Afkoma landbúnaðarins

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 15:51:31 (6677)


     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Mér er ekki alveg ljóst hver á að vera megintilgangur þessarar umræðu og allra síst hvaða árangri hún á að skila miðað við tímamörk. Hér voru ekki bornar fram spurningar, hér var ekki bent á úrræði. Ef ætlunin er að finna sökudólg held ég að sú leit geti nú orðið tafsöm hvað varðar vanda íslensks landbúnaðar.
    Eitt vil ég segja við hv. 3. þm. Austurl.: Það er eitt að gera samning og annað að framkvæma hann, annað að standa við hann. Ég held að hv. 3. þm. Austurl. eigi þar enn verk að vinna að koma sinni eigin ríkisstjórn til þess að standa við þennan samning áður en hann fer að gagnrýna hann. Auðvitað hlýtur hv. 3. þm. Austurl. og aðrir sanngjarnir menn að átta sig á því að það er ekki nýjasti búvörusamningurinn sem veldur í heild sinni þeim vanda sem nú er að glíma við í íslenskri sauðfjárrækt eða íslenskum landbúnaði. Það er ekki búvörusamningurinn sem veldur þeim samdrætti í neyslu kindakjöts sem orðið hefur á undanförnum árum. Það gera þvert á móti stórlækkaðar niðurgreiðslur, alveg sérstaklega í tíma ríkisstjórnar Framsfl. og Sjálfstfl. með viðhenginu Alþfl. á einu ári, á árabilinu 1983--1988. Þetta samfara verðhruni á útflutningsmörkuðum er sá vandi sem við erum að glíma við í þessu máli, ekki nýjasti búvörusamningurinn. (Gripið fram í.) Ég gerði það nú, hv. frammíkallandi, ef þú hefur heilsu til að vera að skipta þér af þessu máli. Það er nákvæmlega það sem var gert. Það er hrun niðurgreiðslnanna á árunum 1983--1988 samfara og samhliða hruni í neyslu innan lands sem er auðvitað meginundirrót þessa vanda.
    Og eitt að lokum, hv. stjórnarliðar: Það er bókstaflega ekkert sem bannar ykkur að vera betri við íslenska bændur en fyrri ríkisstjórn og búvörusamningurinn gerir ráð fyrir. Ég veit ekki um nokkurn mann í landinu sem mundi leggjast gegn því að ríkisstjórnin yrði betri við íslenska bændur. ( GÁ: Þeir hétu því í kosningunum.) Gjörið þið svo vel og verið betri við íslenska bændur ef þið viljið, en komið ekki hér með málflutning af þessu tagi. Hann þjónar engum tilgangi, ekki einu sinni atkvæðaveiðum.