Lánasjóður íslenskra námsmanna

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 14:52:00 (6651)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að stjórnarandstaðan hefur á undanförnum dögum og undanförnum vikum gert allt sem í hennar valdi stendur til að forða því slysi sem hér er að verða, til þess að verja Lánasjóð ísl. námsmanna og til þess að verja jafnrétti til náms. Með þessari brtt., um að í samráði við samtök námsmanna verði lög um Lánasjóð ísl. námsmanna endurskoðuð fyrir árslok og nýtt frv. um lánasjóðinn lagt fram fyrir næsta þing, er verið að gefa ríkisstjórnarliðinu enn eitt tækifæri til að bjarga sér að einhverju leyti út úr þeim ógöngum sem það lið er komið í í þessu máli. Þetta gæfi færi á að reyna að ná sáttum á nýjan leik um málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna, reyna að ná mönnum aftur saman að einu borði til þess að ræða að siðaðra manna hætti breytingar á þessu mikilvæga frv. eða þessum mikilvægu lögum sem sæmileg samstaða gæti orðið um. Þetta mál er um margt táknrænt. Þetta er táknrænt fyrir þá nýju stjórnarstefnu sem er verið að innleiða í landinu og þetta er jafnframt táknrænt fyrir vinnubrögð og viðhorf hæstv. ríkisstjórnar. Efnislega er það eins táknrænt og það getur orðið að ríkisstjórnin skuli nú standa fyrir því að fella niður úr lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna orðin ,,jafnrétti til náms``. Það er óhjákvæmilegt að óska Alþfl., svokölluðum Jafnaðarmannaflokki Íslands, til hamingju með þetta afrek.
    Hvað vinnubrögð ríkisstjórnarinnar snertir er þetta mál mjög táknrænt fyrir þann valdhroka sem hún hefur sýnt í hverju málinu á fætur öðru í vetur. Allt samráð er hundsað hvort sem heldur er við samtök námsmanna, stjórnarandstöðu og ekki er hlustað á þá víðtæku andstöðu við þessar breytingar sem sprottið hefur upp úr þjóðfélaginu á undanförnum vikum og mánuðum. Með þessari brtt. gæfist stjórnarliðinu færi á að bjarga sér að einhverju leyti í land og ég hvet þá stjórnarliða sem enn eiga eftir að gera upp hug sinn til þess að hugsa sig vel um áður en þeir ganga svo langt að hafna því að taka málið til skoðunar í framhaldi af afgreiðslu þess á þinginu í vor. Ég segi já, hæstv. forseti.