöðum við sjávarsíðuna hringinn í kringum landið að heita má.

    Það er líka annar þáttur þessa máls sem ég tel óhjákvæmilegt að nefna og hann er sá að ég óttast að þetta muni leiða til þess að talsvert flutningamagn færist af sjó og upp á land og það er óæskileg þróun. Hún er óæskileg vegna þess að það slítur vegunum. Það er dýrara að jafnaði en sjóflutningar og það er frá umhverfissjónarmiðum mjög óæskilegt. Þróunin erlendis er í þá átt að færa flutningana á nýjan leik í járnbrautir og á sjó og reyndar að draga eins og kostur er úr flutningum á landi á bílum og í lofti af þeirri ósköp einföldu ástæðu að þeir flutningar eru miklu umhverfisfjandsamlegri en ódýrari flutningar og flutningar sem nota minni orku með járnbrautum eða skipum. Auðvitað er það þannig að við erum að ganga alveg þvert á það sem menn telja æskilega þróun og er ekki deilt um einu sinni í nágrannalöndunum að sé hin æskilega þróun. Nú kann mönnum að finnast að þetta sé svo smáskítlegt atriði að það eigi ekki að nefna það í þessu sambandi og að við höfum ekki efni á því, Íslendingar, að vera að hugsa um slíka hluti. Ég er ekki sammála því. Ég held að okkur sé skylt að taka þátt í því með öðrum þjóðum að reyna að þróa þannig uppbyggingu í okkar atvinnulífi og samgöngumálum að það sé sem allra vinsamlegast umhverfinu og nokkur kostur er. Við eigum fyrir okkar litla hatt að gera það sem til okkar friðar heyrir í þessu og þarna er einmitt dæmi af því tagi sem ég tel að gæti flokkast undir beina afturför ef flutningar fara í umtalsverðum mæli að færast af sjó og upp á land.
    Það geta auðvitað verið þannig aðstæður. Það skal fúslega viðurkennt að frá rekstrarlegu sjónarmiði viðkomandi skipafélags sé hagstæðara að annast flutningana af landi að einhverju leyti, en það getur líka verið spurning um hvort menn eru þá með rétt tæki eða rétta aðstöðu og það t.d. að ætla að sinna strandflutningum á Íslandi með allt of stórum skipum er vitleysa, með mjög stórum skipum sem koma inn á örfáar hafnir og safna síðan vörunni með flutningabílum ,,hist og her``, það er óæskileg þróun að mínu mati, alveg tvímælalaust. Það þýðir mikið meira álag á vegakerfið en nokkur ástæða er til og það þýðir meiri orkueyðslu og þar fram eftir götunum.
    Herra forseti. Ég hef komið mínum sjónarmiðum við þetta mál á framfæri. Hæstv. samgrh. hefur tekið ákvörðun um að leggja niður Skipaútgerð ríkisins og hún hefur hætt rekstri að heita má og þar standa menn frammi fyrir gerðum hlut. Af þeim sökum er ekki sérstök ástæða til þess að leggjast gegn því, úr því að svo mikið liggur við, að lög um þessa starfsemi hverfi út úr lagasafninu. Ég verð þó að segja alveg eins og er að mér finnst þetta óðagot harla broslegt með hliðsjón af því að það úir og grúir af ákvæðum í lagasafninu sem eru komin dálítið til ára sinna og ekki öll fullkomlega framkvæmd 100%. Það er t.d. ekki langt síðan ákvæði um legorð presta hurfu út úr íslenska lagasafninu. ( ÁJ: Illu heilli.) Illu heilli því að auðvitað á ekki að vera að hreinsa út skemmtilega og menningarlega forngripi sem verið hafa í lagasafninu, sumir frá 13. öld. En ég er nokkuð viss um að þessum lagaákvæðum um legorð presta var ekki framfylgt alveg í smáatriðum síðustu árin sem þau voru í lagasafninu.
    Ég held þess vegna að það hafi ekki verið neinn stórkostlegur skaði skeður þó að lagaákvæði um Skipaútgerð ríkisins hefðu staðið í nokkra mánuði eða þess vegna einhver ár eftir að sú starfsemi fjaraði út. Nú er það upplýst að óðagotið sé svo mikið á hæstv. samgrh. að hann er að lenda í lagatæknilegum vandræðum vegna þess að hann fellir lögin úr gildi áður en allri starfsemi og forvöltun eigna lýkur sem undir þetta fyrirtæki hafa heyrt. Ég sé enga einustu ástæðu til að vera með slíkt óðagot, ekki nokkra einustu ástæðu. Ég held að hæstv. samgrh. hafi misskilið eitthvað að hann verði frægari af því afreksverki sínu að hafa komið Skipaútgerð ríkisins undir græna torfu eins og má að orði komast á líkingamáli. Ég held að það frægðarverk hans standi alveg eftir sem áður þó að hann flýti sér ekki svo mikið við það að fella lög um starfsemina úr gildi að hann lendi í vandræðum af þeim sökum. Ég hef að vísu ekki farið alveg nákvæmlega yfir hvernig málin standa lagatæknilega séð varðandi þær eignir og það starfsmannahald sem enn er á hendi Skipaútgerðar ríkisins, en ég sé a.m.k. enga sérstaka ástæðu til að vera með neitt óðagot í þeim efnum og mér finnst harla broslegt, satt best að segja svolítið barnalegt að vera með slíkt óðagot í þeim efnum. Hæstv. ráðherra getur haft hvern þann sóma sem reynslan mun dæma honum af því að hafa lagt niður Skipaútgerð ríkisins þó svo hann flýti sér ekki um of í sambandi við það að hreinsa ákvæði um þau efni út úr lagasafninu.
    Hér hafa menn gert, herra forseti, einkavæðingaráform hæstv. ríkisstjórnar svolítið að umtalsefni, m.a. hv. síðasti ræðumaður, 5. þm. Suðurl. Ég ætla ekki að fara að lengja þessa umræðu með því að fara langt inn í þá sálma. Ég sé svo sem ekki ástæðu til þess. Ég horfi ekki beinlínis á þetta mál sem dæmigert fyrir þessi einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar. Mér finnst það lúta talsvert öðrum lögmálum vegna eðlis þeirrar starfsemi sem hér var á ferðinni og þeirra aðstæðna sem þarna voru uppi. Ég er þeirrar skoðunar að út af fyrir sig geti það vel komið til greina að ríkið hætti starfsemi, dragi úr henni eða breyti henni einmitt á þeim sviðum þar sem einkaaðilar eru starfandi fyrir og hafa verið í samkeppni við ríkið. Það er vissulega alveg ljóst að þar er mönnum nokkur vandi á höndum að ríkisvaldið sé með starfsemi í gangi, sérstaklega ef hún nýtur styrkja, sem bjagar þá starfsumhverfi þeirra einkaaðila sem eru á viðkomandi sviði. Ég get þess vegna vel tekið undir að það er að mörgu leyti ekkert óeðlilegt að menn skoði möguleikana á því að ríkið dragi sig út úr starfsemi af þessu tagi. En ég tel að það hefði þurft að gera með mikilli gát og það hefði þurft að reyna að gera hafandi á höndum einhverjar tryggingar um að þolendur þeirra breytinga, fórnarlömb þeirra breytinga yrðu ekki sum afskekktustu og veikbyggðustu byggðarlög landsins. Það er ákaflega óæskileg hliðarverkun af breytingum á þessu tagi. En út frá hinum almennu grundvallaratriðum mundi ég ekki taka þetta mál sérstaklega sem dæmi um einhverja óskynsamlega einkavæðingarstefnu

ríkisstjórnarinnar. Þar er margt annað sem ég held að sé miklu, miklu umdeilanlegra og verra þar sem ríkisstjórnin er jafnvel með hugrenningar um að einkavæða einokunarstarfsemi eða fákeppnisstarfsemi, ég tala nú ekki um ef einokunarofstækið á að ná alla leið inn á viðkvæm svið félagslegrar þjónustu eins og gerst hefur t.d. í Bretlandi. En ég hygg að það verði annar vettvangur kannski heppilegri eða eðlilegri til að ræða betur þessi einkavæðingarmál. Þar á það við fyrst og fremst að mínu mati að það er öllum fyrir bestu að vera þar ekki með neitt óðagot eða ofstæki. Einkavæðing svokölluð eða breytingar á þátttöku ríkisins í einhverjum atvinnurekstri getur vel átt rétt á sér og er alltaf að eiga sér stað. Þessi ríkisstjórn er ekkert merkilegri en aðrar í þeim efnum. Ég tel t.d. að sú ríkisstjórn sem síðast sat hafi gert þar í nokkrum tilvikum ákaflega skynsama hluti, svo sem eins og þegar fyrirtækjum á Siglufirði var komið með farsælum hætti yfir í hendur heimamanna eða einkaaðila sem sameinuðust um að taka við rekstri þeirra og hleypa í þau í mörgum tilvikum nýjum þrótti. Þar held ég að við höfum ágætis dæmi um breytingar á þátttöku ríkisvaldsins í atvinnurekstri sem voru vel heppnaðar og skynsamlega var að staðið. En það er alveg ljóst að menn geta gert mikið tjón og lent í verulegum ógöngum ef þeir ana áfram í þessum efnum í einhverju ofstæki. Reynsla annarra þjóða sýnir okkur það, Breta alveg sérstaklega þar sem jafnvel harðsvíruðustu íhaldsmenn viðurkenna að ofstæki Margrétar Thatcher og fylgismanna hennar hefur leitt Breta í miklar ógöngur. Það á t.d. við þar sem þeir fóru út í að einkavæða ýmsa einokunarþætti í samgöngukerfinu og veitumálum og að því leyti má segja að hér eigi þau varnaðarorð við að við erum að tala um starfsemi á sviði samgangna þar sem frjálsri samkeppni eru veruleg takmörk sett, satt best að segja tæplega hægt að tala um hana sem slíka. Ég bendi á það að allar skilgreiningar í erlendum lögum um fákeppni eða markaðsráðandi afstöðu á einu sviði viðskipta mundu eiga við um sjósamgöngur á Íslandi, allar, og þó þar væru jafnvel fleiri um hituna en nú er. Þannig t.d. ganga bresk lög út frá því að hver sá aðili sem nær fjórðungi viðskipta á tilteknu sviði eða flutningum á einu sviði samgangna sé markaðsráðandi og þá þarf ekki frekari vitnanna við um drottnunar-, yfirburða-, markaðsráðandi afstöðu Eimskipafélags Íslands í sjósamgöngum til og frá landinu og væntanlega umhverfis það einnig, eftir þær breytingar a.m.k. sem nú eru að verða.
    Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Ég vildi láta þessi orð falla við þessa umræðu, en vil að öðru leyti ekki hafa af þessu frekari afskipti. Ég mun styðja þá brtt. sem minni hluti hv. samgn. gerir við frv., en að henni fallinni mun ég ekki greiða þessu máli atkvæði og ekki leggjast gegn því heldur.