Afkoma landbúnaðarins

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 15:59:39 (6680)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Vandi sauðfjárframleiðslunnar er mikill. Á tveimur árum verða bændur að fækka um fjórðu hverja kind. Þar á ofan svíkur ríkisstjórnin búvörusaming með því að hýrudraga sauðfjárbændur á þessu ári um tveggja mánaða laun eða sem svarar tveggja nánaða launum, skerðir síðan Framleiðnisjóð. Sauðfjárframleiðslan er í blindgötu og gjaldþrot blasir óhjákvæmilega við fjölda bænda innan fárra ára ef ekki verður breyting á. Markaðshlutdeild dilkakjötsins minnkar stöðugt. Við hljótum að vera á rangri braut.
    Ég hef aldrei haft trú á að stjórn á einni kjöttegund á meðan hinar væru frjálsar gengi upp, enda bæta frjálsu kjöttegundirnar stöðugt markaðshlutdeild sína á meðan neyslan á dilkakjötinu dregst saman. Dilkakjötið er of dýrt og það verður að laga með einhverjum hætti.
    Maður getur velt fyrir sér hvort til greina komi héðan af að kvótasetja allt kjöt eða hreinlega að gefa hið kvótasetta kjöt, þ.e. dilkakjötið, frjálst. Þessi spurning vefst fyrir mér. Ég ætla ekki að svara henni nú. En hún hlýtur óhjákvæmilega að koma upp í hugann. Landbúnaðarpólitík okkar stemmir heldur ekki við landbúnaðarpólitík umheimsins. Við erum aðilar að EFTA, verðum sennilega aðilar að EES og sennilega verða gerðir GATT-samningar um landbúnaðarmál sem byggja á allt öðrum forsendum en íslensk landbúnaðarpólitík, þ.e. útflutningsbótum og niðurgreiðslum, á sama tíma og útflutningsbætur og niðurgreiðslur eru afnumdar hér. Og síðan er mönnum hellt út í samkeppni.