Lánasjóður íslenskra námsmanna

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 15:34:00 (6671)



     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Nú er því miður ljóst í þessari atkvæðagreiðslu, sem senn er á enda, að svo margir stuðningsmenn þessarar ríkisstjórnar hafa goldið jáyrði við þessu frv. að það er að verða að lögum. Það er dapur dagur, ekki bara í sögu Alþingis og íslensku þjóðarinnar heldur dapur dagur í sögu jafnaðarmannahreyfingarinnar á Íslandi.
    Í 40 ár hefur það verið kjarninn í baráttu jafnaðarmanna um Evrópu alla að grundvallarrétturinn um jafnrétti til náms, um jafnrétti til hjúkrunar og umönnunar væri lögmál sem þjóðfélagið mundi halda í heiðri. Sá flokkur sem afnemur jafnrétti til náms úr lögum á Íslandi getur aldrei með sóma borið heitið jafnaðarmannaflokkur, hvað þá heldur heitið Jafnaðarmannaflokkur Íslands.
    Og ég vil segja við hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson og hæstv. iðnrh. Jón Sigurðsson að þegar feður okkar voru á Ísafirði að hefja merkið um jafnaðarstefnuna á loft og sendu syni sína til náms veit ég að þeir hefðu ekki trúað því að þið ættuð eftir að standa að því hér á Alþingi Íslendinga að setja þau lög sem hér er verið að gera. Þeir sem eru sprottnir upp úr jarðvegi jafnaðarstefnunnar á Ísafirði geta aldrei kallað sig með réttu jafnaðarmenn eftir að hafa sagt já við þessu frv. En sem betur fer virðast enn þá vera einhverjir ungir hugsjónamenn í Alþfl. og Samband ungra jafnaðarmanna hefur ákveðið að á flokksþingi Alþfl. muni þeir reyna að ná sigri í því máli sem er að tapast í dag. Við sem höfum barist gegn þessu frv. á Alþingi sendum samherjum okkar á væntanlegu flokksþingi Alþfl. baráttukveðjur. Við óskum þeim þess að þeim takist á flokksþingi Alþfl. að ná því fram sem ekki tekst í dag og við erum reiðubúin eins og þegar hefur fram komið að flytja á nýju þingi seinni hluta ágústmánaðar frv. að nýjum lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna þar sem þessum ólögum er hrundið. Og ef hugsjónamönnunum í Alþfl. tekst að binda á flokksþinginu ráðherrasveit sína og þingflokk er ljóst að þegar í ágústmánuði verður kominn nýr meiri hluti hér á Alþingi til að hrinda þessum ólögum og setja ný lög. Þess vegna hefur þingflokkur Alþb. ákveðið að flytja slíkt frv. hér ásamt öðrum félögum okkar í ágústmánuði.
    En ég vil einnig segja það, virðulegi forseti: Það verður meðal fyrstu verka nýrrar ríkisstjórnar, ríkisstjórnar raunverulegrar jafnaðarstefnu, að hrinda þessum ólögum og setja ný lög um Lánasjóð ísl. námsmanna þar sem aftur á ný jafnrétti til náms verður grundvallarþáttur í löggjöf á Íslandi. Það verður meðal fyrstu verka nýrrar ríkisstjórnar á Íslandi. Ég segi nei við þessum ólögum um leið og baráttan gegn þeim heldur áfram þótt hún tapist hér í dag.