Afkoma landbúnaðarins

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 15:49:24 (6676)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Það er hægt að taka undir með hv. 3. þm. Austurl. að búvörusamningurinn sem gerður var á síðasta ári við bændur í skugga hins takmarkaða markaðar sníður sauðfjárbændum þröngan stakk. Útkoman hefur þó orðið verri en gengið var út frá vegna vaxandi atvinnuleysis eftir eins árs setu núv. ríkisstjórnar. Í samningunum eru samt ýmis ákvæði sem eiga að auðvelda bændum að standa breytingarnar af sér. Núv. ríkisstjórn hefur hins vegar ekki staðið við þessi ákvæði og virðast stjórnarflokkarnir því hafa talið að samningurinn gerði stöðu bænda of góða.
    Við gerð fjárlaga fyrir þetta ár var samningsbundið framlag til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins skorið niður um helming eða 340 millj. kr. Þessu fjármagni átti að verja til að leggja grunn að nýjum störfum í stað samdráttarins en stjórnarflokkarnir hafa talið að ekki væri þörf fyrir meiri atvinnu í sveitum landsins.
    Við afgreiðslu fjárlaga samþykktu stjórnarflokkarnir einnig að skerða samningsbundnar beinar greiðslur til sauðfjárbænda um 295 millj. á þessu ári sem er um 1 / 6 af launum þeirra. Þannig taldi Sjálfstfl. og Alþfl. að sérstakt réttlæti væri að lækka þannig laun sauðfjárbænda einna.
    Í þriðja lagi samþykktu stjórnarflokkarnir að fella úr gildi ákvæði jarðræktarlaga, m.a. um framlög til endurræktunar túna o.fl. til að auka framleiðni búrekstrarins. Sjálfstfl. og Alþfl. töldu að ekki væri réttlætanlegt að stuðla þannig að arðbærari búrekstri. Einnig má benda á lítil framlög til landgræðslu og skógræktar og ýmislegt fleira sem er í litlu samræmi við vonir þær sem bændur bundu við samninginn. Það er því vissulega knýjandi að ríkisstjórnin breyti stefnu sinni og styðji við bakið á bændum.