Afkoma landbúnaðarins

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 16:04:52 (6682)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns koma að ummælum hv. 4. þm. Norðurl. e. um þátt Framsfl. í stefnu og störfum að landbúnaðarmálum á umliðnum árum. Af því að hann gerði það á þann hátt sem hér kom fram leggjum við framsóknarmenn störf okkar í stjórnmálum á sviði landbúnaðarmála alveg óhikað í dóm og berum þau óhikað saman við þann tíma sem Alþb. fór með þann málaflokk. Ég býst við að bændur landsins væru alveg tilbúnir að taka þátt í þeirri umræðu að bera saman búvörusamninginn frá 1985 og þann sem gerður var á síðasta ári. Ég dreg hins vegar enga dul á að framsóknarmenn stóðu að þeim búvörusamningi. Það var alveg ljóst þá að ekki var lengur pólitískur vilji til að flytja út búvörur. Það var þess vegna ljóst að það þurfti að grípa til margháttaðra hliðaraðgerða í sveitum landsins ef þeir sem áfram ættu að hafa sitt viðurværi af sauðfjárrækt hefðu viðunandi afkomu og ekki ætti að koma til stórfelldrar fækkunar.
    Á þessu sviði hefur núv. ríkisstjórn algerlega brugðist. Framlög til Framleiðnisjóðs hafa verið skorin niður. Það er ekki staðið við beinu greiðslurnar til bænda og þyngst vegur hið almenna atvinnuástand sem gerir að verkum að allir þeir sem hafa rétt til, nánast allir, hafa nú ákveðið að nýta sér rétt sinn til að taka upp sauðfjárframleiðslu aftur þó svo þeir hafi verið búnir að leigja sinn rétt eða hann hafi verið úti vegna riðusamninga.