Lánasjóður íslenskra námsmanna

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 15:01:00 (6654)

     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Með ákvæði til bráðabirgða í þessari brtt. er gerð enn ein tilraunin til að telja ríkisstjórnarflokkunum hughvarf í þessu máli. Það eru til peningar á fjárlögum til að greiða út hluta af námslánunum í haust. Þessi till. snýst um það að 2 / 3 hlutar af þeim sem hefði annars átt að greiða út séu greiddir út vegna þess að fjárlög íslenska ríkisins heimila að 800 millj. kr. séu greiddar út. Það er því rangt, sem fram hefur komið hjá fulltrúum ríkisstjórnarinnar bæði í þessari umræðu og í eldhúsdagsumræðum sl. mánudag, að það sé verið að breyta lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna í þessa veru til að aðlaga þau fjárlögum. Það er rangt. Það eru til 800 millj. kr. Því hefur sú breyting sem gerð hefur verið á þessu frv. ekkert með það að gera að það séu ekki til peningar. Hér er fyrst og fremst um hreinan fautaskap í garð námsmanna að ræða og lýsir ótrúlegu skilningsleysi þessara flokka sem mynda ríkisstjórnina, Alþfl. og Sjálfstfl., lýsir ótrúlegu skilningsleysi á hlut námsmanna --- og þingmenn sem sitja hjá í þessari atkvæðagreiðslu fría sig engri ábyrgð í þessum efnum. Ég segi því já.