Afkoma landbúnaðarins

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 15:46:14 (6675)


     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Hinn 14. febr. á sl. ári skilaði sérstök nefnd, sem skipuð var fulltrúum bænda, hagsmunasamtaka og launþegasamtaka og vinnuveitenda, áfangaskýrslu um framleiðslu sauðfjárafurða til þáv. ríkisstjórnar sem hafði að almennri markmiðsetningu:
    1. Að lækka vöruverð til neytenda án þess að slaka á þeim gæðakröfum sem gerðar eru til búvara í dag.
    2. Að leita leiða til lækkunar vöruverðs án þess að það kæmi niður á afkomumöguleikum bænda.
    3. Niðurstaðan ætti að leiða til lækkunar opinberra útgjalda til landbúnaðarins.
    Það var jafnframt ákeðið að þessi aðlögun miðaðist við að eingöngu yrði framleitt til innanlandsneyslu en útflutningsbætur féllu niður. Það er frammi fyrir þessum vanda sem við stöndum nú í dag og því miður blasir sú staðreynd við að innanlandsneysla á lambakjöti hefur dregist saman meira en menn óraði fyrir og eins og nú horfir er svo komið að reikna má með að greiðslumark næsta árs verði ekki yfir 8.200 tonnum sem þýðir 300 tonna samdrátt milli ára og 400 tonna samdrátt ef tekin er með í dæmið sú framleiðsla sem Framleiðnisjóðurinn stendur nú undir.
    Af þessum sökum, vegna þess að við blasir að bændur munu ekki eða hafa ekki sýnt vilja til þess að skila fullvirðisrétti til ríkissjóðs, lagði ég fram þá tillögu í ríkisstjórninni fyrir skömmu að ríkissjóður endurvæki hliðstæð kauptilboð og voru í gangi sl. sumar og freistaði þess að kaupa út framleiðendur og

draga þannig úr þörf fyrir flata skerðingu. Þessi tilboð verði háð því að framleiðendur selji allan fullvirðisrétt sinn og standi til 31. ágúst. Það er að sjálfsögðu óvíst hversu margir kynnu að taka slíku tilboði, en ekki virðist ástæða til að kaupa fleiri en 20 þúsund ær. Ef það tækist og miðað væri við 500 tonna fullvirðisrétt yrði kostnaðarauki af þessum sökum um 115 millj. kr. auk vaxta.