Afkoma landbúnaðarins

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 15:41:00 (6674)


     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Þær uggvænlegu fréttir hafa borist að til þess að markmið búvörusamningsins um sauðfjárframleiðslu náist þurfi sérhver bóndi að fækka í stofni sínum á komandi hausti um 17--20%. Þessar fregnir vekja ugg meðal þess fólks sem hefur framfæri sitt af sauðfjárrækt og það hlýtur líka að vera áhyggjuefni þeim sem gerðu og studdu þennan samning.
    Rúmt ár er nú liðið frá því að kosið var til Alþingis. Þá mátti heyra skýrar yfirlýsingar um að ekki mætti til flatrar niðurfærslu á framleiðslurétti koma. Að styðja þennan samning þótti þá góður kostur til að ná fylgi fólksins í sveitum landsins. Ef til vill hefur mönnum ekki verið ljóst að í raun byggði búvörusamningurinn á þeirri grundvallarforsendu að skerða sauðfjárstofninn flatt um u.þ.b. 1 / 5 .
    Í bréfi sem mér barst frá Ríkisendurskoðun er birt fróðleg tafla sem lýsir hvernig uppkaupum á fullvirðisrétti skyldi náð, þ.e. að færa 12 þús. tonn af fullvirðisrétti í kindakjöti niður í 8.300 tonn af greiðslumarki. Í þessari töflu er fullvirðisréttinum skipt í fjóra flokka og er nú gott fyrir hv. alþm. að skrifa hjá sér: Virkan rétt 9.140 tonn, virkan rétt ónýttan 700 tonn, riðusamninga 900 tonn og leigusamninga 1.260 tonn, alls 12 þúsund tonn. Markmið niðurfærslunnar voru þau að alla leigusamningana upp á 1.260 tonn átti að kaupa upp. Sama var ráðgert um riðusamningana sem tóku til 900 tonna og eins var um ónýtta fullvirðisréttinn, 700 tonn. Þannig áttu að fást í uppkaupunum um 2.680 tonn og var þá jöfnuðurinn fenginn með 840 tonna niðursfærslu úr virka fullvirðisréttinum. Markmiðið stóra, 3.700 tonna niðurfærsla, var þannig komin í höfn.
    Það er rannsóknarefni, raunar sálfræðilegt, að ná fram skýringu á því hvernig samningsmönnum hefur hugkvæmst að leggja þessi markmið til grundvallar við gerð búvörusamningsins. Til flats niðurskurðar hlaut að koma. Það gat ekki neinum dulist sem til þekkti.
    Þegar betur er að gáð komu önnur ákvæði búvörusamningsins hér einnig við sögu. Þann 1. sept. sl. var opnað fyrir frjálsa sölu á fullvirðisrétti milli sauðfjárbænda. Ríkissjóður sat því ekki lengur einn að þessum markaði. Þessi ráðstöfun veldur því að stórlega þrengist um kaup ríkissjóðs á fullvirðisrétti og enn bætist svo við að samkvæmt samningnum er bændum það auðveldur leikur, a.m.k. í mörgum tilvikum, að kaupa sér nokkurn fullvirðisrétt sé hann á annað borð fáanlegur.
    Eins og kunnugt er eiga bændur að fá fullar beinar greiðslur miðað við greiðslumark sitt ef þeir framleiða að lágmarki 80% af því. Beinu greiðslurnar eru því góð trygging fyrir skilvísri greiðslu fullvirðisréttarins og nýtast þótt engin framleiðsla komi fyrir nýja réttinn. Þessar ákvarðanir torvelda árangur í frjálsum uppkaupum ríkissjóðs á fullvirðisrétti og stuðla þannig að flatri skerðingu sauðfjárframleiðslunnar. Hvort svo það kann að vera viljandi eða óviljandi er niðurstaðan sú að flatur niðurskurður er beinlínis innbyggður í núverandi búvörusamning.