Afkoma landbúnaðarins

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 15:53:53 (6678)


     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég get verið sammála formanni landbn., Agli Jónssyni, um að búvörusamningurinn er um margt gallaður. Í samningnum var ekki tekið nægilegt tillit til landnýtingarsjónarmiða og ekki mörkuð skýr stefna um hvar æskilegast væri að halda sauðfjárbúskap við lýði með lífvænlegum hætti fyrir bændur. Í samningnum var ekki tekið á verðmyndunarkerfinu, dreifingu eða vinnslu, auk þess sem eftir er að taka á vanda mjólkuriðnaðarins.
    Það þarf að horfa á landbúnaðinn í heild. Það er engum til góðs að taka ekki á þeim offramleiðsluvanda sem við er að glíma í stærstu greinum íslensks landbúnaðar.
    En, virðulegur forseti, gert er gert. Búvörusamningurinn er staðreynd og því á að standa við hann. Það gera sér allir ljóst að fram undan er enn frekari samdráttur í íslenskum landbúnaði. Kjöt- og mjólkurframleiðsla er enn meiri en við getum torgað og það er ekkert útlit fyrir að möguleikar á útflutningi opnist í bráð, en þó kann það að gerast ef bændur nýta sér þá möguleika sem kunna að felast í GATT-samningnum þegar og ef hann tekst. Takist bændum ekki að bregðast við innflutningi sem hugsanlega hefst í kjölfar samninganna um EES, verði sá samningur samþykktur hér á hinu háa Alþingi, er ljóst að vandi landbúnaðarins verður enn meiri en nú blasir við. Þær meginspurningar sem við glímum við eru: Hvernig getum við gert bændum þann samdrátt sem fram undan er nú í haust sem allra sársaukaminnstan og hvernig verður hægt að nýta þau sóknarfæri sem felast í tiltölulega lítið menguðum framleiðsluvörum Íslendinga til að efla landbúnaðinn.
    Ég tel að í ljósi þeirra aðgerða sem stjórnvöld hafa gripið til á undanförnum árum og snerta landbúnaðinn beri samfélaginu í heild skylda til að aðstoða bændur ýmist til að hætta búskap ef það er vilji þeirra eða til að skapa störf í sveitum landsins þannig að fólk geti áfram búið í sinni heimabyggð. Það verður ekki annað sagt en að stjórnvöld hafi þar algerlega brugðist. Og snertir það ekki síst konur í sveitum landsins. Það er staðreynd að íslenskur landbúnaður er bundinn á klafa miðstýringar og reyrður niður með lagabálkum sem ég held að standi þróun hans fyrir þrifum.
    Það sýnir einna best hve óeðlileg staða landbúnaðarins er miðað við aðrar atvinnugreinar hvernig samið er um framtíð hans milli ríkis og bænda og milli aðila vinnumarkaðarins. Ég held að það sé lífsnauðsyn að íslenskur landbúnaður öðlist frelsi til að ráða málum sínum sjálfur og losni undan pilsfaldi ríkisins sem margt bendir til að hafi farið langt út fyrir valdsvið sitt ef marka má úttekt Sigurðar Líndals á lagasetningum undanfarinna ára um landbúnað.
    Og að lokum, virðulegur forseti, spurning til hæstv. landbrh.: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að mæta þeim vanda sem sauðfjárbændur standa frammi fyrir? Hvað hefur verið gert til að skapa þeim ný störf? Eða er bændum ætlað að bætast við á atvinnuleysisskrárnar sem nú þegar eru orðnar allt of langar?