Lánasjóður íslenskra námsmanna

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 15:38:14 (6672)


     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Hér er verið að setja vond og óréttlát lög sem verða öllum til óþæginda og því miður allt of mörgum til tjóns. Mér ógnar forherðing ríkisstjórnarflokkanna. Verstur er þó vesaldómur þeirra stjórnarliða sem hafa verið að hafa uppi gagnrýni á einstök ákvæði frv. en greiða því svo atkvæði að það verði lögfest. Væntanlega greiða þeir þá atkvæði gegn samvisku sinni.
    Við framsóknarmenn munum ekki una þessum lögum til frambúðar. Við munum taka málið upp á næsta þingi í von um að stjórnarliðið hafi þá séð að sér. Ég bið námsmenn, aðstandendur þeirra og alla sem vilja jafnrétti til náms án tillits til efnahags að ganga í lið með okkur og reyna að knýja ríkisstjórnarflokkana til undanhalds eða refsa þeim á kjördegi að öðrum kosti. Ég segi nei við þessu frv.