Lánasjóður íslenskra námsmanna

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 15:30:51 (6670)


     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ef frv. til laga um Lánasjóð ísl. námsmanna verður að lögum á næstu mínútum bera ríkisstjórnarflokkarnir ábyrgð á því að þúsundir námsmanna verða án framfærslueyris frá lánasjóðnum næstu mánuði og reyndar mánuðum saman. Ríkisstjórnarflokkarnir eru að gera lífsafkomu þúsunda námsmanna háða náð og miskunn bankakerfisins sem enginn veit með vissu hvernig bregðast mun við. Ríkisstjórnarflokkarnir bera þar með ábyrgð á vaxandi eftirspurn eftir lánsfé á almennum lánamarkaði með öllum þeim afleiðingum sem það kann að hafa fyrir efnahagslífið. Ríkisstjórnarflokkarnir eru með þessum lögum að breyta Lánasjóði ísl. námsmanna á þann veg að hér eftir verða námsmenn að taka lán með vöxtum og lántökugjöldum auk þess sem greiðslubyrði mun aukast verulega, svo mjög að hinir lægst launuðu munu sitja uppi með milljónaskuldir á elliárum. Sjálfstfl. og Alþfl., þar með talinn Össur Skarphéðinsson, fyrrv. formaður Stúdentaráðs, bera ábyrgð á því ef hópur námsmanna verður að hverfa frá námi vegna þess að þeir geti ekki útvegað sér ábyrgðarmenn eða sjá fram á að geta ekki staðið undir lánunum að námi loknu samhliða húsnæðisöflun og framfærslu fjölskyldu. Með þessum lögum eru Sjálfstfl. og Alþfl. einkum og sér í lagi að leggja stein í götu kvenna, nemenda á landsbyggðinni og þeirra sem stunda nám erlendis. Sjálfstfl. og Alþfl. --- Jafnaðarmannaflokkur Íslands, bera ábyrgð á því að nú er horfið frá þeirri jafnréttisstefnu sem unnið hefur verið að árum saman. Þeir komast nú í enn einn áfangastaðinn á leið sinni til samfélags þar sem ísköld markaðshyggja og miskunnarlaus samkeppni ríkir í stað samhjálpar og samábyrgðar.
    Virðulegi forseti. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa ekki hugmynd um afleiðingar þessara laga. Það sem vakir fyrir þeim er að minnka halla ríkissjóðs á þessu ári, gera Lánasjóð ísl. námsmanna líkan hverjum öðrum fjárfestingarlánasjóði og að stíga skref í þá átt að leggja niður þetta jöfnunartæki sem gert hefur þúsundum kvenna og karla kleift að mennta sig. Þessi lög, ef þau verða samþykkt, tákna hörmulega afturför og ég lýsi fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni og fylgifiskum hennar vegna þess óhæfuverks sem hér er verið að vinna. Virðulegi forseti. Ég segi nei.